Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir gott samráð sem forsætisráðuneytið hafði við samtökin við samningu frumvarpsins og vilja á þessu stigi kom efftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.
Samtökin ítreka ábendingu um að skoða þurfi hvort rétt, sanngjarnt og eðlilegt sé að hafa skilyrði um „langvarandi“ í skilgreiningu fötlunar og fatlaðs fólks í frumvarpinu í ljósi efnis og tilgangs laganna og eðlis þeirra mannréttinda sem þeim er ætlað að vernda.
Samtökin leggja til að starfshópi sem á að skipa samkvæmt 11. gr. frumvarpsins „til að fjalla sérstaklega um mismunun vegna tengsla og mögulegar tillögur til breytinga á lögum þessum og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, til að koma til móts við þessar háttar mismunun“ verði einnig falið að fjalla um mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings (e. discrimination by perception).
Með mismunun á grundvelli skynjunar eða skilnings er átt við þegar einstaklingi er mismunað vegna þess að hann er talinn tilheyra tilteknum hópi, s.s. talinn vera fatlaður, samkynhneigður, tiltekinnar trúar o.s.frv.
Þá leggja samtökin til að í frumvarpinu verði kveðið skýrar á um hvenær umræddur starfshópur á að skila niðurstöðu sinni til ráðherra í síðasta lagi.
Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma fleiri ábendingum á framfæri varðandi frumvarpið á síðari stigum, þ.m.t. þegar Alþingi hefur frumvarpið til meðferðar.
Virðingarfyllst.
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Frumvarpið sem umsögnin á við má nálgast hér