Athugasemdir Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun Íslands.

Athugasemdir Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun Íslands.

   20. júlí 2016

 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að innanríkisráðuneytið skuli hafa lagt fram til kynningar drög að frumvarpi um sjálfstæða mannréttindastofnun Íslands. Mjög tímabært og afar mikilvægt er að slík stofnun verði sem fyrst til og að þannig verði um hnúta búið að hún verði eins öflug og nokkur kostur er til að vinna að framgangi og vernd mannréttinda og að stofnunin verði nægilega burðug til að geta veitt stjórnvöldum nauðsynlegt og virkt aðhald að því leyti.

LÞ áskilja sér rétt til að koma ítarlegri og fleiri athugasemdum og ábendingum á framfæri við frumvarpið síðar, s.s. við þinglega meðferð þess ef ráðherra leggur það fram á Alþingi, en vilja á þessu stigi gera eftirfarandi athugasemdir.

Á heimasíðu ráðuneytisins þar sem frumvarpsdrögin eru kynnt og í drögunum sjálfum er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og þar segir að með frumvarpinu sé mætt kröfum sem gerðar eru í samningnum varðandi eftirlit með framkvæmd hans. Eitt meginmarkmið frumvarpins hlýtur samkvæmt því að vera að tryggja gott og skilvirkt eftirlit með því að fatlað fólk fái án mismununar notið mannréttinda sem eru sérstaklega áréttuð og varin í samningnum.

LÞ telja það markmið vera mjög mikilvægt þar sem mikill misbestur er á því að fullnægjandi eftirlit sé með að fatlað fólk á Íslandi fá þau réttindi og þjónustu sem það á lagalegan rétt á. Mjög oft er þar um að ræða réttindi sem eru mannréttindi í skilningi laga og fjölþjóðlegra mannréttindasamninga. Þá er oft og víða mikill misbrestur á að umfjöllun og afgreiðsla stjórnvalda á erindum og málum fatlaðs fólks uppfylli kröfur stjórnsýsluréttar og góðra stjórnsýsluhátta, s.s. hvað varðar leiðbeiningar, rannsókn mála, málshraða, skilyrði um skýrleika stjórnvaldsákvarðana og upplýsingar um kæruleiðir. Meginreglur stjórnsýsluréttarins hafa mikil og margvísleg tengsl við mannréttindi, enda er þeim eins og mörgum mannréttindum ekki síst ætlað að verja fólk fyrir misbeitingu valds af hálfu stjórnvalda og stuðla að því að það fái þann rétt sem því ber og án ólögmætrar mismununar.

LÞ telja því vera afar brýnt að mjög vel sé vandað til laga og reglna varðandi stofnun sem á að gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja fólki þau mannréttindi sem það á rétt til að njóta eins og m.a. er áréttað í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Með vísan til þess sem að framan er rakið vilja LÞ vekja athygli ráðuneytisins á eftirfarandi.

Í II. og III. kafla laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, eru ákvæði um „réttindavakt ráðuneytisins“ og „réttindagæslumenn fatlaðs fólks“. Eins og hlutverki og verkefnum réttindavaktar og réttindagæslumanna er þar lýst gegna þau afar mikilvægu hlutverki við að fylgjast með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem því eru tryggð í lögum, stjórnarskrá og fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist og hyggst undirgangast á næstunni, þ.e. samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Bent skal á að samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks skal hafa samninginn til viðmiðunar við framkvæmd laganna þó að íslenska ríkið hafi ekki enn fullgilt hann.[1]

Samkvæmt lögum nr. 88/2011 heyrir réttindavaktin og réttindagæslumennirnir undir velferðarráðuneytið og eru réttindagæslumenn ráðnir af félags- og húsnæðismálaráðherra. Sami ráðherra fer samkvæmt lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks, sbr. 3. gr. laganna og ber því mikla ábyrgð og hefur miklar skyldur varðandi framfylgd laganna. Í ljósi þess að félags- og húsnæðismálaráðherra er það stjórnvald sem ber samkvæmt framansögðu höfuðábyrgð á að tryggja fötluðu fólki ýmis mannréttindi er augljóst að það fyrirkomulag að láta réttindavaktina og réttindagæslumenn heyra undir ráðherrann stenst engan veginn viðurkenndar kröfur um sjálfstæði og óhæði eftirlitsaðila með mannréttindum, sem m.a. eru settar fram í Parísarviðmununum, enda er í ákvæði III til bráðabirgða við lög nr. 88/2011, kveðið á um að það fyrirkomulag skuli endurskoðað.[2]

Starfshópur var skipaður samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu og skilaði hann skýrslu sem vísað er til í athugsemdum við lagafrumvarpsdrögin sem hér eru til umfjöllunar. Í drögunum og athugasemdum við þau er þó að mati LÞ engan veginn nógu ljóst að hvaða marki mannréttindastofnun sem frumvarpið mælir fyrir um er ætlað að sinna þeim verkefnum sem nú er lögum samkvæmt sinnt af réttindavakt og réttindagæslumönnum. Þá er ekki heldur ljóst samkvæmt drögunum hvort gert er ráð fyrir að réttindavaktin og réttindagæslumenn verði áfram undir ráðherra eða verði komið fyrir í stjórnkerfinu með einhverjum þeim hætti sem samræmist eftirlitshlutverki þeirra með stjórnvöldum þannig að nægilegt sjálfstæði þess eftirlits verði tryggt sem og sá trúverðugleiki sem er forsenda þess að eftirlitsaðilar af þessu tagi fái notið nauðsynlegs trausts almennt og sérstaklega hjá þeim sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta.

Að mati LÞ er því nauðsynlegt að skýrt verði í frumvarpinu eða með öðrum ótvíræðum hætti hvernig og hvar í stjórnkerfinu eftirlitsverkefnum réttindavaktar og réttindagæslumanna verður fyrir komið.

LÞ vilja í þessu sambandi einnig benda á að samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks eru sveitarfélög / þjónustusvæði ábyrg fyrir að veita fötluðu fólki þá þjónustu sem það á rétt á og er þar mjög oft um að ræða réttindi sem eru mannréttindi í skilningi laga og fjölþjóðlegra samninga. Sveitarfélög á Íslandi eru nú rúmlega 70 talsins og er mjög misjafnt hvaða burði og þekkingu þau hafa til að sinna þjónustu við fatlað fólk, fjalla um erindi þeirra og mál og leysa úr þeim. Sú þjónusta og málsmeðferð sem sveitarfélögin veita og hafa er því oft mjög misjöfn og mörg dæmi eru um að fatlað fólk hafi þurft að flytjast milli sveitarfélaga til að fá fullnægjandi þjónustu eða geti ekki flust þrátt fyrir vilja til þess þar sem sveitarfélag sem það vill búa í veitir því ekki fullnægjandi þjónustu eða löng bið er þar eftir þjónustunni. Augljóst er að með þessu er vegið mjög alvarlega að rétti hlutaðeigandi fólks til að ráða búsetu sinni og því mismunað hvað varaðr þann rétt á grundvelli fötlunar. Rétturinn til að ráða búsetu sinni er mannréttindi í skilningi laga og fjölþjóðlegra samninga og mismunun á grundvelli fötlunar er mannréttindabrot samkvæmt íslensku stjórnarskránni og mannréttindasamningum.

Ríkið ber samkvæmt lögum og fjölþjóðlegum mannréttindasamningum ábyrgð á að tryggja fólki mannréttindi og að verja það fyrir mismunun almennt og alveg sérstaklega því að að vera mismunað hvað varðar mannréttindi án lögmætrar ástæðu. Mismunun á grundvelli fötlunar og / eða búsetu hvað varðar mikilvæg mannréttindi sem oft ráða úrslitum um möguleika fatlaðs fólks til virkni í samfélaginu og grundvallarlífsgæði þess er alvarlegt brot gegn mannréttindum. Ríkið ber ábyrgð á að tryggja að lög, reglur og framkvæmd sem á að verja fatlað fólk fyrir slíkri mismunun sé skilvirk og nægileg lagaleg úrræði séu til staðar til að það geti brugðist skjótt við með viðeigandi hætti þegar tilefni er til.

LÞ telja að það regluverk sem nú er í lögum sem og framkvæmd ráðuneyta sé alls ekki fullnægjandi til að ríkið uppfylli skyldur sínar til að hafa eftirlit með að fatlað fólk fái notið mannréttinda og geti brugðist við með skilvirkum hætti þegar málavextir og aðstæður krefjast. Áréttað skal að þetta mikilvæga eftirlit er á ábyrgð ríkisins þó að framkvæmdin sé falin sveitarfélögum / þjónustusvæðum með lögum. Óljós skipting ábyrgðar að þessu leyti um ýmis mikilvæg atriði milli félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra (ráðherra sveitarstjórnarmála) verður svo til að veikja enn þetta stjórnsýslueftirlit og gera það ógagnsærra og óskilvirkara. LÞ telja afar brýnt að á þessu verði tekið og tryggt verði að í lögum sé skýrt kveðið á um skyldu ráðuneyta til að bregðast við sem og skilvirk úrræði fyrir þau þegar fyrir liggur að einstök sveitarfélög / þjónustusvæði uppfylla ekki kröfur varðandi þjónustu við fatlað fólk. Og þegar sú þjónusta sem um ræðir er forsenda þess að hlutaðeigandi fólk fái notið mannréttinda er augljóslega sú skylda á ríkinu að bregðast mjög skjótt við.

 Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

 

 

 



[1] Í 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, segir:

Við framkvæmd laga þessara skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.

[2] Bráðabirgðaákvæðið hljóðar svo:

Ráðherra skal þegar við samþykkt laga þessara skipa starfshóp til að endurskoða fyrirkomulag réttindagæslu fyrir fatlað fólk með það fyrir augum að farið sé með réttindagæsluna sem mannréttindamál en ekki velferðarmál eða félagslegt málefni. Skal hópurinn leitast við að tryggja skilvirka, öfluga og framsækna leið til að sinna réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Við endurskoðunina skal taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 Meðal þess sem starfshópurinn skal skoða eru möguleikar þess að færa verkefnið til ráðuneytis mannréttindamála, stofnun þjóðbundinnar mannréttindastofnunar til að sinna verkefninu eða að veita Mannréttindaskrifstofu Íslands lögbundið hlutverk til að sinna verkefninu. Skal hópurinn líta sérstaklega til Parísarreglna Sameinuðu þjóðanna í þessu samhengi.
 Þá skoði starfshópurinn möguleika á samnýtingu sérþekkingar með því að færa alla réttindavernd og réttindagæslu annarra hópa til sama aðila.
 Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum [ráðuneytisins og ráðuneytis mannréttindamála],1) fjölbreyttum hagsmunasamtökum fatlaðs fólks, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum. Auk þess verði leitað til mannréttindasérfræðinga og sérfræðinga á sviði réttindagæslu, réttindaverndar og fötlunarfræða.
 Starfshópurinn skal ljúka vinnu sinni eigi síðar en 31. desember 2011 og skila skýrslu til ráðherra með tillögum að lagabreytingum sem ráðherra skal kynna fyrir Alþingi.