Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Ás styrktarfélag og NPA-miðstöðin héldu í gær, 28. október, upplýsinga- og umræðufund um raunkostnað við framkvæmd NPA samninga. Fundarboð var sent hlutaðeigandi stjórnendum sveitarfélaga, sveitarstjórnarfólki, alþingismönnum og hlutaðeigandi ráðuneytum og hagsmunasamtökum. Fundinn sóttu 30-40 manns úr stjórnkerfi, frá félagasamtökum og áhugafólk um málefnið.
Upplýsinga- og umræðufundur um raunkostnað við framkvæmd samninga um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA).
Landssamtökin Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Ás styrktarfélag og NPA-miðstöðin héldu í gær, 28. október, upplýsinga- og umræðufund um raunkostnað við framkvæmd NPA samninga. Fundarboð var sent hlutaðeigandi stjórnendum sveitarfélaga, sveitarstjórnarfólki, alþingismönnum og hlutaðeigandi ráðuneytum og hagsmunasamtökum. Fundinn sóttu 30-40 manns úr stjórnkerfi, frá félagasamtökum og áhugafólk um málefnið.
Á fundinum voru kynntar nýjar skýrslur sem NPA miðstöðin og Ás styrktarfélag hafa gert um raunkostnað af framkvæmd NPA samninga og byggjast þær skýrslur og þeir útreikningar og tölur sem þar er að finna á reynslu þessara aðila við að sinna umsýslu NPA samninga.
Það er afar mikilvægt að þær upplýsingar og útreikningar sem er að finna í þessum skýrslum liggi nú fyrir og að hlutaðeigandi stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga kynni sér þær nú þegar. Margt sem þar er að finna hefði mátt og þurft að reikna út af ríki og sveitarfélögum og liggja fyrir og gera ráð fyrir við upphaf samstarfsverkefnis þeirra um NPA. Þannig hefði mátt komast hjá því að verkefnið lenti í þeirri fullkomlega óásættanlegu stöðu sem nú er uppi, að fulltrúar sveitarfélaga í stjórn verkefnisins hafi dregið sig út úr stjórninni vegna ágreinings við ríkið um fjármögnun og skiptingu kostnaðar af framkvæmd NPA samninga.
Full þátttaka sveitarfélaga í í stjórn verkefnisins er augljós forsenda þess að leiða megi verkefnið þannig til lykta að fyrir liggi traustar upplýsingar og gögn sem má nýta til að leggja megi faglegt og fjárhagslegt mat á verkefnið eins og lög mæla fyrir um að skuli gert fyrir árslok 2016 og fyrir velferðarráðherra til að taka mið af þegar hann leggur fram frumvarp um lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar sem eins meginforms þjónustu við fatlað fólk, eins og ráðherra ber lögum samkvæmt að gera fyrir árlok 2016. Þá er einnig augljóst að traust gögn og upplýsingar sem eiga að verða til á grundvelli verkefnisins eru forsendur þess að alþingismenn geti fjallað um frumvarp ráðherra á grunni traustra upplýsinga og gagna og tekið ákvarðanir á þeim grundvelli.
Það er því sérstakt tilefni til að hvetja hlutaðeigandi stjórnvöld til að axla án frekari tafa þá ábyrgð sem þau hafa lögum samkvæmt á framkvæmd verkefnis um NPA með því að leysa nú þegar úr ágreiningi sínum um fjámögnun og kostnaðarskiptingu verkefnisins og taka fullan þátt í stjórn verkefnisins eins og þeim er með lögum falið að gera.
Þá skal bent á að hlutaðeigandi stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga hefur verið falið þetta verkefni samkvæmt lögum. Í málinu reynir því á virðingu þessara stjórnvalda fyrir löggjafanum og einnig og ekki síður virðingu þeirra fyrir fötluðu fólki. Fötluðu fólki sem hefur NPA-samninga samkvæmt verkefninu og fötluðu fólki sem hefur hug á að sækja um NPA-sammninga þegar þeir hafa verið lögbundnir. Sú staða sem verkefnið er nú í er augljóslega og óhjákvæmilega til þess fallin að valda þessu fólki miklum áhyggjum og óvissu um framtíðina sem og fjölmörgum aðstandendum þessa fólks. Í þessu sambandi skulu hlutaðeigandi stjórnvöld minnt á að virðing gagnvart fötluðu fólki er grundvallarþáttur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenskum stjórnvöldum ber lögum samkvæmt að taka mið af.