Myndlýsing: Tvö börn sitja þétt og skrifa saman. Mynd: Pexel
Umboðsmaður barna, ásamt Landssamtökunum Þroskahjálp og Tabú hafa sent bréf til dómsmálaráðuneytisins og Dómstólasýslunnar vegna ofbeldis gegn fötluðum börnum.
Alþjóðlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að fötluð börn og ungmenni eru í mun meiri hættu á því að verða fyrir ofbeldi, í samanburði við önnur börn, jafnvel fimmfaldri áhættu. Engar vísbendingar eru um að þessu sé öðruvísi farið hér á landi en ofbeldi gegn fötluðum börnum er ein birtingarmynd neikvæðra og úreltra hugmynda og viðhorfa gagnvart fötluðu fólki sem hefur leitt til mismununar og jaðarsetningar þeirra.
Þó svo að fötluð börn séu í aukinni áhættu á því að verða fyrir ofbeldi er aðeins lítill hluti slíkra brota sem rata inn á borð lögreglu og ákæruvalds og fari mál fyrir dómstóla eru minni líkur á sakfellingu en í öðrum sambærilegum málum. Að uppræta ofbeldi gegn fötluðum börnum er því brýnt og ærið verkefni sem allar stofnanir samfélagsins þurfa að koma að, ekki síst dómstólar. Með hliðsjón af framangreindu hafa umboðsmaður barna, Þroskahjálp og Tabú sett fram leiðbeiningar sem fylgja bréfinu, til áréttingar á þeim alþjóðaskuldbindingum á sviði mannréttinda sem Ísland hefur undirgengist, og sem varða rétt fatlaðra barna til öruggra og þroskavænlegra lífsskilyrða og verndar gegn hvers kyns ofbeldi.
Bréfið má lesa í heild sinni hér.