Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við þingsályktunartillöguna og aðgerðaáætlunina.
Fatlað fólk er mjög berskjaldað fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Allar rannsóknir staðfesta það svo ekki verður um villst. Þetta á við um allt fatlað fólk en sérstaklega fatlaðar konur, fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Það er því mjög skýr og mikil skylda á ríkinu að gera það sem í þess valdi stendur til að verja fatlað fólk fyrir ofbeldi með tiltækum ráðum og tryggja að lög og reglur, stefnumörkun, áætlanir, aðgerðir og öll framkvæmd taki mið af því og aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks. Einnig er stjórnvöldum skylt að tryggja að nægilegar rannsóknir séu gerðar til að lagasetning og, stefnumótun og framkvæmd byggist á áreiðanlegum upplýsingum og gögnum.
Allt þetta er sérstaklega áréttað í samningi Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja. Við gerð áætlunar af þessu tagi er stjórnvöldum því skylt að gæta þess að sérstaklega sé hugað að þeim skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt samningi SÞ. Í því samhengi vija Landssamtökin Þroskahjálp benda á m.a. eftirfarandi ákvæði samningsins.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir m.a.:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð.
13. gr. samningsins hefur yfirskriftina Aðgangur að réttarvörslukerfinu og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.
2. Í því skyni að stuðla að því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir það fólk sem starfar á sviði réttarvörslu, einnig fyrir lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.
16. gr. samningsins hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum og hljóðar svo:
Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.
2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, einnig með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun.
3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.
4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit er tekið til sérþarfa hans miðað við kyn og aldur.
5. Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.
6. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fatlaðar konur. Þar segir:
1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þróun, framgang og valdeflingu kvenna til fulls í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.
31. gr. samningsins hefur yfirskriftina Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun. Þar segir m.a.:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar.
...
2. Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.
3. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.
Í 4. mgr. samnings SÞ sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir:
Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Í kafla sem hefur yfirskriftina Skipan stýrihóps og samráð í greinargerð með þingsályktunartillögunni um aðgerðaáætlunina kemur fram hverjir sátu í stýrihóp undir forystu velferðarráðuneytisins við gerð áætlunarinnar og hverjir komu til fundar við hópinn. Landssamtökin Þroskahjálp sjá ekki að þar hafi verið leitað til fulltrúa fatlaðs fólks eða samtaka sem koma fram fyrir þess hönd, þrátt fyrir skýra samráðsskyldu samkvæmt 4. gr. samnings SÞ og þrátt fyrir að þá staðreynd að fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi og því mikil þörf og skylda stjórnvalda til að huga sérstaklega að því eins og glögglega kemur fram í þeim ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna aðgerðaráætluninni og því sem í henni er að finna sem varðar fatlað fólk sérstaklega. Samtökin leggja þó áherslu á mikilvægi samráðs og að sú skyld sé tekin alvarlega og að íslensk stjórnvöld hugi sérstaklega að öllum þeim skyldum sem á þeim hvíla samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks til að tryggja að fatlað fólk njóti eins góðar verndar fyrir ofbeldi af ýmsu tagi og kostur er, sbr. meðal annars þau ákvæði samningsins sem vísað er til hér að framan.
11. janúar 2019.
Virðingarfyllst,
f. h. Landssamtakanna Þroskahjálpar,
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri
Þingsályktunartillöguna sem umsögnin vísar til má lesa hér
[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlað fólks. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.