Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023 – 2027

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023 – 2027. 513. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi sjónarmiðum, athugasemdum og  ábendingum á framfæri varðandi fjármálaáætlunina.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins og innleiða í lög og reglur og alla stefnumótun og áætlanagerð. 4. gr. samningsins hefur yfirskriftina “Almennar skuldbindingar”. Þar segir:


     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, … (Feitletr. Þroskahj.)

Þá segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að lögfesta eigi samninginn.

Í 4. gr. samningsins segir einnig varðandi samráðsskyldur stjórnvalda:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Þrátt fyrir ofnagreindar skuldbindingar og yfirlýsingu um lögfestingu samningsins er í fjármálaáætluninni augljóslega ekki verið að taka mikið mið af samningnum eða hvernig hann á að hafa margvísleg áhrif m.t.t. allra þeirra málaflokka sem um er fjallað í áætluninni.

Gegnum gangandi er í áætluninni að þar er ekki fjallað sérstaklega um þarfir og réttindi fatlaðs fólks, nema óbeint þar sem verið er að fjalla um farsældarlöggjöfina og almennt þar sem fjallað er um “hópa í viðkvæmri stöðu” eða eitthvað í þá veruna.

 

Þetta er mjög aðfinnsluvert og umhugsunarvert, að mati samtakanna.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja því skora á íslensk stjórnvöld að taka skuldbindingar sínar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks alvarlega.

Þá vilja samtökin koma eftirfarandi ábendingum varðandi nokkur atriði í áætluninni á framfæri  en taka skýrt fram að hér er alls ekki um tæmandi umfjöllun að því leyti að ræða.

Stjórnvöld hafa fjárfest kröftuglega í stafrænni umbreytingu hins opinbera. Eins og nefnt er í fjármálaáætluninni hafa verkefnin snúið að, m.a. en ekki eingöngu, stafrænum umsóknum um fæðingarorlof, sakavottorð og annað slíkt og leyfisveitingar sýslumanna. Stafræn framþróun snýr að því að einfalda líf almennings, og auka skilvirkni í kerfum hins opinbera. Miklir annmarkar hafa verið á aðgengismálum og að hugað sé að réttindum fatlaðs fólks í þessari vinnu stjórnvalda, sem krefjast í flestum ef ekki öllum tilvikum notkunar rafrænna skilríkja sem hópur fatlaðs fólks getur ekki fengið og er því neitað um þjónustu af hálfu hins opinbera. Ekki hefur enn tekist að finna viðunandi lausn á vandamálum varðandi rafræn skilríki fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Það er grundvallaratriði að allar breytingar og framþróun hins opinbera taki tillit til þarfa og réttinda fatlaðs fólks, og sé þeim til hægðarauka eins og öðrum íbúum landsins, en sé ekki til þess að flækja líf fólks og skerða réttindi eins og nú er. Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess að stjórnvöld setji fjármagn í að búa til aðgengisstefnu fyrir opinbera vefi, stefnu um notkun gervigreindar og stafrænnar þjónustu og áhrif hennar á mannréttindi og vinni að stafrænni framþróun á þeim hraða að unnt sé að tryggja að réttindi fatlaðs fólks séu virt, eins og ber að gera samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Undir liðnum “Framtíðarsýn og meginmarkmið” kemur fram að framtíðarsýn sé um stafræna framþróun í heilbrigðisþjónustu og að íslenskur almenningur hafi tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin heilbrigði með stafrænum lausnum í öruggu og samtengdu upplýsingakerfi. Í þessu samhengi er óhjákvæmilegt að árétta mjög skýrt að t.d. Heilsuvera er ekki aðgengileg öllum. Tilgangurinn með Heilsuveru er að auka aðgengi almennings að upplýsingum um sín mál innan heilbrigðisþjónustunnar og að fá aðgang að upplýsingum um þroska, heilsu, áhrifaþætti heilbrigðis o.fl.  Fatlað fólk sem hefur ekki færni til þess að velja sér sjálft aðgangsnúmar til þess að fá rafræn skilríki er útilokað frá þessu og getur þar af leiðandi ekki fengið að nota þessa rafrænu þjónustu og fær það því ekki aðgang að  þeim upplýsingum sem því ber að hafa.

Á bls. 252-3 í fjármálaáætluninni er fjallað um áskoranir sem stafrænar framfarir leiða af sér, og eru þar persónuvernd og upplýsingaöryggi nefnd sem stærstu áskoranirnar. Þessir þættir eru vissulega mikilvægir en það verður einnig og ekki síður að nefna mannréttindi og aðgengi fatlaðs fólks í þessu samhengi, sbr. Það sem að framan segir. Eins og staðan er núna hefur fatlað fólk ekki aðgang að sömu þjónustu og réttindum og fólk almennt.

Gæta þarf samráðs í allri vinnu, m.a. varðandi netöryggismál sem getið er á bls. 275.

Tryggja þarf sjálfstæða og óháða mannréttindastofnun, eins og nefnt er, sem hefur burði til þess að sinna frumkvæðisskyldum og vera raunverulegt verkfæri til að tryggja réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks

Í markmiðum og mælikvörðum varðandi ofbeldi er fjallað um kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn hinsegin fólki en ekki ofbeldi gegn fötluðu fólki sem allar rannsóknir sýna þó að sé mjög algengt og alvarlegt, og um er að ræða gríðarlega berskjaldaðan hóp að þessu leyti. Þá eru vísbendingar um að úrræði fyrir þolendur ofbeldis taki ekki nógu mikið tillit til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks og styðji við það.

Fatlað fólk á samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks að hafa aðgeng að menningu og listum. Stjórnvöld hafa sofið á verðinum þegar kemur að því að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að listnámi, m.a. er samningur við Myndlistaskólann í Reykjavík, sem heldur úti myndlistarnámi fyrir fólk með þroskahömlun runninn út og fatlaðir nemendur fá ekki jöfn tækifæri til náms við Listaháskóla Íslands. Aðgengi fyrir nemendur með hreyfihömlun er lélegt en aðgengi fólks með þroskahömlun og skyldar fatlanir er svo takmarkað að það fær ekki inngöngu í skólann. Um það er fjöldi dæma.

Taka þarf af skarið til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks að menningarstofnunum landsins, sama hvort um söfn, leikhús eða tónleikastaði er að ræða og tryggja að slík starfsemi sé ekki aðeins aðgengileg heldur sé farið í aðgerðir til að tryggja að dyr þessara stofnana séu opnaðar fötluðu fólki með sérstöku átaki. Mjög mikilvægi er að fötlun verði tekin með í tölfræði sem safna á um menningarstarf.

Kynjuð fjárlagagerð er dæmi um gagnadrifna ákvarðanatöku en jafnrétti kynjanna er eitt leiðarstefa í sáttmála ríkisstjórnarinnar og lögð áhersla á að jafnréttismál verði ávallt í forgrunni við ákvarðanatöku. Kynja- og jafnréttissjónarmið eru samþætt í fjárlagferlinu með það að markmiði að stuðla að jafnrétti, betri nýtingu opinbers fjár og almennri velferð, eins og þar segir — Ríkið hefur skuldbindingar umfram kynjasjónarmið. Ótækt að veita fjármagni í kynjaðar rannsóknir og taka ekki mið af jaðarsettasta hópi samfélagsins, og samtvinnun jaðarsetninga, þ.e. fatlaðra kvenna.

Mikilvægt er að samþætta hagsmuni fatlaðs fólks inn í alla áætlanagerð, líkt og gert er t.d. með uppruna- og kynjabreytuna. Hér er enn verið að tala eins og almennar aðgerðir gagnist öllum. Í flestum köflunum eru sérstakir undirkaflar undir yfirskriftinni: Kynja- og jafnréttissjónarmið. Eina mismununarbreytan sem þar er fjallað um er kyn. Þetta þarf að vera víðtækara og skoða líka sérstöðu fatlaðs fólks.

Í umfjöllun um útlendingamál er ekkert fjallað um þarfir og réttindi fatlaðs fólks eða þær skyldur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks í þessum málaflokki. Þó er augljóst að fatlað fólk, t.d. umsækjendur um alþjóðlega vernd, þarf sértækan stuðning á öllum stigum.

Á bls. 262 segir: Bregðast þarf við þeirri stöðu að umsóknir um alþjóðlega vernd frá einstaklingum, sem hafa dvalist í öðrum Schengen-ríkjum áður en komið var til Íslands, er stór hluti þeirra umsókna sem berast.

Í þessu sambandi skal áréttað að Landssamtökin Þroskahjálp hafa hamrað á því við hlutaðeigandi stjórnvöld að ekki sé forsvaranlegt að senda fatlaða umsækjendur til landa, s.s. Grikklands þar sem augljóst er að þeir fái ekki þann stuðning sem þeir þurfa né geti þeir notið þeirra réttinda sem áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Talsvert er fjallað um að auka aðgengi innflytjenda og flóttamanna að vinnumarkaði og samfélagi en ekkert um stöðu þeirra sem vegna fötlunar geta ekki unnið eða nýtt sér almenn úrræði til samfélagsþátttöku. Ekki er heldur neitt fjallað um hvernig á að tryggja aðgengi fatlaðra innflytjenda og flóttamanna að nauðsynlegri þjónustu.

Ekkert er fjallað um aðgengi fatlaðra barna að almennu íþrótta- og æskulýðsstarfi, heldur einungis óbeint með vísan í farsældarlögin og að allir eigi að hafa möguleika til þátttöku óháð aðstæðum.

Mikilvægt er að í umfjöllun um umhverfismál sé ekki aðeins fjallað um verkefni og jafnrétti á forsendum kyns. Einnig þarf að skoða umhverfismálin á forsendum fatlaðs fólks, t.d. með tilliti til neyðar- og viðbragðsáætlana, sem er ekki gert hér. Það kom í ljós í Covid hversu afdrifaríkt það er þegar slíkar áætlanir ná ekki til fatlaðs fólks. Þurfum við ekki að læra af þeirri reynslu?  

Í umfjöllun um framhaldsskóla er ekkert fjallað um starfsbrautir eða nám nemenda sem þurfa stuðning.

Ekkert er fjallað um aðgengi nemenda með þroskahömlun eða skyldar fatlanir að námi á háskólastigi eða mikilvægi þess að fjölga tækifærum fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir til náms. 

Undir liðnum sjúkrahúsþjónusta er mjög takmarkað fjallað um fatlað fólk og þarfir þess. Aðeins er komið inn á farsældarlögin og að með lagasetningunni sé verið að tryggja að sívirk og snemmtæk úrræði mæti þörfum barna og fjölskyldum þeirra með þverfaglegri samvinnu stofnana sem fara með málefni barna og þá sérstaklega barna sem þurfa stuðning. Ekkert er talað sérstaklega um fötluð börn.

Undir liðnum helstu áskoranir og tækifæri til umbóta er mikið rætt um þörfina á því að bæta þurfi geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og ungmenni og efla þurfi þverfaglega mönnun teyma.  Einnig kemur fram að efla þurfi þjónustu fyrir börn og ungmenni í neyslu og fíknivanda og þörfina á að veita heildræna greiningar- meðferðar og eftirfylgdarþjónustu. Ekkert er fjallað um fötluð börn og ungmenni en staðan í dag er sú að þetta úrræði er ekki í boði fyrir fötluð börn og ungmenni.

Í stjórnarmálasáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð sérstök áhersla á að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins og að lögð sé áhersla á að efla forvarnir geðheilbrigðisþjónustunnar og geðheilsuteymin og að þjónustan taki miðað ólíkum þörfum. Geðheilbrigðisþjónusta er ekki aðgengileg fötluðu fólki en mjög mikilvægt er að öll geðheilbrigðisþjónusta verði aðgengileg öllum og að tryggt sé að fólki verði ekki mismunað á grundvelli fötlunar eins og nú er raunin hjá geðheilsuteymunum. Sé þekking á fötlun ekki til staðar verður þjónustuveitandinn að hafa aðgang að ráðgjafarteymi, sem getur komið inn í mál þegar þörf er á í stað þess að vísa fólki frá eins og mörg dæmi eru um. Það er óforsvaranlegt að vísa fólki í sérúrræði vegna  fötlunar þess. Þjónustan verður að mæta þörfum þess til jafns við aðra. Sett var á laggirnar sérhæft geðheilsuteymi fyrir fólk með taugaþroskaraskanir og er það ætlað þeim hópi fatlaðs fólks sem er í mestri þörf fyrir þjónustu og eru biðlistarnir þar langir og erfitt að fá aðgang að almennri þjónustu vegna þess. 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að stjórnvöld fari yfir þá þætti er lúta að úthlutun hjálpartækja og greiðsluþátttöku hins opinbera fyrir hjálpartæki sem fatlað fólk þarf lífsnauðsynlega á að halda í daglegu lífi.  Þörfin er mikil því að gífurleg fjárútlát geta verið fyrir fólk með fötlun og fjölskyldur þeirra og yrði þetta mikil réttarbót. Það fyrirkomulag sem er við líði í dag getur leitt til ójöfnuðar vegna fjárhagsstöðu viðkomandi. Einnig er jákvætt að bæta eigi aðgengi að upplýsingum um þau hjálpartæki sem eru í boði fyrir notendur og fagfólk.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.