Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvarp til laga um almannatryggingar o.fl. (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.), 857. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá ofangreint frumvarp sent til umsagnar og fagna endurskoðun og einföldun almannatryggingakerfisins sem er löngu tímabær og nauðsynleg. Landssamtökin þroskahjálp hafa sem heildarsamtök fatlaðs fólks tekið þátt í starfi nefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins og hafa á þeim vettvangi og með bókun við skýrslu nefndarinnar komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Hestu athugasemdir samtakanna hafa snúið að aukinni tekjutengingu, sérstaklega vegna atvinnutekna með hærra skerðingarhlutfalli og afnámi frítekjumarks.

Velferðarnefnd Alþingis.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um frumvarp til laga um almannatryggingar o.fl. (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.), 857. mál.

15. september 2016

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá ofangreint frumvarp sent til umsagnar og fagna endurskoðun og einföldun almannatryggingakerfisins sem er löngu tímabær og nauðsynleg.

 Landssamtökin þroskahjálp hafa sem heildarsamtök fatlaðs fólks tekið þátt í starfi nefndar um endurskoðun almannatryggingakerfisins og hafa á þeim vettvangi og með bókun við skýrslu nefndarinnar komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Hestu athugasemdir samtakanna hafa snúið að aukinni tekjutengingu, sérstaklega vegna atvinnutekna með hærra skerðingarhlutfalli og afnámi frítekjumarks.

 Í ljósi þess að það lagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar og nú liggur fyrir Alþingi tekur einvörðungu til ellilífeyrisþega en ekki örorkulífeyris fatlaðs fólks telja samtökin ekki tilefni til að skila ítarlegri umsögn um frumvarpið. Samtökin vilja þó árétta sérstaklega og koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

 Fyrirliggjandi frumvarp getur ekki nema að takmörkuðu leyti orðið fyrirmynd að breytingum á örorkulífeyrisbótakerfinu. Í því sambandi hafa samtökin sérstaklega bent á þann augljósa og mikla annmarka á frumvarpinu að verði það að lögum með óbreyttum þeim ákvæðum sem það varða mun fólk með lágar atvinnutekjur fá lægri greiðslur í nýju almannatryggingakerfi en það fær samkvæmt núgildandi kerfi.

Tilraunir eins og þær sem er að finna í 12. gr. frumvarpsins, þar sem lagt er til að við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr töluliður sem verði 22. töluliður bráðabirgðaákvæðisins og hafi áhrif gagnvart þeim lífeyrisþegum sem fá greiddan lífeyri við gildistöku laganna, duga að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar engan veginn til að tryggja réttlæti gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga og munu síðar eiga í hlut og um leið hvata fyrir þá í nútíð og framtíð til þátttöku á atvinnumarkaði eftir getu, vilja og tækifærum hvers og eins.

 Sú aðferð sem þar er kveðið á um leiðir til mismununar fólks, sem býr við sambærilegar aðstæður að því leyti sem þýðingu hefur í þessu sambandi, eftir því hvenær það hefur hefur töku lífeyris. Það er að mati samtakanna afar óréttlátt og hlýtur að vera mjög vafasamt að það standist jafnræðisreglu íslensks réttar. Umrædd ákvæði eru auk þess afar flókin og því ógagnsæ sem er í andstöðu við markmið um einföldun kerfisins og þeirrar augljósu kröfu sem hlýtur að vera um að þeir sem í hlut eiga geti vitað hver réttindi þeirra og staða er að þessu leyti.

 Landssamtökin Þroskahjálp hafa margoft komið á framfæri þeirri skoðun sinni að megintilgangur  örorkulífeyris almannatrygginga sé að tryggja fólki með litlar eða engar tekjur mannsæmandi lfeyri auk þess sem kerfið á að hafa innbyggða hvata fyrir fólk til atvinnuþátttöku eftir getu hvers og eins og vilja samtökin árétta þá skoðun hér og hvetja Alþingi til að gæta þess vel að almannatryggingakerfið og allar breytingar á því samræmist þeim markmiðum vel. Í því sambandi skal einnig sérstaklega bent á að lífeyrir þeirra sem þurfa að byggja afkomu sína alfarið á honum mun ekki hækka samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi og þá er þar ekki kveðið á um neitt sem tryggir að markmið um að lífeyrir hækki til samræmis við lágmarkslaun náist, eins og endurskoðunarnefndin taldi eðlilegt.

 Virðingarfyllst,

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Frumvarpið sem umsögnin fjallar um má lesa hér