Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 45. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 45. mál

 

             14. október 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt þingsályktun, sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní 2019, átti að leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki enn verið gert.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: ”Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur ... .”

Með lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks yrði mannréttindum fatlaðs fólks veitt mjög aukin vernd. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir stjórnvöldum og dómstólum. Lögfesting samningsins mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki.

Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er m.a. afar mikilvægur liður í að tryggja betri framfylgd laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsaþarfir, af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Óumdeilanlegt er, að mati Þroskahjálpar, að mjög mikil þörf er á að bæta þá framfylgd verulega.

Þá er augljóst að lögfesting samningsins væri mjög mikilvægur og áhrifaríkur þáttur til að framfylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem voru samþykkt af öllum aðildarríkjum SÞ, þ.m.t. íslenska ríkinu, í september 2015. Ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. Meginmarkmið heimsmarkmiðanna er að skilja engan eftir (e. “No one will be left behind”). Fatlað fólk hvarvetna í heiminum hefur verið og er enn "skilið eftir" á öllum sviðum samfélagsins. Ísland er engin undantekning frá því. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks var gerður til að bregðast við því.

Heimsmarkmiðin eru nátengd alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem mælt er fyrir um í fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja, m.a. og ekki síst Í samningi SÞ um réttindi fatlað fólks. Ljóst er að verulega vantar upp á að fatlað fólk njóti þessara réttinda og tækifæra á Íslandi til jafns við aðra. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks og heimsmarkmið SÞ eru öflug tæki fyrir íslensk stjórnvöld til að tryggja að fatlað fólk á Íslandi fái notið þessara mannréttinda til jafns við aðra.

Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við lögfestingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og skora á velferðarnefnd og Alþingi að hraða lögfestingu hans, eins og nokkur kostur er.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér