1. gr. Markmið.
Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns
við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess.
3. gr. Almennar meginreglur.
Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:
a) virðing fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og
sjálfstæði þeirra,
b) bann við mismunun,
c) að fatlaðir geti tekið fullan og virkan þátt í samfélaginu án aðgreiningar,
d) virðing fyrir því sjónarmiði að fatlað fólk sé ólíkt og viðurkennt í þeim skilningi að um mannlega
fjölbreytni og mannlegt eðli sé að ræða,
e) jöfn tækifæri,
f) aðgengi,
g) jafnrétti kynjanna,
h) virðing fyrir síbreytilegri getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína,
4. gr. Almennar skuldbindingar.
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu
að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir
til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum nái fram að ganga,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og
starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,
d) að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að
opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,
e) að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að uppræta mismunun vegna fötlunar sem einstaklingur, stofnun eða einkafyrirtæki gerir
sig sekt um.
5. gr. Jafnrétti og bann við mismunun.
1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt, án nokkurrar mismununar, á jafnri vernd og jöfnum hag lögum
samkvæmt.
2. Aðildarríkin skulu leggja bann við hvers kyns mismunun vegna fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og nægilega réttarvernd gegn mismunun
á öllum sviðum.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að
tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til
handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.
6. gr. Fatlaðar konur.
1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur fjölþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess
að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra.
2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að konur fái notið sín til fulls, geti sótt fram og hafi fullan
frumkvæðisrétt, í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og
mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.