Landssamtökin Þroskahjálp héldu landsþing sitt og aðalfund 16. og 17. okt. sl. Yfirskrift þings og fundar var Félagasamtök og mannréttindi. Í tengslum við þingið var haldin ráðstefna um hlutverk hagsmunasamtaka og stöðu Landssamtakanna þroskahjálpar þar sem fjallað var um þau mál frá ýmsum hliðum og flutt fróðleg erindi af hálfu fólks sem tengist samtökunum með beinum hætti sem og af fulltrúum félaga sem samtökin starfa með og stjórnvalda sem ábyrgð bera á þjónustu við fatlað fólk og samtökin veita stuðning og aðhald með ýmsum hætti.
Landssamtökin Þroskahjálp héldu landsþing sitt og aðalfund 16. og 17. okt. sl. Yfirskrift þings og fundar var Félagasamtök og mannréttindi. Í tengslum við þingið var haldin ráðstefna um hlutverk hagsmunasamtaka og stöðu Landssamtakanna þroskahjálpar þar sem fjallað var um þau mál frá ýmsum hliðum og flutt fróðleg erindi af hálfu fólks sem tengist samtökunum með beinum hætti sem og af fulltrúum félaga sem samtökin starfa með og stjórnvalda sem ábyrgð bera á þjónustu við fatlað fólk og samtökin veita stuðning og aðhald með ýmsum hætti.
Á landsþinginu, ráðstefnu og aðalfundi voru líflegar og uppbyggilegar umræður um mannréttindi fatlaðs fólks og stöðuna í málefnum fatlaðs fólks, hlutverk og ábyrgð stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga, starfsemi félagasamtaka almennt og Landssamtakanna Þroskahjálpar sérstaklega og komu fram margar gagnlegar hugmyndir og ábendingar sem stjórn og starfsfólk samtakanna mun fjalla um og fylgja eftir.
Þá voru á aðalfundinum samþykktar ályktanir um ýmis mikilvæg hagsmunamál sem brenna á fötluðu fólki og aðstandendum þess. Þessum ályktunum er beint er til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga og fjölmiðla og hafa þær verið sendar öllum alþingismönnum, innanríkisráðherra, velferðarráðherra, sveitarstjórum og fulltrúum í sveitarstjórnum og fjölmiðlum.
Ályktanir landsþings Landssamtakanna Þroskahjálpar 2015.
GAGNVART RÍKINU.
Endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar leggur mikla áherslu á að við endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga verði tryggt að réttindi fatlaðs fólks njóti skýrrar og góðrar verndar. Landsþingið leggur áherslu á að þau réttindi og skyldur sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um, verði án frekari dráttar, innleidd í íslensk lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd með afdráttarlausum hætti. Landsþingið telur að réttindi fatlaðs fólks og vernd þess fyrir mismunun af ýmsu tagi verði best tryggð með sérlögum sem verði í fullu samræmi við samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ábyrgð ríkisins á að fatlað fólk njóti mannréttinda án mismununar og eftirlit með því.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að halda uppi skilvirku eftirliti með að fatlað fólk njóti hvarvetna þeirrar þjónustu og mannréttinda sem því ber samkvæmt lögum, reglum og mannréttindasamningum. Landsþingið skorar jafnframt á stjórnvöld að tryggja að í lögum sé skýrt hvað stjórnvöldum ber að gera ef út af því er brugðið sem og fullnægjandi úrræði til að knýja á um úrbætur ef tilefni er til og án óeðlilegs dráttar.
Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA).
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að standa þannig að tilraunaverkefni um NPA, m.a. hvað varðar fjármögnun núgildandi samninga, að verkefnið skili sem fyrst áreiðanlegum upplýsingum svo að lögbinda megi NPA-þjónustu til framtíðar og eyða þeirri óvissu sem þátttakendur í tilraunaverkefninu og þeir sem vilja sækja um NPA-þjónustu búa nú við. Landsþingið leggur áherslu á að NPA er góð aðferð til að tryggja fötluðu fólki möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagsþátttöku eins og meginmarkmið er samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá áréttar landsþingið mikilvægi þess að NPA verði valkostur fyrir allt fatlað fólk, óháð skerðingum og að þroskahömluðu fólki bjóðist þessi valkostur jafnt og öðrum.
Flóttafólk og vopnuð átök.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum til að taka tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd, við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks. Þá hvetur landsþingið stjórnvöld til að beita sér fyrir því í fjölþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og stuðning sem fatlað fólk á stríðshrjáðum svæðum hefur.
Sérfræðiþjónusta fyrir fullorðið fólk með þroskahömlun, einhverfu eða hreyfihömlun.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að tryggja fullorðnu fólki með þroskahömlun, einhverfu eða hreyfihömlun fullnægjandi sérfræðiþjónustu. Í ljósi þess að stjórnvöld hafa horfið frá fyrirætlunum um að setja upp sérhæfða þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem fengi m.a. það hlutverk að sjá umræddu fólki fyrir nauðsynlegri sérfræðiþjónustu, er brýnt að stjórnvöld leysi þegar úr þeirri knýjandi þörf með öðrum hætti.
Vernd fatlaðs fólks gegn misnotkun og ofbeldi.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur lögreglu- og dómsmálayfirvöld til að setja skýrar verklagsreglur um hvernig bæta megi réttarvernd fatlaðs fólks í málum er varða ofbeldi, t.d. kynferðislega misnotkun. Sterkar vísbendingar eru um að fólk með þroskahömlun sem verður fyrir ofbeldi njóti ekki verndar réttarkerfisins með sama hætti og þeir sem ófatlaðir eru, þar sem ekki er tekið tillit til sérstakra aðstæðna þess. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á um að stjórnvöldum beri að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfi til jafns við aðra meðal annars með hagræðingu málsmeðferðar.
GAGNVART SVEITARFÉLÖGUM.
Forgangsröðun í þágu mannréttinda fatlaðs fólks.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar minnir allar sveitarstjórnir í landinu á skyldu þeirra til að forgangsraða í fjárhagsáætlunum, fjárveitingum og allri framkvæmd í þágu mannréttinda. Gæta þarf vel að því að þjónusta við fatlað fólk hefur lögum samkvæmt það markmið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Þessi réttindi eru mannréttindi sem njóta viðurkenningar og verndar í alþjóðlegum mannréttindasamningum og eru sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Stjórnsýsla í málefnum fatlaðs fólks.
Landsþingið telur vera mikið áhyggjuefni hversu mörg dæmi eru um að sveitarfélög fari ekki að réttum málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í lögum og reglum, s.s. í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum, við meðferð og töku ákvarðana sem varða þjónustu við fatlaða einstaklinga. Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að sveitarfélög virði stjórnsýslureglur í málum er varða þjónustu við fatlað fólk og réttindi þess. Þessum reglum er ætlað að stuðla að því að stjórnvöld vandi meðferð mála og undirbúning og töku ákvarðana. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um ríka hagsmuni fólks er að ræða, eins og mjög oft er raunin í málefnum fatlaðs fólks.
GAGNVART RÍKI OG SVEITARFÉLÖGUM.
Fjárveitingar til málefna fatlaðs fólks.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar lýsir ánægju með þann vilja sem sveitarfélög hafa sýnt til að annast þjónustu við fatlað fólk og hvetur ríkið til að tryggja án frekari dráttar nægilegt fé til málaflokksins. Tryggja þarf að fatlað fólk fái notið þeirra mannréttinda sem það á rétt á samkvæmt lögum og mannréttindasamningum óháð búsetu.
Biðlistar eftir þjónustu .
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar þeirri ábendingu Ríkisendurskoðunar í skýrslu til Alþingis frá september 2014 að nauðsynlegt sé að setja ákvæði um hámarksbiðtíma eftir þjónustu. Jafnframt tekur landsþingið undir hvatningu Ríkisendurskoðunar til velferðarráðuneytis um að fylgjast vel með að sveitarfélögin uppfylli settar kröfur og grípi til aðgerða ef þörf krefur.
Vitundarvakning um fatlað fólk, virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar minnir á að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð mikil áhersla á skyldur stjórnvalda til að standa að vitundarvakningu á öllum sviðum samfélagsins, til þess að vinna á móti staðalímyndum og fordómum sem tengjast fötluðu fólki á öllum sviðum lífsins.
Landsþingið hvetur stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga til að taka þessar skyldur sínar alvarlega og varast mjög að fjalla um og setja fram upplýsingar er varða málefni fatlaðs fólks sérstaklega og fjármál sem þeim tengjast með þeim hætti að það sé til þess fallið að ýta undir neikvæð viðhorf og fordóma gagnvart fötluðu fólki.
GAGNVART FJÖLMIÐLUM OG ALMENNINGI.
Ábyrgð fjölmiðla.
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar minnir fjölmiðla á þá miklu ábyrgð sem þeir bera í því að vinna gegn neikvæðum viðhorfum og fordómum gegn fötluðu fólki og stuðla að því að almenningur beri virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn.
Landþingið bendir á að mikilvægi þessa hlutverks fjölmiðla er ekki að ástæðulausu tilgreint í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Landsþingið skorar á alla fjölmiðla að taka þessa ábyrgð sína mjög alvarlega og gæta þess sérstaklega að framsetning frétta, greina og upplýsinga sem og myndefnis stuðli að því að fatlað fólk njóti þeirra virðingar sem það á rétt á. Afar mikilvægt er að fjölmiðlar gæti þess sérstaklega að haga efnistökum sínum ekki með þeim hætti að vegið sé að virðingu fatlaðs fólks og ýtt undir fordóma gagnvart því.