Áskorun til stjórnvalda um að tryggja það að fötluðu fólki sé kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

 

Ábending og áskorun Landssamtakanna Þroskahjálpar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000 (kosningarréttur), Þingskjal 156  —  89. mál og frumvarps til laga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum (kosningaaldur), Þingskjal 40  —  40. mál. 

 Landssamtökin Þroskahjálp taka ekki afstöðu til ofangreindra frumvarpa en vilja í tilefni af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er með frumvörp til meðferðar um breytingar á lögum um kosningar koma eftirfarandi ábendingu og áskorun á framfæri við nefndina.

 Í 33. gr. íslensku stjórnarskrárinnar segir:

"Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt".

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra á síðasta ári og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins í íslenskum lögum og stjórnsýsluframkvæmd. 29. gr. samningsins ber yfirskriftina „Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi“. Þar segir:

Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum stjórnmálaleg réttindi og tækifæri til þess að njóta þeirra til jafns við aðra og skulu jafnframt:

a) Tryggja að fötluðu fólki sé gert kleift að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum og opinberu lífi til jafns við aðra, með beinum hætti eða fyrir atbeina fulltrúa eftir frjálsu vali, þar með talið er réttur og tækifæri til þess að kjósa og vera kosinn, meðal annars með því:

iii. að fatlað fólk geti tjáð frjálst vilja sinn sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði.
  (undirstr. LÞ)

Í 1. mgr. 86. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, eins og henni var breytt með lögum nr. 111/2012, segir:

Ef kjósandi skýrir kjörstjórn svo frá að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá úr kjörstjórninni er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina, að tilgreindum ástæðum. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.

Í 2. mgr. 86. gr. er síðan heimild, bundin ýmsum skilyrðum, fyrir einstakling til að fá aðstoð fulltrúa sem hann hefur sjálfur valið við að greiða atkvæði ef hann þarf aðstoð „sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf“.

Sambærileg ákvæði er að finna í 63. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.

Af framangreindu leiðir að samkvæmt kosningalögum er heimild fatlaðs einstaklings til aðstoðar við að greiða atkvæði bundin því skilyrði að þörf fyrir aðstoðina sé vegna „sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf“. Sé ástæða þess að einstaklingur þarf aðstoð til að greiða atkvæði annars konar fötlun, s.s. þroskahömlun, á hann því ekki rétt til aðstoðar samkvæmt íslenskum lögum. Þetta er mismunun á grundvelli fötlunar sem stangast á við íslenska stjórnarskrá og framangreint ákvæði liðar iii. í a-lið 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og fleiri ákvæði samningsins sem banna mismunun á grundvelli fötlunar.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa margsinnis bent íslenskum stjórnvöldum á þetta alvarlega mannréttindabrot og þá skyldu þeirra að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnsýslu til að fólk með þroskahömlun fái notið þeirra mannréttinda og grundvallarréttar í lýðræðisríki að geta greitt atkvæði í kosningum eins og annað fólk og fái þannig að taka þátt í því með öðrum Íslendingum að velja fulltrúa til að fara með vald fyrir sína hönd.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja hér með koma þessari ábendingu á framfæri við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og skora á nefndina að bregaðst við með viðeigandi hætti og án ástæðulauss dráttar eins og skylt er samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatalðs fólks  

 Lesa má um þessi mikilvægu mannréttindamál og hvernig staðan í þeim er almennt og hér á landi í grein Rannveigar Traustadóttur prófessors og James G. Rice lektors, Kosningar, lýðræði og fatlað fólk, sem birtist fyrr á síðasta ári í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla. Greinina má nálgast á þessum hlekk:

 

Nánar hér.