12. gr. Réttarstaða til jafns við aðra.
1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi rétt á því að vera viðurkennt hvar sem er sem
aðilar að lögum.
2. Aðildarríkin viðurkenni að fatlað fólk skuli njóta gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum
mannlífs.
3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk geti leitað eftir aðstoð sem
það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt.
4. Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða beitingu gerhæfis, innihaldi viðeigandi og
árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg
mannréttindalög. Fyrrnefndar verndarráðstafanir skulu tryggja að með ráðstöfunum, sem varða beitingu gerhæfis, séu réttindi,
vilji og séróskir viðkomandi einstaklings virt, slíkar ráðstafanir leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg
áhrif, þær séu við hæfi og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu
endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála.
Gæta ber meðalhófs við gerð verndarráðstafana að því marki sem slíkar ráðstafanir hafa
áhrif á réttindi og hagsmuni viðkomandi einstaklings.
5. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæðum
þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og
hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar fjárhagslegum lánum, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk
sé ekki svipt eignum sínum að geðþótta.
14. gr. Frelsi og mannhelgi.
1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk:
a) njóti, til jafns við aðra, réttar til frelsis og mannhelgi,
17. gr. Verndun friðhelgi einstaklingsins.
Sérhver fatlaður einstaklingur á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi
hans sé virt.
19. gr. Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.
Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í
samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess
að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án
aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
a) fötluðu fólki tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það
býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,
b) fötluðu fólki aðgang að margs konar samfélagsaðstoð, á borð við heimaþjónustu, vist
á dvalarheimili og annars konar aðstoð, m.a. nauðsynlegri þjónustu til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma
í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,
c) að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við
aðra og svari þörfum þess.
20. gr. Ferlimál einstaklinga.
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að
fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og
þegar, því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,
b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að hreyfibúnaði, tækjum, hjálpargögnum og beinni
aðstoð og þjónustu milliliða í háum gæðaflokki, meðal annars með því að hafa þau á boðstólum á
viðráðanlegu verði,
c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlað fólk og sérhæft
starfslið sem vinnur með fötluðu fólki,
d) að hvetja fyrirtæki, sem framleiða hreyfibúnað, tæki og hjálpargögn, til þess að taka mið af öllum
þáttum ferlimála fatlaðs fólks.
25. gr. Heilsa.
Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta
marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki
aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, m.a. heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:
a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum, sem eru ókeypis eða á
viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga.
b) bjóða fram þá heilbrigðisþjónustu sem fatlað fólk þarfnast, einkum vegna fötlunar sinnar,
m.a. að fötlun sé uppgötvuð snemma og að gripið sé inn í málið snemma, eftir því sem við á, og þjónustu
sem miðar að því að draga úr fötlun eins og framast er kostur og koma í veg fyrir frekari fötlun, m.a. meðal barna og eldri
einstaklinga,
c) bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt samfélögum fólks og frekast er unnt,
þ.m.t. til sveita,
d) gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins
vel og aðra, m.a. á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að auka vitund um mannréttindi, meðfædda
göfgi, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsmenn, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og
með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra,
e) leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki að því er varðar sjúkratryggingar og líftryggingar,
þar sem slíkar tryggingar, sem skulu boðnar fram á sanngjarnan og réttmætan hátt, eru heimilar samkvæmt landslögum.
f) koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk
þannig að um mismunun vegna fötlunar sé að ræða.
28. gr. Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til
handa, m.a. viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífskilyrða og skulu gera viðeigandi
ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar.
2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess
réttar án mismununar vegna fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur
verði að veruleika, m.a. ráðstafanir:
e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að eftirlaunum og eftirlaunasjóðum.