Ágústa Erla Þorvaldsdóttir, varaformaður Landssamtakanna Þroskahjálpar, lést á Landspítalanum 23. ágúst síðastliðinn.
Ágústa sat í stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar og var kosin varaformaður samtakanna árið 2019. Hún var formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun, frá árinu 2018 en hún var einn af stofnfélögum félagsins sem var stofnað árið 1993 og sat þar í fjöldamörg ár í stjórn og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið.
Ágústa var ötul baráttumanneskja fyrir réttindum fólks með þroskahömlun og er framlag hennar til þeirrar mannréttindabaráttu ómetanlegt.
Við minnumst Ágústu með miklu þakklæti og hlýju. Hennar verður sárt saknað bæði úr hagsmunabaráttunni og sem einstakrar vinkonu og samstarfskonu.
Við sendum Johnny, sambýlismanni hennar, foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.