Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um mælaborð um farsæld barna.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að tryggja fötluðu fólki, þar með talið fötluðum börnum, öll þau réttindi og alla þá vernd fyrir mismunun sem samningurinn mælir fyrir um. Að mati samtakanna verður að líta svo á að verkefnið „Barnvæn sveitarfélög“ sé meðal annars hugsað sem tæki til að tryggja fötluðum börnum mannréttindi og verja þau fyrir mismunun á grundvelli fötlunar. Landssamtökin Þroskahjálp fagna því.

Í 7. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina “Fötluð börn” segir m.a.:

 “Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.”

Í samningi S.Þ. um réttindi fatlaðs fólks er lögð rík áhersla á söfnun tölfræðigagna um stöðu fatlaðs fólks, þar á meðal fatlaðra barna, sem auðveldar stjórnvöldum að leggja mat á stöðu mannréttinda fatlaðs fólks og framfylgd við samninginn. Í 31. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina “Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun” segir m.a. um það:

“Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og fram­fylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. … Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.” 

Í 23. gr. Barnasáttmála SÞ eru réttindi fatlaðra barna einnig áréttuð sérstaklega. Þá fela heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem íslensk stjórnvöld hafa ásett sér að vinna markvisst að, í sér skýra yfirlýsingu og ásetning um að enginn verði skilinn eftir og flest hafa yfirmarkmiðin þar mörg undirmarkmið um hvernig skuli unnið markvisst og sérstaklega að því að bæta hag og aðstæður hópa í sérlega viðkvæmri stöðu, sem fötluð börn tilheyra augljóslega.

Í ljósi ofangreinds benda Landssamtökin Þroskahjálp á mikilvægi þess að sérstaklega sé horft til þeirra skyldna sem af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leiða við gerð mælaborðsins.  Einnig óska samtökin þess að samningsins sé sérstaklega getið sem grundvallar mælaborðsins, þar sem hann veitir fötluðum börnum ákveðna viðbótarvernd hvað varðar mannréttindi og gerir kröfur um öflun sérstakrar tölfræði og sértækrar nálgunar á málefni fatlaðra barna í því skyni að tryggja þeim þau almennu réttindi sem öll börn eiga að njóta. Til þess að leggja mat á það er nauðsynlegt að hafa fötlun sem breytu í mælingum á stöðu barna í sveitarfélögum, til viðbótar við aðrar breytur sem þegar hafa verið skilgreindar. Jafnframt er nauðsynlegt að þeir sem veita þjónustu, og bera þannig mikla  ábyrgð á framfylgd samningsins, þekki innihald hans og þær kröfur sem hann gerir. 

Í ljósi þess sem að fraamn er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp eindregið til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi faltaðs fólks verði hafður til hliðsjónar, auk Barnasáttmálans, í innleiðingarferli mælaborð um farsæld barna.

 

  1. Tillaga að mælingum sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi.

Skoða þarf sérstaklega hver staða fatlaðra barna er gagnvart öllum þeim þáttum sem mældir eru í mælaborðinu til að fá raunhæfa mynd af stöðu þeirra.

  1. Ábending um gögn sem geta nýst í mælaborðið.

Hagstofan er að hefja söfnun tölfræðiupplýsinga varðandi stöðu og aðstæður fatlaðs fólks.

  1. Ábending um hópa barna í viðkvæmri stöðu sem er ástæða til að leggja áherslu á, annað hvort með því að draga þá sérstaklega fram í niðurbroti mælinga eða með sérstökum mælingum sem eru sértækar fyrir hópinn.

Landssamtökin benda á að ekki er nóg að fella málefni fatlaðra barna undir “hópa í viðkvæmri stöðu” eða almenna áherslu á jafnræði og jafnrétti heldur þarf að safna sérstökum gögnum og gera sérstakar ráðstafanir sem taka mið af aðstæðum og fötlun til að tryggja þátttöku þeirra og sýnileika í verkefninu. Samtökin leggja því eindregið til að fötlun verði breyta í niðurbroti á tölfræði rétt eins og kyn og aldur. Þannig verður auðveldara að leggja mat á stöðu fatlaðra barna með tilliti til þess sem mælt er og stöðu barna almennt.

Af öðrum þáttum sem mikilvægt er að skoða sérstaklega benda samtökin á mikilvægi þess að hafa tölfræði um:

Fjölda fatlaðra barna á biðlista eftir þjónustu.

Fjölda fatlaðra barna í sértækum námsúrræðum.

Þátttöku fatlaðra barna í (almennum) íþróttum og tómstundum.

Fjölda fatlaðra barna í sértækum/aðgreindum þjónustuúrræðum.

 

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs og samstarfs um Það verkefni sem hér er til umfjöllunar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks:

“Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.”

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

Nálgast má málið sem umsögnun á við hér