Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (afnám þjónustusviptingar)

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (afnám þjónustusviptingar), 62. mál

               3. október 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína og starf á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Landssamtökin Þroskahjálp styðja frumvarpið og taka undir það sem fram kemur í greinargerð með því.

Þá vilja samtökin árétta skyldur sem hvíla á íslenska ríkinu til að líta sérstaklega til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðra hælisleitenda og flóttafólks samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim. Íslenska ríkisstjórnin og þ.m.t. dómsmálaráðuneytið vinna nú að innleiðingu samningsins samkvæmt sérstakri landsáætlun um það og ríkisstjórnin hyggst leggja fram frumvarp í haust um lögfestingu samningsins.

Samtökin benda sérstaklega á að þegar um er að ræða það sem stundum er kallað „ósýnilega" fötlun, þ.e. þroskahömlun, einhverfu eða geðrænar áskoranir er sérstök hætta á að fólk fari á mis við þau réttindi og vernd sem það á njóta vegna þessa. Á íslenska ríkinu hvílir skýlaus skylda til að haga verklagi við meðferð og mat umsókna um alþjóðlega vernd og/eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum þannig að tryggt verði, eins og nokkur kostur er, að fólk fari ekki af þessum ástæðum á mis við réttindi og vernd sem ríkinu ber að tryggja því.

Þá vilja samtökin sérstakleg benda á eftirfarandi:

• Staða fatlaðs fólks í aðstæðum sem fólk flýr úr eru sérstaklega erfiðar. - Sérstaklega vegna fötlunar þess og alls kyns hindrana sem það mætir.

• Fatlað fólk kemst síður en annað fólk burtu úr slíkum aðstæðum.

• Fatlað fólk kemst styttri vegalengdir, ef það á annað borð getur flúið.

• Fatlað fólk er oft skilið eftir í hörmulegum aðstæðum þegar aðrir flýja.

• Fatlað fólk er þannig líklegt til að festast í mjög erfiðum aðstæðum um langan tíma.

• Fatlað fólk er líklegt til að upplifa mjög mikla streitu og erfiðleika á flóttanum.

• Erfiðleikar sem fólk á flótta almennt mætir verða oft óyfirstíganlegir þegar fatlað fólk á í hlut - Vegna fötlunar þess.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Katarzyna Kubiś, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.