Íslensk stjórnvöld hafa skyldur til þess að efla, verja og framfylgja mannréttindalegum skuldbindingum. Þau eiga ekki að taka þátt í eða styðja við aðgerðir þegar hönnun og framkvæmd við notkun á kerfum sem nýta gervigreind og aðrar stafrænar lausnir, þ.m.t. í samstarfi við einkaaðila, sem geta ógnað mannréttindum.
Landssamtökin Þroskahjálp telja mikilvægt að gerður verði rammi um stafræn aðgengis- og réttindamál er varða mannréttindamál í breiðum skilningi, en sér í lagi þegar kemur að jaðarsettum hópum í samfélaginu og þá sérstaklega fötluðu fólki. Stjórnvöld þurfa að viðurkenna og vinna samkvæmt skuldbindingum sínum á sviði mannréttinda og fella þær skuldbindingar inn í lög, reglugerðir og stefnu um stafræn mál.
Í núverandi drögum að stefnu er hvergi minnst á þessar mikilvægu skyldur og álitamál. Nauðsynlegt og skylt er samkvæmt er að markmið um hagræðingu og sparnað verði ekki á kostnað aðgengis fatlaðs fólks. Jafnframt þarf að bjóða upp á aðrar leiðir en stafrænar til að eiga samskipti við hið opinbera og að óska megi eftir þeim með auðveldum hætti.
Reglugerð um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga (GDPR) byggist á mannréttindalegum skuldbindingum. Reglugerðin felur í sér vernd almennra borgara þegar kemur að gagnavernd (e. data protection) og friðhelgi sem leggur skyldur á fyrirtæki og stofnanir sem safna gögnum um íbúa Evrópusambandsins. Evrópuráðið segir frá því í skýrslu sinni frá 2018 um gervigreind og mannréttindi að það séu auknar áhyggjur af notkun algóritma og gervigreindar í samfélaginu og áhrif þess á mannréttindi.1 Því er brýnt að íslensk stjórnvöld hafi mannréttindi að leiðarljósi þegar kemur að meðhöndlun persónuupplýsinga og friðhelgi fatlaðs fólks, sem er sérstaklega berskjaldað.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins, þ.m.t. við stefnumótun sem hefur áhrif á stöðu og tækifæri fatlaðs fólks til virkrar þátttöku í samfélaginu á öllum sviðum, til jafns við aðra. Í samningi SÞ eru ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu hvað varðar þá stefnumótun sem hér er til umfjöllunar og stjórnvöldum er skylt að líta sérstaklega til við gerð stefnunnar. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við stjórnvöld um það og vísa í 1 Latonero. 2018:20-21; Evrópuráðið. „Algorithms and Human Rights: Study on the Human Rights Dimensions of Automated Data Processing Techniques and Possible Regulatory Implications,“ mars 2018. Sótt af https://rm.coe.int/algorithms-and-human-rights-en-rev/16807956b5því sambandi til samráðsskyldna stjórnvalda samkvæmt samningnum sem eru áréttaðar sérstaklega í 4. gr. hans sem hefur yfirskriftina “Almennar skuldbindingar”. Þar segir: „Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“
Að lokum vilja Landssamtökin Þroskahjálp vekja athygli á því að skjalið fyrir drögin að stefnunni er ekki aðgengilegt fólki sem notar skjálesara, sem brýtur gegn réttindum og aðgengi fatlaðs fólks.
Virðingarfyllst.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála
Nánar má skoða umsögnina í samráðsgátt hér.
28.04.2021