Vörulýsing
Listaverkaalmanak Landssamtakanna Þroskahjálpar 2025.
Guðrún Bergsdóttir er listakona ársins.
Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu.
Landssamtökin Þroskahjálp berjast fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks.
Á hverju ári er sala almanaksins ein af stærstu fjáröflunum Þroskahjálpar.
Fyrstu mánuðina er almanakið selt með happdrættismiða, og eftir það er almanakið selt eitt og sér.
Dregið hefur verið
í almanakshappdrættinu 2024.
Smelltu hér til að sjá vinningsnúmer.
Listakona almanaksins 2025
Í ár kynnum við almanak með listaverkum eftir listakonuna Guðrúnu Bergsdóttur.
Á ferli sínum sýndi Guðrún verk sín víða, bæði á einkasýningum sem og samsýningum.
Guðrún féll frá í byrjun ársins 2024 og er almanakið 2025 tileinkað minningu hennar. Í apríl 2025 verður opnuð yfirlitssýning á verkum Guðrúnar í Gerðarsafni í Kópavogi og á vormánuðum 2025 kemur einnig út bók með verkum hennar.
List án landamæra var mikilvægur stökkpallur fyrir Guðrúnu. Hátíðin brýtur múrinn á milli hins svokallaða almenna listheims og jaðarlistheimsins sem fatlaðir listamenn tilheyra. Innan jaðarlistheimsins hafa fatlaðir listamenn skapað kraftmikla og fjölbreytta list, en sýnileikinn er í takt við fábreytt tækifæri til þátttöku og listmenntunar.
Landssamtökin Þroskahjálp halda áfram að berjast fyrir sýnileika og tækifærum fatlaðra listamanna, og í almanaki ársins kynnumst við og fögnum listsköpun fatlaðs fólks.
Guðrún Bergsdóttir
f. 1970
Guðrún Bergsdóttir fæddist í Reykjavík. Hún sótti ýmis námskeið hjá Fjölmennt – símenntunar og þekkingarmiðstöð, þar á meðal í vélsaumi. Hún var meðlimur í Perlufestinni, áhugafélagi um leiklist, og starfaði hjá Ási vinnustofu frá árinu 1994.
Guðrún byrjaði að vinna við myndlist eftir þrítugt og fór þá að nota nál, garn og striga. Frá árinu 2000 til ársins 2018 vann Guðrún með útsaum í sinni list og þróaði sérstakan stíl en verk hennar tengjast bæði handverkshefðinni og geómetríski abstrakt list.
Útsaumsverkin vann Guðrún beint á strigann, spor fyrir spor, flöt fyrir flöt, án forskriftar. Áður vann hún teikningar, munstur með tússi á pappír.
Guðrún sýndi verk sín margoft, á vettvangi Listar án landamæra og á mörgum okkar helstu söfnum og sýningarstöðum frá árinu 2003 til ársins 2023.