Fjölgun NPA samninga og átak í byggingu íbúða fyrir fatlað fólk!

[Auðlesin útgáfa er neðst í fréttinni]

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á ríkisstjórnina að hraða framkvæmd lagaákvæða um niðurlagningu stofnana og herbergjasambýla fyrir fatlað fólk með því að ráðast í átak við byggingu íbúða og að fjölga NPA samningum. 

Með þessu tryggja stjórnvöld réttindi fatlaðs fólks sem þegar eru bundin í lög, og nýta verkefnin til þess að byggja upp og styðja við samfélagið en þessi verkefni eru hvoru tveggja atvinnuskapandi. 

 

Ályktanirnar í heild: 

Fjölgun samninga um notendastýrða persónulega aðstoð

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á ríkisstjórnina að fjölga nú þegar samningum um notendastýrða persónulega aðstoð.

 

Geinargerð

Með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir var notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) tekin í lög sem aðferð við þjónustu við fatlað fólk. Fyrir fatlað fólk sem vill nýta sér NPA og hefur miklar þjónustuþarfir auka samningar um NPA mjög mikið tækifæri þess til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu og til að njóta margra annarra mikilsverðra mannréttinda.

Í lögum um þjónustu við fatlað fólk segir að ríkið muni leggja fé til tiltekins fjölda NPA-samninga  og fjölgar þeim samningum samkvæmt lögunum á milli ára og eiga þeir að verða 172 á árinu 2022. Eftir það fellur ákvæðið um tiltekinn fjölda samninga niður.  

Allt bendir til að atvinnuástand verði erfitt á Íslandi á næstu misserum og jafnvel árum. Stjórnvöld hafa því ákveðið að ráðast í ýmsar framkvæmdir nú og á næstunni til að skapa atvinnu. 

Með vísan til þess sem að framan segir skora Landssamtökin Þroskahjálp á ríkisstjórnina að gera nú þegar ráðstafanir til að fjölga megi þeim NPA-samningum sem ríkið leggur fé til  þannig að þeir verði a.m.k. 172 á yfirstandandi ári. Með því yrði hraðað framkvæmd laga um aðgang fatlaðs fólks að  til NPA-samningum og því tryggð mikilsverð tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu. Með því yrðu einnig til störf við að aðstoða þá sem hafa NPA-samninga fyrir fólk sem ella væri atvinnulaust eða í skertum störfum og fengi því atvinnuleysisbætur eða hlutalaun frá ríkinu.

Niðurlagning stofnana og herbergjasambýla og bygging íbúða fyrir fatlað fólk

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til að hraða framkvæmd lagaákvæða um niðurlagningu stofnana og herbergjasambýla þar sem fatlað fólk býr með því að ráðast í átak við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk.

 

Geinargerð

Í lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er mælt fyrir um „að fatlað fólk eigi rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra“ og að „óheimilt sé að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að að það búi í tilteknu búsetuformi.“ Þá segir í lögunum að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir.

Til að uppfylla þessar lagalegu skyldur til að gefa fötluðu fólki kost á að að eignast eigið heimili og njóta margvíslegra mannréttinda sem því tengjast, s.s. tækifæra til einkalífs og fjölskyldulífs, verða stjórnvöld að tryggja að nægilegar margar íbúðir verði byggðar.

Víst má telja að atvinnuástand verði erfitt á Íslandi á næstu misserum og jafnvel árum. Stjórnvöld hafa því ákveðið að ráðast í ýmsar framkvæmdir nú og á næstunni til að skapa atvinnu. 

Með vísan til þess sem að framan segir skora Landssamtökin Þroskahjálp á ríkisstjórnina að gera ráðstafanir til að ráðist verði í átak  við að byggja íbúðir fyrir fatlað fólk. Með því yrði hraðað framkvæmd lagalegrar skyldu sem hvílir nú þegar á stjórnvöldum til að gera fötluðu fólki kleift að eignast heimili og um leið yrðu sköpuð störf við byggingu íbúðanna fyrir fólk sem ella væri atvinnulaust eða í skertum störfum og fengi því atvinnuleysisbætur eða hlutalaun frá ríkinu.

 

Auðlesið:

  • Þroskahjálp vill að ríkisstjórnin flýti sér að leggja niður stofnanir og sambýli þar sem margir búa saman.

  • Það þarf að byggja nýjar íbúðir fyrir fatlað fólk eins og lögin segja til um.

  • Þroskahjálp vill líka að ríkisstjórnin fjölgi NPA samningum fyrir fatlað fólk. 

  • Bæði þessi verkefni búa til fleiri störf. Þau hjálpa því samfélaginu öllu.