Fulltrúi Þroskahjálpar á fundi Sameinuðu þjóðanna

Sameinuðu þjóðirnar eru samtök þar sem þjóðir í heiminum hittast til að ræða og komast að samkomulag…
Sameinuðu þjóðirnar eru samtök þar sem þjóðir í heiminum hittast til að ræða og komast að samkomulagi um mikilvæg mál sem varða okkur öll.

 

AUÐLESIÐ

  • Anna Lára sem vinnur hjá Þroskahjálp sat mikilvægan fund hjá Sameinuðu þjóðunum.

  • Sameinuðu þjóðirnar eru samtök þar sem þjóðir í heiminum hittast til að ræða og komast að samkomulagi um mikilvæg mál sem varða okkur öll. 

  • Á fundinum var talað um mannréttindi á Íslandi.

  • Fundurinn var haldinn því Sameinuðu þjóðirnar eru að skoða hvernig mannréttindi eru á Íslandi.

  • Þroskahjálp talaði um réttindi fatlaðs fólks á Íslandi.
  • Þroskahjálp talaði um mikilvæg mál eins og til dæmis að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur. Það þýðir að íslensk lög verði byggð á sáttmálanum til að réttindi fatlaðs fólks séu betri.
  • Þroskahjálp sagði líka frá því að það þurfi að fullgilda valkvæðan viðauka. Það þýðir að fatlað fólk geti fengið aðstoð frá nefnd sem starfar hjá Sameinuðu þjóðunum til að segja hvort Ísland sé að standa sig nógu vel.
  • Þroskahjálp vill líka fá sjálfstæða mannréttindastofnun á Íslandi sem myndi fylgjast með hvort réttindi fatlaðs fólks séu nógu góð. Samningurinn um réttindi fatlaðs fólks segir að það þurfi að vera mannréttindastofnun.
  • Þroskahjálp sagði líka að það væri mikilvægt að virða samninginn þegar fatlað fólk sem er að flýja stríð og alvarlegt ástand í sínum löndum. Fatlað fólk sem vill búa á Íslandi og er að flýja sitt heima-land á að fá vernd á Íslandi. 

  • Á fundinum voru fleiri íslensk félög. Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Barnaheill og Þjóðkirkjan sem lögðu fram ábendingar um úrbætur á fundinum. 

Þann 7. desember sótti fulltrúi Þroskahjálpar, Anna Lára Steindal, mikilvægan fund um mannréttindamál þar sem fulltrúum félagasamtaka bauðst að ávarpa fulltrúa ríkja Sameinuðu þjóðanna og ræða mannréttindi á Íslandi. 

Til fundarins var boðað í framhaldi af því að fimm félagasamtök sendu frá sér sameiginlega skýrslu vegna allsherjarúttektar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi í ferli sem kallast Universal Periodic Review - UPR.

Það kom í hlut Þroskahjálpar að fjalla um mannréttindi fatlaðs fólks og voru ábendingar sem samtökin lögðu sérstaka áherslu á að þessu sinni eftirfarandi:

  • Tafarlaus lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks - í samræmi við ályktun Alþingis frá júní 2019 um að því yrði lokið í síðasta lagi 13. desember 2020.
  • Tafarlaus fullgilding valkvæða viðaukans við samninginn - sem átti samkvæmt þingsályktun að gera eigi síðar en á árinu 2017.
  • Stofnsetning sjálfstæðrar mannréttindastofnunar - svo sem skylt er samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fóks.
  • Að fullt tillit sé tekið til fötlunar og ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við meðhöndlun umsókna fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Auk Þroskahjálpar voru það Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Barnaheill og Þjóðkirkjan sem lögðu fram ábendingar um úrbætur á fundinum.