Verkið Þetta er ég eftir Hörpu Rut Elísdóttur.
Öll erum við manneskjur og eigum þá öll að hafa sömu réttindi og allir hinir. Sumu fólki finnst í lagi að bjóta mannréttindi ef maður er fatlaður. Við eigum að geta farið í það nám og þau störf sem við viljum fara í. En sem fatlað fólk getum við ekki sótt um sumt nám vegna þess að við fáum ekki stúdentspróf og höfum þá ekki tækifæri til sækja um áframhaldandi nám. Stúdentsprófið er lykillinn til að komast áfram í lífinu, en við fáum ekki einu sinni tækifæri til að fá þennan lykil og komumst því ekki áfram því hurðin er læst.
Við höfum öll lent í því að það sé talað öðruvísi við okkur af því að við erum með fötlun, þótt við séum með fötlun þá þýðir það ekki að við séum krakkar. Við viljum að það sé borin virðing fyrir okkur. Fatlaðir eiga að hafa sinn rétt og eiga að fá að gera það sem aðrir fá að gera. Annað fólk fær tækifæri til að sækja um í háskóla en ekki við. Þetta eru brot á mannréttindum. Okkur finnst að fatlað fólk eigi að fá stuðning í hvaða námi og starfi sem það vill fara í. Við hvetjum allt samfélagið til að standa með okkur í þessum málum.
Þegar við fórum í heimsókn í Listaháskólann um daginn sögðu þau bara við okkur að við gætum ekki komið í skólann vegna þess að við erum ekki með stúdentspróf og þau hefðu ekki nægan pening til þess að veita þann stuðning sem við þurfum. Við tókum það nærri okkur að ekki væri gert ráð fyrir fötluðum nemendum við skólann. Ef við værum ekki fötluð væri örugglega möguleiki að komast í skólann án stúdentsprófs.
Af hverju er verið að gera upp á milli fólks?! Það eiga allir að hafa sömu tækifæri til að geta sótt um í háskólanám. Þó að fólk sé fatlað þá vill það samt mennta sig eins og annað fólk.
Við biðjum alla háskóla á Íslandi að breyta þessu og bjóða upp á fjölbreytt nám með stuðningi fyrir fatlað fólk. Við biðjum samfélagið að styðja við okkur og við biðjum stjórnmálafólk að breyta menntakerfinu þannig að við fáum öll tækifæri til að halda áfram í námi. Eins og er sagt hér að framan viljum við að fatlaðir geti sótt um hvaða nám sem þau vilja og fái til þess stuðning.
Harpa Rut
Greinin birtist fyrst á Fréttablaðið.is