Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

            22. nóvember 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Samtökin fagna því að áhersla sé lögð á að  koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að áhersla verði lögð á að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsins til jafns við aðra og að samningurinn verði lögfestur á yfirstandandi kjörtímabili.

Samtökin vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi þau drög, sem hér eru til umsagnar, að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024 - 2027 (landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks).

Í drögin vantar nauðsynlega, að mati samtakanna, aðgerð um að rýna skuli útlendingalögin sérstaklega með tilliti til  ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og skyldna sem af þeim leiða fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld ríkisins. Samtökin telja, að gefnu tilefni, mjög brýnt að þetta verði gert fljótt og vandlega. Meðferð útlendingafyrivalda á málum fatlaðra hælisleitenda hefur verið og er, að mati samtakanna, engan veginn í samræmi almennar meginreglur samningsins og tiltekinna ákvæða hans sem hafa sérstaka þýðingu í þessu sambandi.

Þá er óhjákvæmilegt að árétta að mannúð og mannúðarsjónarmið verða eðli máls samkvæmt að hafa mjög mikið vægi við túlkun og beitingu mannréttindaákvæða laga og fjölþjóðasamninga, almennt og sérstaklega þegar mjög jaðarsett og berskjaldað fólk á hlut að máli og mjög mikilsverð réttindi og veigamiklir hagsmunir þess eru í húfi. Þetta á augljóslega við um fatlaða hælisleitiendur og flóttafólk. Samtökin telja mjög mikið skorta á að útlendingayfirvöld hafi gætt þessa við meðferð og ákvarðanir í málum fatlaðra hælisleitenda, þrátt fyrir að í stefnuskrá þeirra tveggja ríkisstjórnarflokka, sem fara með þau tvö ráðuneyti sem mesta ábyrgð bera á þessu sviði, þ.e. dómsmálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, sé sérstök áhersla lögð á að mannúð skuli höfð að leiðarljósi í þessum málaflokki.

Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir:

Útlendingalöggjöfin þarf á hverjum tíma að byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi þar sem smæð þjóðarinnar er viðurkennd.[1]

Í stefnuskrá  VG segir:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur að málefni fólks á flótta hafi til þessa verið of lituð af því að vera stjórnsýsluverkefni frekar en þjónustu við fólk með mannúð og virðingu að leiðarljósi.[2] 

Í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er lögð mjög mikil áhersla á skyldu ríkja og stjórnvalda til að tryggja náið og virkt samráð við fatlað fólk og samtök, sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess, sbr. sérstaklega 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar og í 3. mgr. 33. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Framkvæmd og eftirlit innan lands. Þessar málsgreinar hljóða svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

Í flestum þeirra 57 aðgerð, sem er að finna í þeim drögum að framkvæmdaáætlun, sem hér eru til umsagnar, er gert ráð fyrir að fatlað fólk og hagsmunasamtök komi að framkvæmd þeirra með samstarfi og samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld. Það er mjög jákvætt og í fullu  samræmi við þær skyldur sem á stjórnvöldum hvíla samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 4. gr. og 3. mgr. 33. gr., sem vísað er til hér að framan. En það er bráðnauðsynleg að ríkið tryggi fjárhagslegar forsendur til þess að samtök geti tekið virkan þátt í þessu samstarfi og samráði.   

Í 7. almennu athugsemdum (e. General Comments), sem nefnd samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur sent frá sér, er fjallað um ákvæði samningsins varðandi samráðsskyldur stjórnvalda, þ.m.t. hvað varðar skyldur ríkisins til að tryggja fjárhagsleg skilyrði og forsendur fyrir samtök og félög til að þau geti tekið innihalds- og árangursríkan þátt í því samráði við stjórnvöld (sjá liði 61 – 64 í 7. almennu athugasemdunum).

https://documents-dds-ny.un.org/doc/UNDOC/GEN/G18/336/54/PDF/G1833654.pdf?OpenElement 

Landssamtökin Þroskahjálp gegna mjög miklu og mikilvægu hlutverki í samráði við stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga um fjölbreytt réttindi hagsmunamál og verkefni sem varða mannréttindi fatlaðs fólks. Síðastliðið ár hefur þetta samráðshlutverk verið mjög stór hluti af starfsemi samtakanna, ekki síst vegna mikillar þátttöku þeirra í gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem leidd hefur verið af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Þroskahjálp átti fulltrúa í öllum þeim ellefu hópum sem rýndu í greinar samningsins og komu með tillögur að verkefnum til að standa betur við þær skuldbindingar sem samningnum fylgja. Þá fór formaður samtakanna á samráðsfundi víðs vegar um landið með félags- og vinnumarkaðsráðherra þar sem landsáætlunin var kynnt og rædd.

Aukin viðurkenning á mikilvægi vandaðs samráðs við fatlað fólk, þ.m.t. við fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fötluð börn , hefur  leitt til þess að Þroskahjálp hefur í mjög auknum mæli sinnt verkefnum á því sviði, enda afar mikilvægt að það samráð taki mið af aðstæðum og fötlun þeirra einstaklinga og hópa sem í hlut eiga. Mikilvægt er að fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn fá stuðning til að taka þátt í innihaldríku samráði og hafa samtökin í auknum mæli fengið það hlutverk að sjá fyrir þeim stuðningi.

Samtökin styðja með ýmsum hætti öflugt starf Átaks, félags fólks með þroskahömlun. Auk þess greiða samtökin félaginu framlag í hverjum mánuði. Formaður og stjórn félagsins sem og aðstoðarkona sem er í hálfu starfi fyrir félagið hafa fengið margvíslegan stuðning frá skrifstofu Þroskahjálpar til að sinna starfi sínu og þeim verkefnum sem því fylgja. Félagið hefur einnig starfsaðstöðu á skrifstofu Þroskahjálpar endurgjaldslaust.

Þroskahjálp rekur ungmennaráð, þar sem ungmenni á aldrinum 16 – 24 ára með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir taka þátt í hagsmunabaráttu og veita stjórn og starfsfólki samtakanna ráðgjöf um málefni ungs fólks. Verkefnisstjóri ungmennaráðs skipuleggur málefnastarf hópsins í samvinnu við aðra meðlimi í ráðinu. Verkefnisstjóri ungmennaráðs hefur jafnframt tekið þátt í fundum og ráðstefnum, bæði heima og erlendis og ungmennin eru virk í samráði við önnur hagsmunasamtök, ríki og sveitarfélög.

Landssamtökin Þroskahjálp eiga ekki aðild að Íslenskri getspá og því fer mikill tími í að afla fjár til rekstursins. Rekstrarframlag til samtakanna frá stjórnvöldum nemur um 10% af rekstrakostnaði og því fer mikil vinna í að afla fjár til mikilvægra verkefna sem falla utan verkefnastyrkja frá ráðuneytum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið óska Landssamtökin Þroskahjálp hér með eindregið eftir, að ríkið tryggi að samtökin fá nægilegan fjárhagslegan styrk til að taka virkan þátt og styðja fatlaða einstaklinga til þátttöku í því samstarfi og samráði, sem gert er ráð fyrir samkvæmt þeim drögum að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024 – 2027 sem hér eru til umsagnar, almennt og sérstaklega m.t.t. fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverfs fólks og fatlaðra barna. Augljóst má vera að þessir berskjölduðu hópar og einstaklingar þurfa verulegan og sérhæfaðn stuðning og viðeigandi aðlögun til að geta tekið virkan þátt í slíku samstarfi og samráði með innihalds- og árangursríkum hætti. Ef stjórnvöld sjá ekki fyrir því með fullnægjandi hætti er um að ræða mismunun á grundvelli fötlunar samkvæmt 5. gr. samningsins, sem hefur yfriskriftina Jafnrétti og bann við mismunun.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér