Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), 972. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi.

Vegna kórónaveirunnar hefur ýmsum starfseiningum sem eru sóttar af fötluðum einstaklingum og reknar eru af ríki og/eða sveitarfélögum verið lokað um lengri eða skemmri tíma. Engin ástæða er til að ætla, eins og staðan er nú og útlitið er, að það muni ekki gerast á komandi mánuðum og jafnvel misserum. Þeir fötluðu einstaklingar sem fá þjónustu á stöðum sem er lokað þurfa mjög oft að dveljast á heimilum sínum þann tíma sem þeir annars hefðu verið á þeim stöðum og hefðu fengið þar þá þjónustu sem þeir þurfa vegna fötlunar sinnar og eiga lagalegan rétt á að fá. Það leiðir til þess að foreldrar þeirra og/eða aðrir aðstandendur þurfa í mörgum tilvikum að vera heima hjá þeim til að veita þeim þjónustu og stuðning sem þeir geta ekki verið án vegna fötlunar sinnar.

Þroskahjálp hafa borist margar fyrirspurnir frá fólki sem er í þessari stöðu og hefur eðlilega m.a. miklar áhyggjur af þeim tekjuskerðingum sem það kann að verða fyrir vegna þessa.

Landssamtökunum Þroskahjálp finnst það vera augljóst og mikið réttlætismál að umræddir foreldrar og aðstandendur sem verða að vera frá vinnu af framangreindum ástæðum fái að njóta sama réttar og mælt er fyrir um í þessu frumvarpi, enda er þar einnig um að ræða óhjákvæmilegar fjarvistir frá vinnu vegna kórónaveirunnar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skora samtökin á velferðarnefnd og Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu til að tryggja að foreldrar og/eða aðrir aðstandendur fatlaðra einstaklinga sem eru eða verða frá vinnu af framangreindum ástæðum fái greiðslur þegar þeir verða af tekjum vegna fajrvista frá vinnu af framangreindum ástæðum.

Þá benda Landssamtökin Þroskahjálp enn einu sinni á, að sá hópur fólks sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi eru þeir sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum mun lægri en lágmarkslaun og umtalsvert lægri en atvinnuleysisbætur, sem eru þó svo lágar að mjög margir hafa réttilega miklar áhyggjur af því að þær dugi alls ekki fyrir framfærslu fólks í íslensku samfélagi.

Landssamtökin þroskahjálp skora því enn á ríkisstjórnina og Alþingi að standa við að bæta kjör fatlaðs fólks og öryrkja, eins og segir að skuli gert í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.“

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa eindregnum vilja og áhuga til að hafa samstarf og samráð við ríkisstjórnina og Alþingi um hvernig megi án frekari tafa standa við þessa skýru yfirlýsingu.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má umsögn um frumvarp sem umsögnin á við hér.