2. gr.
2. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna stöðu eða
athafna foreldra þess, lögráðamanna eða fjölskyldumeðlima, eða sjónarmiða sem þeir láta í ljós eða skoðana
þeirra.
3. gr.
2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum,
skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera
allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.
3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til
bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.
5. gr.
Aðildarríki skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra, eða eftir því sem við á þeirra sem tilheyra stórfjölskyldu
eða samfélagi samkvæmt staðbundnum venjum, eða lögráðamanna eða annarra sem að lögum eru ábyrgir fyrir barni, til að veita
því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem
viðurkennd eru í samningi þessum.
6. gr.
1. Aðildarríki viðurkenna að sérhvert barn hefur meðfæddan rétt til lífs.
2. Aðildarríki skulu eftir fremsta megni tryggja að börn megi lifa og þroskast.
9. gr.
1. Aðildarríki skulu tryggja að barn sé ekki skilið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema þegar lögbær stjórnvöld
ákveða samkvæmt viðeigandi lögum og reglum um málsmeðferð að aðskilnaður sé nauðsynlegur með tilliti til hagsmuna barnsins enda
sé sú ákvörðun háð endurskoðun dómstóla. Slík ákvörðun kann að vera nauðsynleg í ákveðnum
tilvikum, svo sem ef barn sætir misnotkun eða er vanrækt af foreldrum sínum, eða þegar foreldrar búa ekki saman og ákveða verður hver skuli vera
dvalarstaður þess.
3. Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda
persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.
18. gr.
2. Til þess að tryggja og efla réttindi þau sem kveðið er á um í samningi þessum skulu aðildarríki veita foreldrum og
lögráðamönnum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og
aðstaða og þjónusta veitt til umönnunar barna.
3. Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn foreldra sem stunda atvinnu fái notið góðs af
þjónustu og aðstöðu til umönnunar barna sem þau kunna að eiga rétt á.
23. gr.
1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja
virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.
2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem
á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú
aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.
3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er,
með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða
barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og
möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á
meðal í menningarlegum og andlegum efnum.
4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um
fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þ. á m. með dreifingu
á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum
kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa
þróunarlanda.