Mynd: Sikeri. Wikimedia Commons
Landssamtökin Þroskahjálp buðu öllum þingflokkum Alþingis að hitta fulltrúa samtakanna, ræða áherslur og þau mikilvægu mál sem snerta hagsmuni og réttindi fatlaðs fólks.
Áherslur samtakanna snéru að því að:
- Lögfesta samning SÞ um réttindi fatlaðs fólk og fullgilda valkvæða viðaukann.
- Leggja niður stofnanir og herbergjasambýli fyrir árslok 2025.
- Útrýma biðlistum eftir húsnæði fyrir fatlað fólk og gera tímasettar áætlanir.
- Stórauka tækifæri til náms að loknum framhaldsskóla.
- Styðja við fatlað fólk og fjölskyldur þeirra:
- M.a. að Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins verði fyrir alla aldurshópa, fjölgun NPA samninga fyrir alla óháð fötlun, aldri og búsetu, og umfaðma fötluð börn og fjölskyldur þeirra.
- Tryggja fötluðu fólki af erlendum uppruna stuðning og aðgengi að réttindum til jafns við annað fatlað fólk á Íslandi.
- Halda sérstaklega utan um langveik og fötluð börn með miklar stuðningsþarfir og fjölskyldur þeirra.
- Stórbæta aðgengi að hjálpartækjum.
- Taka ofbeldi gegn fötluðu fólki, og sér í lagi fötluðum konum, föstum tökum.
Þá gáfu samtökin út bækling til leiðbeininga fyrir stjórnmálaflokka um hvernig tryggja megi aðgengi fatlaðs fólks að þátttöku í stjórnmálastarfi og hann sendur á þingflokka og skrifstofur stjórnmálaflokkanna. Hann má lesa hér.
Fulltrúar Landssamtakanna Þroskahjálpar hittu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Framsóknarflokksins.
Fulltrúar Miðflokksins, Flokks fólksins og Pírata þekktust ekki boð um fund.