Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2020, sbr. lög nr. 26/2020, 724. mál.

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsóknar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við fjárlaganefnd.

  1. Bygging íbúða fyrir fatlað fólk. - Niðurlagning herbergjasambýla / stofnana.

Samtökin leggja til að framkvæmd lagaákvæða um niðurlagningu herbergjasambýla / stofnana þar sem fatlað fólk býr verði hraðað með því að ráðast í átak við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk.

Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er mælt fyrir um „að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra“ og að „óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að að það búi í tilteknu búsetuformi.“ Þá segir í lögunum að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir. Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks er þetta sérstaklega áréttað í aðgerð F.6. sem hefur yfirskriftina „Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.“ [2]

Til að uppfylla þessar lagalegu skyldur til að gefa fötluðu fólki kost á að að eignast eigið heimili og njóta margvíslegra mannréttinda sem því tengjast, s.s. tækifæra til einkalífs og fjölskyldulífs, verða stjórnvöld að tryggja að nægilegar margar íbúðir verði byggðar.

Með því að ráðst í átak  við að byggja íbúðir fyrir fatlað fólk yrði hraðað framkvæmd lagalegrar skyldu sem hvílir nú þegar á stjórnvöldum til að gera fötluðu fólki kleift að eignast heimili og um leið yrðu sköpuð störf við byggingu íbúðanna fyrir fólk sem ella væri atvinnulaust eða í skertum störfum og fengi því atvinnuleysisbætur eða hlutalaun frá ríkinu.

Þá er í þessu sambandi, í ljósi þess að frumvarpið er lagt fram til að bregðast við áhrifum Covid 19, óhjákvæmilegt að nefna að herbergjasambýli eru afar óæskilegt búseturform með tilliti til smitvarna og möguleika fólks til að fara í sóttkví og einangrun. Stjórnvöld eiga því erfitt með að standa við skyldur sínar til að verja það fatlaða fólk sem býr við þær aðstæður fyrir smitsjúkdómum til jafns við aðra.

Fjölgun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).

Samtökin leggja til að samningum um notendastýrða persónulega aðstoð verði fjölgað.

Með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir var notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) tekin í lög sem aðferð við þjónustu við fatlað fólk. Fyrir fatlað fólk sem vill nýta sér NPA og hefur miklar þjónustuþarfir auka samningar um NPA mjög mikið tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu og til að njóta margra annarra mikilsverðra mannréttinda.

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk segir að ríkið muni leggja fé til tiltekins fjölda NPA-samninga  og fjölgar þeim samningum samkvæmt lögunum á milli ára og eiga þeir að verða 172 á árinu 2022. Eftir það fellur ákvæðið um tiltekinn fjölda samninga niður.  

Með því að fjölga þeim NPA-samningum sem ríkið leggur fé til  þannig að þeir verði a.m.k. 172 á yfirstandandi ári yrði hraðað framkvæmd laga um aðgang fatlaðs fólks að  NPA-samningum og því tryggð mikilsverð tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Með því yrðu einnig til störf við að aðstoða þá sem hafa NPA-samninga fyrir fólk sem ella væri atvinnulaust eða í skertum störfum og fengi því atvinnuleysisbætur eða hlutalaun frá ríkinu.

  1. Óskert þjónusta sveitarfélaga við fatlað fólk verði tryggð.

Sú þjónusta sem sveitarfélögum er skylt lögum samkvæmt að veita fötluðu fólki er gríðarlega mikilvæg fyrir lífsgæði fatlaðs fólks og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Mjög oft er þessi þjónusta algjör forsenda þess að fatlað fólk geti notið margvíslegra mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja. Í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er mælt fyrir um að við framkvæmd laganna skuli framfylgja samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin hafa verulegar áhyggjur af að áhrif Covid -19 á fjárhagsstöðu einhverra sveitarfélaga geti orðið þannig að þeim reynist örðugt að standa við skuldbindingar sínar til að veita fötluðu fólki þá þjónustu sem það á skilyrðislausan rétt til samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Með vísan til þess sem að framan segir hvetja samtökin Alþingi til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sveitarfélög geti örugglega staðið við allar skuldbindingar sínar gagnvart fötluðu fólki samkvæmt lögum, samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasamningum sem við eiga og íslenska ríkið hefur gengist undir.  

  1. Kjör fatlaðs fólks.

Sá hópur fólks sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi eru þeir sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Staðreyndin er hins vegar sú að atvinnuleysisbætur eru, sem betur fer, oftast tímabundið ástand hjá þeim sem þurfa að byggja afkomu sína á þeim á meðan örorkubótaþegar eru í þessari kröppu stöðu árum saman og margir allt sitt líf, án tækifæra til þess að afla sér annarra tekna.

Með vísan til framangreinds telja Landssamtökin Þroskahjálp augljóst að bæta verði kjör fatlaðs fólks.

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með fjárlaganefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir tillögum sínum og áherslum.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

 

 

 

 

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

[2] F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð.
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós.
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila.
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög.
     Tími: 2017–2021.
     Kostnaður: Innan ramma.
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á.

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.