Á elleftu milljón safnaðist í Hörpu í tengslum við Samstöðutónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands með Úkraínu

Að minnsta kosti 10.750.000 krónur söfnuðust í tengslum við Samstöðutónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands með úkraínsku þjóðinni sem haldir voru í Hörpu þann 24. mars sl. Fjármunirnir renna til neyðarsöfnunar Þroskahjálpar fyrir fatlað fólk í Úkraínu. Til viðbótar við þessa fjárhæð lagði fólk einnig fé beint inn á söfnunarreikning Þroskahjálpar. 

Allar tekjur af miðasölu Samstöðutónleikanna Sinfóníunnar runnu í söfnunina, sem og allar tekjur af listaverkauppboði Listvals og ágóði af veitingasölu í Hörpu. Allir sem að stóðu að samstöðudagskrá í Hörpuhorni fyrir tónleika hljómsveitarinnar gáfu vinnu sína eða aðstöðu, þar á meðal Harpa, Íslenska óperan og allt tónlistarfólkið sem kom fram í Hörpuhorni. Myndlistarmenna gáfu einnig verk sín á listverkauppboð sem Listval stóð fyrir í tengslum við söfnunina. Upphæðin skiptist með þeim hætti að miðasölutekjur af Samstöðutónleikum Sinfóníuhjómsveitar Íslands voru kr. 6.215.930, tekjur af uppboði Listvals voru kr. 4.200.000 og ágóði af veitingasölu á Hnoss og La Primavera var kr. 335.000. 

Í samráði við ríkisstjórn Íslands var ákveðið að styrkja sérstaklega söfnun Þroskahjálpar vegna þess að fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað í stríðsátökum og staða þess í Úkraínu er grafalvarleg. Fatlað fólk getur ekki flúið vegna aðstæðna sinna, getur illa orðið sér út um mat, lyf og aðrar nauðsynjar. Einnig aukast líkur á ofbeldi, að fatlað fólk verði skilið eftir og að það sé án aðstoðar og stuðnings. 

Á Samstöðutónleikunum flutti Sinfóníuhljómsveit Íslands verk eftir Mozart, Bach og Beethoven, ásamt verki eftir úkarínska tónskálidið Valentin Silvestrov. Tónleikunum lauk svo með áhrifaríkum flutningi á þjóðsöngvum Íslands og Úkraínu. Tónleikarnir voru samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitarinnar og ríkisstjórnar Íslands og voru þeir sendir beint út á RÚV og hægt er að horfa á upptöku af tónleikunum á vefsíðum RÚV og hljómsveitarinnar.

„Ég er hrærð að fylgjast með þessum mikla stuðningi sem tónleikarnir og söfnunin fengu. Verkefnið er ærið, fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað í átökum og við getum verið stolt af því hvernig menningarlífið á Íslandi hefur sýnt stuðning sinn í verki fyrir þau sem eiga um sárt að binda. Ég er þakklát öllu því fólki sem lagði verkefninu lið, en framganga þeirra er ómetanleg,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

„Það skipti okkur gríðarlega miklu máli að geta lagt úkraínsku þjóðinni lið með einhverjum hætti og það gladdi okkur að sjá hve mikinn áhuga og stuðning verkefnið fékk meðal íslensku þjóðarinnar. Hversu fá sem við erum og hversu litlu okkur finnst við geta áorkað þegar við stöndum frammi fyrir voðaverkum eins og þeim sem nú eru að koma fram í dagsljósið þá skiptir það öllu máli að sýna samstöðu í verki. Ég þakka Þroskahjálp sérstaklega fyrir að hafa haft veg og vanda af söfnuninni og fyrir að vekja athygli á þeim vanda sem fatlað fólk stendur frammi fyrir á stríðstímum. Ég vona að við Íslendingar látum ekki hér við sitja heldur höldum áfram að hjálpa úkraínsku þjóðinni, bæði þeim sem hingað koma í leit að skjóli og þeim sem eru heima,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Það var ómetanlegt að finna fyrir stuðningnum við söfnunina. Neyð fatlaðs fólks í Úkraínu er mikil og við vitum að þessi styrkur mun sannarlega nýtast vel og jafnvel bjarga mannslífum. Við erum full þakklætis til allra sem að komu að söfnuninni og til þeirra sem styrktu hana. Sérstakar þakkir til þeirra listamanna sem gáfu verk sín til uppboðsins og til Sinfóníuhljómsveitar Íslands og allra í Hörpu fyrir sitt óeigingjarna framlag og fagra tóna. Miklu má áorka þegar listin leggst á sveif með mannúð og friði. Þakkir fyrir hönd Þroskahjálpar, Öryrkjabandalagsins, Átaks, Tabú og NPA miðstöðvarinnar sem saman standa að neyðarsöfnun fyrir fatlað fólk í Úkraínu,“ segir Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Alls hafa safnast 16,5 milljónir í söfnuninni sem hafa nú þegar bætt stöðu fatlaðs fólks í Úkraínu sem býr við hörmulegar aðstæður, getur illa flúið eða orðið sér úti um mat, lyf og aðrar nauðsynjar.

Vilt þú styrkja?

Styrkja með kreditkorti

Styrkja með millifærslu:

Reikningur
526-26-5281

 

Kennitala
521176-0409