Stjórnsýsla sveitarfélaga - Dómur fellur

Í síðustu viku var kveðinn upp dómur í héraðsdómi Suðurlands þar sem felld var úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins Grímsnes og Grafningshrepps og velferðarþjónustu Árnesþings um að synja kröfu sjö fatlaðra íbúa á Sólheimum í Grímsnesi um ferðaþjónustu.

Margt í máli þessu og dómnum er mikilvægt og áhugavert og varpar ljósi á aðstæður og réttindi fatlaðs fólks.

Dómurinn ógilti ákvörðun sveitarfélagsins og velferðarþjónustunnar á þeim grundvelli að ekki hefði verið farið að stjórnsýslureglum við að rannsaka málið og meta aðstæður hlutaðeigandi íbúa áður en ákvörðun var tekin í máli þeirra.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað vakið athygli á að sjórnsýsluhættir sveitarfélaga í málum fatlaðs fólks séu of oft og of víða ekki nægilega vandaðir og að nauðsynlegt sé að sveitarfélög og velferðarráðuneytið hafi skilvirkara eftirlit með því. Megintilgangurinn með stjórnsýslureglum er að stuðla að því að fólk fái örugglega þann rétt sem það á lögum samkvæmt og mál þess fái vandaða og sanngjarna meðhöndlun hjá ríki og sveitarfélögum. Ef stjórnvöld vanda ekki stjórnsýsluhætti sína og fara ekki að reglum stjórnsýslulaga er mikil hætta á að ákvarðanir þeirra taki ekki eðlilegt tillit til hagsmuna þess fólks sem í hlut á og að ákvarðanir þeirra verði rangar, óréttlátar og jafnvel ólöglegar. Oft eru mjög miklir hagsmunir í húfi fyrir fatlað fólk sem í hlut á og svo veigamikil réttindi að þau teljast vera mannréttindi samkvæmt lögum, stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasamningum

 ,,Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar telur vera mikið áhyggjuefni hversu mörg dæmi eru um að sveitarfélög fari ekki að réttum málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í lögum og reglum, s.s. í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum, við meðferð og töku ákvarðana sem varða þjónustu við fatlaða einstaklinga. Fulltrúafundurinn krefst þess að sveitarfélög virði stjórnsýslureglur í málum er varða þjónustu við fatlað fólk og réttindi þess. Þessum reglum er ætlað að stuðla að því að stjórnvöld vandi meðferð mála og undirbúning og töku ákvarðana. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um ríka hagsmuni fólks er að ræða, eins og mjög oft er raunin í málefnum fatlaðs fólks."

(Samþykkt á fulltrúaráðsfundi Þroskahjálpar 8. október 2016.)

 

Landssamtökin Þroskahjálp skora á sveitarfélög og ríki að gera það sem gera þarf til að tryggja að fatlað fólk njóti örugglega þeirra réttidna sem það á og hagsmunir þess þeirrar verndar sem stjórnsýslureglur og góðir stjórnsýsluhættir eiga að tryggja. Ofangreindur dómur héraðsdóms Suðurlands er enn ein áminningin um mikilvægi þessa.

 

Með því að smella á eftirfarandi takka má nálgast allar ályktanir fulltrúafundar Landssamtakanna Þroskahjálpar. 

Ályktanir

 

Og á þessum takka má nálgast umræddan dóm héraðsdóms Suðurlands.

 Dómurinn