9. gr.Aðgengi.
1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu
lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja
fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. upplýsinga-
og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té,
bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem felast m.a. í því að staðreyna og ryðja úr
vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:
b) upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, þ.m.t. rafræn þjónusta og
neyðarþjónusta.
2. Samningsaðilar skulu og gera viðeigandi ráðstafanir:
a) til þess að þróa, útbreiða og fylgjast með því að lágmarkskröfur og leiðbeiningar um
aðgengi að aðstöðu og þjónustu, sem almenningi er opin eða látin í té, séu uppfylltar,
c) til þess að bjóða fram fræðslu fyrir hagsmunaaðila um aðgengismál sem varða fatlað fólk,
d) til þess að setja upp í byggingum og annarri aðstöðu, sem er almenningi opin, skilti með blindraletri og í
þeirri mynd að fatlaðir eigi auðvelt með að lesa og skilja það sem á þeim stendur,
e) til þess að láta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þ.m.t.
fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri
aðstöðu sem almenningi er opin,
f) til þess að stuðla að því að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og
þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,
g) til þess að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum
þar að lútandi, m.a. Netinu,
20. gr. Ferlimál einstaklinga.
Aðildarríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til þess að tryggja að einstaklingum sé gert kleift að
fara allra sinna ferða og tryggja sjálfstæði fatlaðs fólks í þeim efnum, eftir því sem frekast er unnt, m.a. með því:
a) að greiða fyrir því að fatlað fólk geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem, og
þegar, því hentar og gegn viðráðanlegu gjaldi,
b) að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að hreyfibúnaði, tækjum, hjálpargögnum og beinni
aðstoð og þjónustu milliliða í háum gæðaflokki, meðal annars með því að hafa þau á boðstólum á
viðráðanlegu verði,
c) að bjóða fram fræðslu og þjálfun í hreyfifærni fyrir fatlað fólk og sérhæft
starfslið sem vinnur með fötluðu fólki,
d) að hvetja fyrirtæki, sem framleiða hreyfibúnað, tæki og hjálpargögn, til þess að taka mið af öllum
þáttum ferlimála fatlaðs fólks.
21. gr. Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.
Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér
rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra,
með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, m.a. með því:
a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og
með aðgengilegri tækni, sem hæfir einstaklingum sem eiga við mismunandi fötlun að stríða, tímanlega og án
aukakostnaðar,
b) að viðurkenna og stuðla að notkun táknmáls, blindraleturs, bættra og óhefðbundinna samskipta og samskiptaleiða,
-aðferða og -forms, að eigin vali fatlaðs fólks þegar opinber samskipti fara fram,
c) að hvetja einkafyrirtæki, sem þjónusta almenning, m.a. gegnum Netið, til þess að veita upplýsingar og
þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk,
d) að hvetja fjölmiðla, meðal annars upplýsingaveitur á Netinu, til þess að gera þjónustu sína
aðgengilega fötluðu fólki,
e) að viðurkenna notkun táknmáls og stuðla að notkun þess.
24. gr. Menntun.
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu, í því skyni að þessi
réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri, koma á menntakerfi á öllum skólastigum
án aðgreiningar og símenntun sem miða að því:
b) að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og
líkamlegri getu,
c) að gera fötluðu fólki kleift að vera virkir þátttakendur í frjálsu
þjóðfélagi.
3. Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í
því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem
þjóðfélagsþegnar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
26. gr. Hæfing og endurhæfing.
1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir, m.a. annars með tilstyrk jafningjaaðstoðar, til
þess að gera fötluðu fólki kleift að öðlast sem mest sjálfstæði, fulla líkamlega, andlega og félagslega getu, ásamt
starfsgetu, og að vera þátttakendur í lífinu á öllum sviðum án aðgreiningar, ásamt því að viðhalda þessum
gæðum. Til þess að svo megi verða skulu aðildarríkin skipuleggja, efla og útvíkka þjónustu og áætlanagerð á
sviði alhliða hæfingar og endurhæfingar, einkum að því er varðar heilbrigði, atvinnu, menntun og félagsþjónustu, með þeim
hætti að fyrrnefnd þjónusta og áætlanir:
b) stuðli að þátttöku í samfélaginu og þjóðfélaginu á öllum sviðum án
aðgreiningar, séu valfrjálsar og standi fötluðu fólki til boða sem næst samfélögum þess, einnig til sveita.
3. Aðildarríkin skulu gera gangskör að því að hjálpartæki og -gögn, sem eru hönnuð fyrir
fatlað fólk, séu á boðstólum, þekking á þeim sé til staðar og að þau séu notuð í þágu
hæfingar og endurhæfingar.
29. gr. Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi.
Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta
þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:
a) tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og
opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þ.m.t. réttur og tækifæri til
þess að kjósa og vera kosinn,
b) vinna ötullega að mótun umhverfis þar sem fatlað fólk getur tekið virkan og fullan þátt í
opinberri starfsemi, án mismununar og til jafns við aðra, og hvetja til þátttöku þess í opinberri starfsemi, meðal annars:
i. þátttöku í starfsemi frjálsra félagasamtaka og samtaka, sem láta sig málefni almennings varða og
stjórnmálalíf viðkomandi lands, og í störfum og stjórn stjórnmálaflokka,
ii. því að mynda og gerast aðilar að samtökum fatlaðs fólks til þess að rödd þess heyrist á
alþjóðavettvangi, heima fyrir á landsvísu og innan landsvæða og sveitarfélaga.
30. gr. Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi.
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt, til jafns við aðra, í
menningarlífi og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:
a) hafi aðgang að menningarefni í aðgengilegri framsetningu,
b) hafi aðgang að sjónvarpsdagskrám, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum athöfnum á sviði menningar, í
aðgengilegri framsetningu,
c) hafi aðgang að stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d.
leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðamannastöðum og hafi, eftir því sem við verður komið, aðgang að
minnisvörðum og stöðum sem eru mikilvægir í þjóðmenningarlegu tilliti.
2. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að
þroska og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu heldur einnig í því
skyni að auðga mannlíf í eigin samfélögum.
3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, samkvæmt reglum þjóðaréttar, til þess að tryggja
að í lögum, sem vernda hugverkarétt, séu ekki ákvæði sem koma á ósanngjarnan hátt, eða með einhverjum þeim
hætti sem hefur mismunun í för með sér, í veg fyrir að fatlað fólk hafi aðgang að menningarefni.
4. Fatlað fólk skal eiga rétt á, til jafns við aðra, að sérstök menningarleg samsemd þess og samsemd með
tilliti til tungumáls sé viðurkennd og njóti stuðnings, þ.m.t. táknmál og menning heyrnarlausra.
5. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að
taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi:
a) til þess að hvetja til og stuðla að þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í algengu
íþróttastarfi á öllum stigum,
b) til þess að tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka
þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og örva, í þessu skyni og með sama hætti og gildir um
aðra, framboð á viðeigandi tilsögn, þjálfun og fé,
c) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og
tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
d) til þess að tryggja fötluðum börnum aðgang, til jafns við önnur börn, að leikjum og tómstunda- og
frístunda- og íþróttastarfi, meðal annars innan skólakerfisins,
e) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu
tómstundastarfs, ferðamennsku og frístunda- og íþróttastarfs.