Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um grunnskóla og framhaldsskóla (fagráð eineltismála), 716. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir ánægju með þau almennu áhersluatrið sem fram koma í frumvarpinu og lúta að því að auka vernd gegn einelti og skilvirkni fagráðs eineltismála, enda sýna kannanir og rannsóknir að fötluð börn og ungmenni eru líklegri til að verða fyrir einelti en önnur börn og ungmenni.

Samtökin vilja ítreka mikilvægi þeirra atriða sem komu fram í umsögn þeirra um frumvarpið þegar það var í samráðsgátt stjórnarráðsins um að þess verði vandlega gætt að sérstakt tillit verði tekið til fatlaðra barna og ungmenna, hvort sem þau eru mögulegir gerendur eða þolendur í eineltismálum, m.a. með því að tryggja viðeigandi aðlögun og sjá til þess að í boði sé stuðningur sem tekur að fullu mið af fötlun og sérþörfum. Það má t.a.m. gera með því að veita stuðning í viðtölum og/eða með því að miðla upplýsingum á auðskildu máli. Samtökin leggja einnig áherslu á mikilvægi þess að mótaðar verði skýrar verklagsreglur um hvaða persónuupplýsingum telst nauðynlegt að afla og miðla.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanan um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans. Í samningum er lögð sétrstök áhersla á skyldur ríkja til að gera það sem gera þarf til að verja fatlað fólks og sérstaklega fötluð börn fyrir ofbeldi af öllu tagi, sbr. m.a. 16. gr. (Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum) og 7. gr. (Fötluð börn) samningsins. 

Samtökin lýsa yfir eindregnum vilja til samráðs við ráðuneytið og aðra hlutaðeigandi aðila um innleiðingu frumvarpsins og vísa í því sambandi til 3. tl. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, þar sem segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

Nálgst má frumvarp sem umsögnin á við hér.



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.