Alþjóðadagur fatlaðs fólks og Múrbrjóturinn

Mynd: Landssamtökin Þroskahjálp
Mynd: Landssamtökin Þroskahjálp

Í dag er alþjóðadagur fatlaðs fólks, 3. desember en í ár er þemað „Building Back Better: toward a disability-inclusive, accessible and sustainable post COVID-19 World“, eða hvernig við byggjum upp betri heim eftir COVID-19 með inngildingu, aðgengi og sjálfbærni að leiðarljósi.

Við hjá Þroskahjálp helgum alla daga baráttunni fyrir réttindum, hagsmunum og tækifærum fatlaðs fólks. Þrátt fyrir að mikil framþróun hafi orðið má aldrei sofna á verðinum, síst á komandi tímum þegar störfum fer fækkandi vegna sjálfvirknivæðingar, blikur eru á lofti í efnahagsmálum og mannréttindi eiga undir högg að sækja víða um heim.

Kröfur Þroskahjálpar á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks eru skýrar:

  • Lögfesta samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fullgilda valkvæða viðaukann.
  • Setja heildstæð mismununarlög sem banna mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins.
  • Koma á fót sjálfstæðri mannréttindastofnun. 
  • Tryggja að fatlað fólk hafi tækifæri til að lifa innihaldsríku lífi til jafns við aðra og með reisn.

 

Við óskum fötluðu fólki og öllu stuðningsfólki mannréttinda þess til hamingju með daginn og lítum hreykin yfir farinn veg.

Múrbrjóturinn

Í dag verður viðurkenning Þroskahjálpar, Múrbrjóturinn, einnig afhentur í streymi kl. 14.00. Smelltu hér til að sjá viðburðinn og fylgjast með streyminu.

Múrbrjóturinn dregur nafn sitt af því að viðurkenningin er veitt þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.
Þroskahjálp hefur frá árinu 1993 veitt viðurkenninguna á alþjóðadegi fatlaðs fólks.