Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025-2028, 227. mál.
15. apríl 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni, fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin lýsa stuðningi við tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2025-2028.
Samtökin vilja jafnframt taka undir umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands og þá sérstaklega að ekki sé að finna í tillögunni sértækar aðgerðir vegna ofbeldis gegn fötluðum konum þar sem fatlaðar konur eigi frekar á hættu að verða fyrir ofbeldi eins og kemur fram í skýrslu Greiningardeildar ríksislögreglustjóra útg. í ágúst 2020.
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.