Ályktanir samþykktar á fulltrúafundi í Stykkishólmi.

Á fulltrúafundi samtakanna í Stykkishólmi 12.-14. okt. sl. voru samþykktar ályktanir um eftirtalin atriði: - Þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum, - Notendastýrða persónulega aðstoð, - Félagsþjónustu við fatlað fólk, Heils lífs þjónustu, - Greiðslur almannatrygginga, - Umönnunargreiðslur vegna fatlaðra barna, - Atvinnu, - Réttindgæslu, - Háskólanám fólks með þroskahömlun og Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Ályktanir fulltrúafundar Landssamtakanna Þroskahjálpar 13.okt. 2012

 Þjónusta við fatlað fólk á heimilum sínum

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á sveitarfélög landsins að hefja nú þegar markvissa uppbyggingu á þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.  Fundurinn hvetur sveitarfélögin til að tileinka sér það vinnulag sem innleitt er í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum og í nýsamþykktum lögum um réttindagæslu.
  • Greinargerð:
  • Ljóst er að í mörgum sveitarfélögum landsins er löng bið eftir heildstæðri heimilisþjónustu við fatlað fólk, sérstaklega  fyrir fatlað fólk sem þarfnast mikillar þjónustu.  Slík staða felur í sér skert lífsgæði, óvissu og erfiðleika fyrir umrædda einstaklinga og fjölskyldur þeirra.  Brýnt er að nú þegar vinni sveitarfélög landsins raunhæfar áætlanir sem hafa að markmiði að koma þessari þjónustu í jafnvægi. Reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum felur í sér mikilvæga leiðsögn um vinnulag og innihald þjónustu sem brýnt er að þjónustuveitendur tileinki sér.  Þá er mikilvægt að þjónustuveitendur starfi í anda nýrra laga um réttindagæslu sem fela m.a. í sér leiðir til að draga úr beitingu nauðungar og þvingunar í starfi með fötluðu fólki.

Notendastýrð persónuleg aðstoð

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar því að tilraunaverkefni um NPA er hafið. Rétt er að árétta að fatlað fólk á lögbundinn rétt til þjónustu í samræmi við þarfir, NPA er mikilvægur valkostur óháð skerðingum og búsetu óski menn þess.
  • Greinargerð:
  • Fundurinn hvetur  sveitarfélög landsins til þátttöku í tilraunaverkefninu og að einstaklingar með ólíkar þjónustuþarfir fái  slíka aðstoð óski þeir þess. Þannig fæst  víðtækari reynsla af framkvæmd verkefnisins gagnvart ólíkum hópum. Stjórnvöld eru hvött til að sjá til þess að nægilegt fjármagn fylgi verkefninu. Þá er brýnt að ólíkir aðilar s.s. félagsþjónusta, heimahjúkrun og menntakerfi starfi saman með hagsmuni notanda þjónustunnar að leiðarljósi.

Félagsþjónusta við fatlað fólk - Heils lífs þjónusta

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar áréttar að þjónusta við margt fatlað fólk er heils lífs þjónusta. Þjónustan þarf að vera einstaklingsbundin og samræmd og taka mið af aðstæðum einstaklingsins sjálfs á hverjum tíma.  Brýnt er að sveitarfélög landsins geri markvissar áætlanir um  uppbyggingu þjónustunnar í samvinnu við notendur.  Auka þarf skilvirkni  í vinnulagi og færa  ákvarðanatöku um nauðsynleg þjónustuúrræði nær notandanum.   Samtökin árétta mikilvægi samskipunar í samfélaginu og að sveitarfélög landsins tileinki sér hugmyndafræði um sjálfstætt líf.

 Greiðslur almannatrygginga:

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á Alþingi að tryggja að upphæð örorkubóta almannatrygginga hækki að lágmarki til samræmis við hækkun lægstu launa  þann 1.janúar 2013 þ.e.a.s. um 11.000 kr.
  • Greinargerð:
  • Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013 er gert ráð fyrir að bætur hækki um 3.9% nú um áramót sem er umtalsvert minni hækkun en hækkun lægstu launa á sama tíma. Það sama var uppá teningnum um síðustu áramót. Ástæða er til að vara við þeirri þróun að upphæð bóta almannatrygginga sé slitin úr sambandi við launaþróun samanburðarhópa.   Minnt er á að margir, ekki síst fólk með þroskahömlun, þurfa til langs tíma að framfleyta sér einvörðungu á bótum almannatrygginga.

 Umönnunargreiðslur vegna fatlaðra barna

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna  Þroskahjálpar  ítrekar nauðsyn þess að staðinn verði vörður um umönnunargreiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna.  Greiðslur þessar hafa  mörg undanfarin ár ekki hækkað í samræmi við laun eða aðrar bætur í samfélaginu. Þá hefur orðið umtalsverð fækkun foreldra sem njóta umönnunargreiðslna. Samtökin ítreka þá skoðun sína að greiðslur þessar eru mikilvægur þáttur í velferð fatlaðra barna og fjölskyldna þeirra.

 Atvinna

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar ítrekar fyrri afstöðu sína um að líta beri á atvinnumál fatlaðs fólks  á sama hátt og atvinnumál almennt. Því sé eðlilegt að þessi málaflokkur heyri undir Vinnumálastofnun í samræmi við gildandi lög. Fundurinn lýsir yfir áhyggjum með þá óvissu sem nú er uppi um framtíðarskipan þessa málaflokks og skorar á Velferðarráðherra að eyða þeirri óvissu.

 Réttindagæsla

Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar  fagnar því að Alþingi hafi nú samþykkt heildstæð lög um réttindagæslu  fatlaðs fólks.   Í nýsamþykktum lögum eru ákvæði sem ætlað er  að draga úr beitingu valds og  þvingunar í þjónustu við fatlað fólk.  Brýnt er að setning laganna leiði til þess að vinnulag breytist. Fundurinn skorar á velferðarráðherra að ganga nú þegar frá þeim reglugerðum sem áætlað er að setja við lög um réttindagæslu

 Háskólanám fólks með þroskahömlun

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar  hvetur til þess að diplomanám fyrir fólk með þroskahömlun verði fest í sessi við Háskóla Íslands og verði gert að fastri námsbraut sem taki inn nemendur á hverju ári.  Þá hvetja samtökin aðra skóla á háskólastigi til að þróa námsleiðir fyrir nemendur með þroskahömlun.  Mikilvægt er að stjórnvöld tryggi fjárhagslegan grunn slíks náms og stuðli þannig að auknum námstækifærum einstaklinga með þroskahömlun.

 Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks

  • Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem inniheldur að mati samtakanna fjölda mikilvægra verkefna sem eru til þess fallin að bæta stöðu og lífsgæði fatlaðs fólks á Íslandi.  Samtökin skora á Alþingi að tryggja nægilegt fjármagn til að stuðla að framkvæmd þeirra tillagna sem samþykktar hafa verið.