Barátta Þroskahjálpar í faraldrinum

Fátt annað en kórónaveiran hefur komist að í umræðunni undanfarnar vikur og starf Landssamtakanna Þroskahjálpar hefur litast af því. Við höfum staðið vaktina til að tryggja réttindi og öryggi fatlaðs fólks og aðstandenda þess, og miðlað margvíslegum mikilvægum upplýsingum um kórónaveiruna og ástandið. 

Upplýsingabæklingur á auðlesnu máli um kórónaveiruna

Landssamtökin Þroskahjálp áttu frumkvæði að því að vinna efni á auðlesnu máli um kórónaveiruna í samtarfi við landlækni og heilbrigðisráðuneytið. Samtökin töldu mikla þörf fyrir að útbúa lesefni fyrir fólk sem nýtir sér auðlesið mál, til að mynda fólk með þroskahömlun, um kórónaveiruna. Mikil ofgnótt er af upplýsingum í gangi og jafnvel falsfréttir í umferð á samfélagsmiðlum. Því er mikilvægt er að fólk geti nálgast góðar og réttar upplýsingar um veiruna og hvernig beri að hegða sér vegna ástandsins. Heilbrigðisyfirvöld óskuðu svo eftir því að bæklingurinn yrði þýddur á ensku og pólsku.

Nálgast má bæklingana á vefsíðu Þroskahjálpar hér, hægra megin á forsíðunni og á www.covid.is

Þá hafa samtökin verið í sambandi við stjórnendur Ríkisútvarpsins um að þau miðli efni varðandi kórónaveiruna á auðskildu máli, sem hentar fólki með þroskahömlun og raunar ýmsum öðrum hópum. Stjórnendur RÚV tóku vel í það og ítrekar Þroskahjálp hér með hvatningu sína til þeirra um að sinna umræddum hópum til jafns við aðra í þessi mikilvæga máli.  

 

Þjónusta verði veitt áfram eins og unnt er

Samtökin hvöttu sveitarfélög til þess að þjónusta við fatlað fólk héldist opin eins og kostur væri, sama hvort um væri að ræða skammtímavistun, frístundastarf, verk- og vinnustaði. Samtökin vildu þar að auki vekja athygli á að þjónusta við fatlað fólk þyrfti ekki að vera bundin innan ákveðinna fjögurra veggja heldur ætti að finna leiðir til að veita þjónustu þar sem notendurnir eru. Skorað var á sveitarfélögin að tryggja einstaklingsmiðaða þjónustu.

Þá hafa samtökin lagt áherslu á það gagnvart skólayfirvöldum að huga sérstaklega að aðstæðum og þörfum fatlaðra nemenda og aðstenda þeirra þegar skólum er lokað, bæði hvað varðar tækifæri þeirra til náms til jafns við aðra nemendur og einnig hvað varðar þjónustu sem þau þurfa á að halda vegna fötlunar sinnar og hafa fengið í skólum og þurfa nú að fá heim. Það voru því samtökunum veruleg vonbrigði að Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra skyldi ekki nefna aðstæður og þarfir og réttindi þessara berskjölduðu barna og aðstandenda þeirra í viðtali sem tekið var við hana í Kastljósi RÚV í gær, 19. mars.

 

Laun aðstandenda verði tryggð

Ljóst er að þjónusta við fötluð börn, ungmenni og fullorðið fatlað fólk hefur skerst mikið nú þegar og óljóst hvernig mál þróast áfram. Landssamtökin Þroskahjálp hafa krafist þess við Ásmund Einar Daðason félagsmálaráðherra að fólk sem ekki getur komist til vinnu vegna þjónustuskerðingar við fatlaða aðstandendur þeirra, fái greiðslur líkt og þau sem eru í sóttkví. Jafnframt hafa samtökin bent á að þegar aðstandendur ganga inn í stuðning við fatlað fólk sem alla jafna er veittur af starfsfólki sveitarfélags fái þeir greidd sambærileg laun fyrir þá þjónustu enda líklegt að þeir verði fyrir alvarlegu tekjutapi vegna þessa. Eins hefur verið óskað eftir því að sveitarfélög felli úr gildi tímabundið ákvæði í notendasamningum og NPA samningum þar sem kveðið er á um að aðstandendur megi ekki taka að sér störf og þiggja laun skv. samningnum.

 

NPA þjónusta

Landssamtökin Þroskahjálp hafa átt samtal við félagsmálaráðuneytið til að tryggja að samfella og öryggi verði tryggt í þjónustu við NPA notendur.

Á þessum hlekk má lesa áskorun sem sérfræðingur (Special Rapporteur) Sameinuðu þjóðanna í réttindum fatlaðs fólks hefur sent frá sér um skyldur ríkja til að huga sérstaklega að aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks þegar þau bregðaast við kórónaveirunni og grípa til ráðstafana í því skyni: https://www.ohchr.org/EN/NewsEvents/Pages/DisplayNews.aspx?NewsID=25725&LangID=E

 

Lausnir og leiðir

Samtökin hafa verið í góðu og þéttu samstarfi við þá aðila sem bera ábyrgð á að veita þjónustu til fatlaðs fólks og lagt sig fram um að veita leiðbeiningar og finna færar lausnir og leiðir í samstarfi við viðkomandi aðila. Við munum standa vaktina áfram.