Sérstakir afmælistónleikar Landssamtakanna Þroskahjálpar í tilefni af 40 ára afmæli þeirra verða haldnir sunnudaginn 6. nóvember í Iðnó kl. 17:00 - 18:30.
Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum eru finnsku pönkararnir Pertti Kurika Nimipäivät, sem voru fulltrúar Finnlands í Eurovision söngvakeppninni árið 2015. Allir meðlimir hljómsveitarinnar eru með þroskahömlun.
Þetta eru hljómsveitirnar sem munu koma fram:
- Sérstök afmælishljómsveit (Ice, No)
- Make Dreams Concrete (No)
- Pertti Kurikan Nimipäivät (Fi)
Make Dreams Concrete frá Noregi er hljómsveit sem samanstendur af nemendum á menntaskólastigi. Þau eiga það öll sameiginlegt að vera utanveltu við samfélagið á einn eða annan hátt. Þau eru nemendur í skóla sem rekinn er í stefnu Steiners og er staðsettur í Bergen.
Eitt af verkefnum þessarra nemenda var að koma reiði sinni út í samfélagið í orð. Margir hafa átt erfitt uppdráttar og finnst lífið vera óréttlátt, sem það er í mjög mörgum tilfellum innan nemendahópsins. Eftir að hafa talað um hjartans mál var ákveðið að mynda pönkhljómsveit og mun afrakstur pönknámskeiðs sem þau hafa tekið síðasta vor og núna í haust vera spilaður sem upphitunaratriði á afmælistónleikunum.
Auk hljómsveitanna munu nemendur úr diplómanámi í Myndlistaskóla Reykjavíkur sjá um að myndskreyta sviðið.
Frítt inn - allir velkomnir