Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um leiðbeiningar fyrir sveitarfélög varðandi samráðshópa og notendaráð skv. lögum nr. 40/1991 m.s.b.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um leiðbeiningar fyrir sveitarfélög varðandi samráðshópa og notendaráð skv. lögum nr. 40/1991 m.s.b.

 Í 42. gr. laga nr. 40 1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, segir:

„Í hverju sveitarfélagi, eða í sveitarfélögum sem eiga samstarf um þjónustu við fatlað fólk, skal starfa formlegur samráðsvettvangur er nefnist samráðshópur um málefni fatlaðs fólks þar sem fjallað er um þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd og þróun þjónustunnar. Í samráðshópnum skulu að lágmarki sitja þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn að loknum sveitarstjórnarkosningum og þrír fulltrúar tilnefndir af hagsmunasamtökum fatlaðs fólks. Eigi tvö eða fleiri sveitarfélög samstarf um þjónustu við fatlað fólk skulu viðkomandi sveitarfélög og hagsmunasamtök fatlaðs fólks á þjónustusvæðinu koma sér saman um samsetningu hópsins.“

3. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991, m.s.b., sem hefur yfirskriftina „Markmið laganna“, hljóðar svo:

„Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess.“ (Undirstr. og feitletr. Þroskahj.)

Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem hefur yfirskriftina „Markmið og skilgreiningar“, er samhljóða ákvæði.

 Í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ segir:

„Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Undirstr. og feitrletr. Þroskahj.)

Eins og fyrr kom fram er í 1. gr. laga nr. 40/1991, m.s.b. og 1. gr. laga nr. 38/2018, sérstaklega áréttað að við framkvæmd laganna skuli samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks “framfylgt“. Það á við um 3. mgr. 4. gr. samningsins eins og önnur ákvæði hans.

Nefnd samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur sent frá sér almennar athugasemdir (General Comment) þar sem fjallað er um samráðsskyldur stjórnvalda samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samningsins. Almennu athugsemdirnar má nálgast á heimasíðu nefdarinnar:

file:///C:/Users/Lenovo/Downloads/G1833654%20(2).pdf

Í athugasemdunum er m.a. annars lögð áhersla á skyldu stjórnvalda til að „hafa náið samráð“ við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttindmálum þess og til að „tryggja virka þátttöku“ á öllum stigum við framkvæmd samningsins, þ.m.t. við undirbúning reglna, stefnumótunar o.þ.h. sem hefur þýðingu fyrir framkvæmd hans.

Að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar er hafið yfir allan vafa að samráð sem felst í því að birta leiðbeiningar í samráðsgátt  með þeim hætti sem ráðuneytið hefur nú gert, án þess að hafa nokkurt samráð við samtökin við undirbúning og gerð þeirra, uppfyllir engan veginn þær sérstöku skyldur til samráðs sem mælt er fyrir um í tilvitnuðum ákvæðum 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ og 1. gr. laga nr. 40/1991, m.s.b. og 1. gr. laga nr. 38/2018.

Það er því óhjákvæmilegt að samtökin lýsi miklum vonbrigðum og undrun yfir þessari framkvæmd ráðuneytisins. Þessi framkvæmd verður enn illskiljanlegri í ljósi þess að með bréfi sem samtökin sendu ráðuneytinu 10. janúar sl. óskuðu samtökin eftir fundi með ráðuneytinu til að ræða „framkvæmd samráðs við notendur þjónustu og hagsmunasamtök fatlaðs fólks“. Ráðuneytið hefur ekki enn orðið við þeirri ósk þrátt fyrir að ítrekun samtakanna og í raun ekki svarað bréfinu efnislega á nokkurn hátt, þrátt fyrir skyldur samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar til að svara erindum sem til þess er beint innan eðlilegs tíma.   

Með vísan til þess sem að framan er rakið er enn ítrekuð ósk Landssamtakanna Þroskahjálpar um fund með ráðuneytinu til að ræða framkvæmd samráðs samkvæmt lögum nr. 40/1991, m.s.b., lögum nr. 38/2008 og samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin hafa ýmsar athugasemdir og ábendingar við leiðbeingarnar, eins og þær eru birtar í samráðsgáttinni en áskilja sér rétt til að koma þeim á framfæri við ráðuneytið þegar fyrir liggur hvort þau fái umbeðinn fund með ráðuneytinu.