Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd)

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd). 595. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar.

Samtökin fagna því að tekið hefur verið tillit til fyrri umsagna samtakanna um breytingar á frumvarpinu á þann hátt að ekki verði heimilt að svipta alvarlega veikt og fatlað fólk og fjölskyldur þess þjónustu á meðan það dvelur á landinu, þótt umsókn þess um alþjóðlega vernd hafi verið synjað. Í greinargerð er útskýrt að með fötluðum einstaklingi með langvarandi stuðningsþarfir sé átt við þá sem hafa þörf fyrir þjónustu og/eða stuðning sem er meiri eða sérhæfðari en svo að þörfinni verði fullnægt innan almennrar þjónustu, sbr. lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum greinum og ákvæðum hans og gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja það, sbr. 4. gr. samningsins.

Eins og kunnugt er er viðurkennd sú lögskýringarregla í íslenskum rétti að skýra beri lög í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar frá 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000.

Með vísan til framangreinds telja Landssamtökin Þroskahjálp ljóst að við meðferð og ákvarðanir varðandi umsóknir fatlaðs fólks um alþjóðlega vernd hér á landi sé skylt að taka mikið tillit til skuldbindinga sem hvíla á íslenska ríkinu samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina “Jafnrétti og bann við mismunun” og hljóðar svo:

   “1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.

     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.” (Undirstr. Þroskahj.)

“Viðeigandi aðlögun” í skilningi samningsins er skilgreind svo í 2. gr. hans:

    “„viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.”

Undanfarið ár hafa Landssamtökin Þroskahjálp fengið til umsagnar og skoðunar æ fleiri mál sem varða fatlaða umsækjendur um alþjóðlega vernd og fjölskyldur þeirra. Fullt tilefni er til að ætla að meðferð slíkra mála sé oft ekki í samræmi við þær skyldur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og íslenskum lögum. Á meðal þeirra atriða sem ekki eru uppfyllt í mörgum tilvikum í umræddum málum er sú afdráttarlausa og augljósa skylda, sem leiðir af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, að greina og túlka gögn eða grunsemd sem gefur vísbendingar um fötlun með atbeina sérfræðinga á því sviði, veita viðeigandi aðlögun við málsmeðferð og taka tillit til sérlega viðkvæmrar stöðu sem leiðir af fötlun þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.

Það eru vonbrigði að breytingartillaga sú sem hér er til umfjöllunar skuli ekki fela í sér ákvæði um hvernig betur verður staðið að málsmeðferð fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd til að mæta þeim skyldum sem á stjórnvöldum hvíla. Í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi fyrir viðkomandi umsækjendur vilja samtökin því ítreka eftirfarandi:

  • Upp geta komið og upp hafa komið tilvik þar sem umsækjandi um alþjóðlega vernd býr við “ósýnilega” fötlun, s.s. þroskahömlun og/eða einhverfu sem ekki upplýsist um fyrr en eftir að úrskurður hefur verið kveðinn upp í máli viðkomandi. Komi fram gögn sem benda til fötlunar hvílir sú rannsóknarskylda á stjórnvaldi að kanna hvort þau eiga við rök að styðjast og ef svo er, hvaða áhrif það hefur á niðurstöðu í málinu.
  • Gera verður kröfu um að framlögð gögn og vísbendingar sem gætu bent til fötlunar séu metin af viðurkenndum aðila sem hefur þekkingu og forsendur til að lesa úr og leggja mat á slík gögn.
  • Í ljósi þeirra mikilsverðu hagsmuna sem eru í húfi er mikilvægt að tryggt sé að fötluðum umsækjendum sé veitt viðeigandi aðlögun, t.d. með tilliti til framkvæmd viðtala, stuðnings og þjónustu.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar til að tryggja réttindi fatlaðs fólks og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og er svohljóðandi:

„Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Samtökin árétta sérstaklega áskorun sína og 14 annarra samtaka til ríkisstjórnarinnar um að draga þetta frumvarp til baka og vinna það betur og í mun meira samráði við alla þá hagsmunaaðila sem að málaflokknum koma.

Þá krefjast samtökin þess að hlutaðeigandi stjórnvöld tryggi, eins og nokkur kostur er, að hælisleitendum verði ekki vísað úr landi án þess að rannsakað hafi verið með viðeigandi og vönduðum hætti hvort þeir séu fatlaðir eða kunni að vera fatlaðir í skilningi fjölþjóðlegra mannréttindasamninga og geti því átt rétt til verndar samkvæmt þeim samningum og/eða íslenskum lögum eða til dvalarleyfis af mannúðarástæðum.

 

Virðingarfyllst.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.