Árni Múli Jónasson
Á nýliðnu ráðstefnu Landssamtakana Þroskahjálpar hélt Árni Múli Jónasson erindi. Þar veltir Árni Múli upp þeirri spurningu hvort eitthvað væri varið í einsleitt samfélag og veltir fyrir sér gagnsemi margbreytileika mannlífsins. Ráðstefna var haldin í tengslum við Landsþing sem haldið var síðast liðinn laugardag á Hótel Reykjavík.
Á nýliðnu ráðstefnu Landssamtakana Þroskahjálpar hélt Árni Múli Jónasson erindi. Þar veltir
Árni Múli upp þeirri spurningu hvort eitthvað væri varið í einsleitt samfélag og veltir fyrir sér gagnsemi margbreytileika mannlífsins.
Ráðstefna var haldin í tengslum við Landsþing sem haldið var síðast liðinn laugardag á Hótel Reykjavík.
Hér er erindi Árna Múla;
Um gagnsemi margbreytileikans.
„Akkuru heitir normalbrauð normalbrauð“, spurði 5 ára sonur minn mig í bakaríinu um daginn. Ég sagði sem er
að ég hefði ekki hugmynd um það en reyndi samt af veikum mætti að skýra það: „Ætli það sé ekki vegna þess að
einhvern tíma hafi það kannski verið það eina sem var til og fólki hafi fundist það vera venjulegt eða eðlilegt.“
Hann hugsaði sig um. „Er þá franskbrauð og rúgbrauð og svoleiðis eitthvað svona skrítið eða
óeðlilegt?“ Spurði hann svo.
„Nei“, svaraði ég. „En kannski hefur það einhvern tíma ekki verið eins algengt og normalbrauðið.“
„En nú er það sem betur fer breytt“, bætti ég við. „Það eru til mjög margar tegundir af brauði.“
„Eigum við að fá okkur normalbrauð?“, spurði ég svo. Hann velti því svolítið fyrir sér:
„Mér finnst bóndabrauð betra og mömmu líka.“ Ég var sammála þeim og keypti því bóndabrauð, þriggja korna
brauð og rúnnstykki og vínarbrauð til að auka fjölbreytnina. Þetta gerði góða lukku þegar ég kom heim.
Væri ekki lítið tilhlökkunarefni að fara út í bakarí og kaffitíminn bragðdaufur ef bakararnir kynnu bara
að baka normalbrauð?
Ég tók eitt sinn þátt í svolítilli könnun sem leiddi í ljós að ég er í þeim litla hópi fólks
í heiminum sem ólíklegast er að þurfi að þola mismunun eða kúgun af einhverju tagi. Hvítur, miðaldra, fremur heilsuhraustur,
menntaður, gagnkynhneigður, kvæntur karl. Er ég þá normal? Nei, örugglega ekki og vonandi ekki! Að vera talinn normal finnst mér nefnilega vera
vísbending um svolítið litleysi og jafnvel einhvers konar kjarkleysi. En ég bý við forréttindi sem flestum jarðarbúum er neitað um. Og
þó að það sé allt of mikið um mismunun margra í heiminum til að tryggja forréttindi fárra er það ekki normalt. Alls ekki
eðlilegt ástand.
Á jörðinni búa nú um 7 milljarðar einstaklinga. Sjö þúsund milljónir! Og engir tveir alveg eins og
flestir töluvert ólíkir, andlega og líkamlega. Hver er þá normal? Venjulegur? Eðlilegur? Og hver er afbrigðilegur?
Um tíu prósent þessara sjö þúsund milljóna eða um 700 milljónir einstaklinga eru með fötlun að
einhverju tagi sem leiðir til þess að tækifæri þeirra verða færri og minni en annars fólks. Þessir einstaklingar þurfa að takast
á við fjölmargar líkamlegar og félagslegar hindranir sem vega að möguleikum þeirra til mennta sig, fá atvinnu, verða sér úti um
upplýsingar og heilbrigðisþjónustu, komast ferða sinna og taka þátt í félagslífi.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1948 er sá grunnur sem alþjóðlegir mannréttindasamningar
byggjast á sem og mannréttindaákvæði í stjórnarskrám og lögum flestra heimsins ríkja. Í mannréttindayfirlýsingunni
er sú grundvallarregla að engan greinarmun megi gera á fólki vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar,
stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.
Þetta bann við mismunun byggist eins og önnur mannréttindi á virðingu fyrir einstaklingnum; mennskunni. Jafnræðið er
lagalegur réttur. Ekki ölmusa eða góðverk þó að alls ekki skuli lítið gert úr mikilvægi mannúðar og
góðmennsku og göfuglyndis.
Bann við mismunun gengur eins og rauður Í þráður gegnum alla helstu alþjóðlegu
mannréttindasáttmálana, sem flest ríki heims hafa skuldbundið sig til að virða og fara að í lögum og framkvæmd. Íslendingar hafa
skuldbundið sig til að virða næstum alla þessa mannréttindasamninga og flesta fyrir löngu síðan.
En frá því er þó ein undantekning. Mjög vond og mjög sérkennileg undantekning.
Árið 2006 samþykktu Sameinuðu þjóðirnar samning um réttindi fatlaðs fólks. Íslendingar
undirrituðu samninginn árið 2007. Við höfum þó ekki enn þá komið því í verk að gerast aðilar að þessum
samningi með því að fullgilda hann, hvað þá að festa hann í íslensk lög.
Það breytir þó ekki því að það er bannað að mismuna fólki á grundvelli fötlunar
hér á landi. Þ.e.a.s. „vegna stöðu að öðru leyti“, eins og það er orðað í íslensku stjórnarskránni.
Jafnræðið er grundvallarregla þar þó að fötlun sé ekki sérstaklega nefnd í upptalningu á ástæðum sem þekkt
er að leiða mjög gjarnan til mismununar og mannréttindabrota alls staðar í heiminum. En það er fullt tilefni til að tiltaka fötlun þar einnig
sérstaklega því að fatlað fólk hefur ávallt þurft að þola mikla mismunun á Íslandi og svo er enn.
Og það er sú staðreynd og viljinn til að takast á við það óréttlæti sem hefur leitt til
þess að vel meinandi fólk hvarvetna í heiminum hefur talið það nauðsynlegt að gera sérstakan alþjóðlegan
mannréttindasamning um réttindi fatlaðs fólks.
Þessi mikilvægi samningur leggur mikla áherslu á að greiða fyrir og stuðla að þátttöku og virkni í samfélaginu.
Þar segir m.a. undir fyrirsögninni „Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu“:
Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í
samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess
að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án
aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
- Fötluðu fólki tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við
aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,
- Fötluðu fólki aðgang að margs konar samfélagsaðstoð, á borð við heimaþjónustu, vist á dvalarheimili og annars
konar aðstoð, m.a. nauðsynlegri þjónustu til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun
þess og aðskilnað frá samfélaginu,
- Að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og svari þörfum
þess.
M.ö.o. þarfir og vilji fatlaðra einstaklinga skulu ráða för en ekki stofnanahugsun og þarfir þjónustukerfisins.
Þátttaka og virkni en ekki aðskilnaðarstefna, einangrun og útilokun.
Nú eru, eins og fyrr sagði, liðin 7 ár frá því að mannréttindasamningur þessi var gerður og 6
ár frá því að Íslendingar undirrituðu hann en slík undirritun er yfirleitt undanfari þess að ríki fullgildi svona samninga.
Það er því orðið mjög tímabært að íslensk stjórnvöld reki af sér slyðruorðið og komi því
í verk að veita þessum mikilvæga samningi gildi hér á landi eins og næstum 140 ríki hafa nú gert og þar með skuldbundið sig til
að haga lögum og framkvæmd í samræmi við hann. Og Íslendingar eiga auðvitað að vera leiðandi í að tryggja og verja
alþjóðlega viðurkennd mannréttindi en drattast ekki á eftir öðrum ríkjum.
Fullgilding samningsins og einnig festing hans í íslensk lög skiptir miklu máli því að þannig fæst
skýr staðfesting á því að hér er um lagaleg réttindi að ræða; mannréttindi. Ekki pólitíska stefnu eða
ölmusu sem fólk þarf að sækja til stjórnmálamanna og stofnana og á það undir góðsemi þeirra og skoðunum hvað
það fær og hvað það fer á mis við. Það þarf því að tryggja að réttindin sem samningurinn veitir fötluðu
fólki séu tryggð í íslenskum lögum og það þarf að tryggja að framkvæmdin og stjórnsýslan öll sé
samkvæmt því.
Það kostar auðvitað peninga að tryggja mannréttindi og vernda þau. Það á við öll mannréttindi.
Mikill hluti þess kostnaðar sem er af löggæslunni og dómskerfinu fer t.a.m. í að vernda eignarréttindi fólks, beint og óbeint. Fáir
kvarta yfir þeim kostnaði sem allir bera hvort sem þeir eru eignamenn, eignalitlir eða hreinir öreigar. Hvers vegna skyldi annað eiga við um kostnað sem kann
að fylgja því að veita fötluðum einstaklingum svolítinn stuðning hér og þar til að þeir fái betur notið lifsins en fari ekki
á mis við það og geti tekið þátt í samfélaginu og lagt sitt af mörkum. Getum við virkilega gert margt gagnlegra við peningana sem
við eigum saman en að nýta þá til að auka lífsgæði og tækifæri fatlaðra barna og fullorðins fólks?
Ég held ekki.
Hvernig samfélög finnst okkur vera geðsleg og eftirsóknarverð? Samfélög sem reyna að steypa alla í sömu
mót og fela þá sem ekki passa i þau eða leyfa einstaklingum og hópum að njóta sín eins og þeir eru af Guði skaptir?
Samfélög sem hampa sumum en útiloka aðra eða þau sem leitast við að gefa öllum tækifæri til að taka þátt og vera með.
Hvað segjum við svo oft við börnin okkar? Ekki skilja út undan! Hvað finnst okkur þegar við sjáum börn sem ekki geta gangið eða eru
heyrnarskert eða blind skilin út undan í leik?
Á ekki það sama við í samfélaginu öllu? Að sjálfsögðu! Okkar er valið og okkar er
ábyrgðin.
Og þegar þetta dæmi er reiknað til enda er ég líka sannfærður um að þetta er ekki kostnaður heldur
sparnaður og tekjuauki. Það er nefnilega alls engin tilviljun að þau ríki sem standa sig best við að tryggja mannréttindi og jöfn
tækifæri fólks standa líka best efnahagslega. Og skýringin á því er einföld. Þar sem tilteknir hópar eru útilokaðir
frá virkri þátttöku í samfélaginu vegna fordóma eða þröngsýni fer samfélagið á mis við mikla hæfileika,
framtak og frumkvæði. Á mis við mikinn mannauð. Mannréttindi og efnahagsleg framþróun og velmegun haldast fast í hendur.
Þegar hindranir eru fjarlægðar og fatlað fólk fær tækifæir til að taka þátt í
samfélaginu og atvinnulífinu nýtast starfskraftar þess og sumir stofna fyrirtæki og ráða fólk í vinnu og allir verða virkir neytendur og
greiða skatta, ekkert síður en aðrir.
Það er hollt að rifja það upp að þegar konur á Íslandi hófu jafnréttisbaráttu sína voru
þeir til sem héldu því fram að það væri of kostnaðarsamt að tryggja konum jafnan rétt á við karla. Í ýmsum
löndum þar sem konur þurfa að þola mikla mismunun og er jafnvel neitað um grundvallarmenntun halda því sumir fram að það sé ekki
aðeins rangt heldur of dýrt að mennta stelpurnar. Það dugi að kenna strákunum. Þar sem mannréttindabrot af þessu tagi eru algeng ríkir
fátækt og efnahagsleg stöðnun. Það er engin tilviljun.
Lagalegur réttur er mikilvægur og siðferðilegar skyldur eru augljósar. En það er ekki nóg með það.
Rök gagnsemi og hagkvæmni leiða til nákvæmlega sömu niðurstöðu. Jöfn tækifæri fólks auka fjölbreytni og nýsköpun
og hagsæld og draga úr ójöfnuði.
Martin Luther King og höfundur Hávamála, forna norræna kvæðisins, hafa sennilega verið nokkuð ólíkir í útliti, skoðun og
hugsun en víðsýnin og stórmennskan var þeim þó sameiginleg sem og skilningurinn á mannlegu eðli.
Martin Luther King helgaði líf sitt og lét líf sitt í baráttunni gegn kynþáttafordómum og mismunun.
Árið 1963 lýsti hann þeim draumi sínum að sá dagur kæmi að fólk yrði metið af verðleikum en ekki eftir
húðlit:
I have a dream that my four little children will one day live in a nation where they will not be judged by the color of their skin but by the content of their character.
Augljóst. Er það ekki? Frekar einfalt. En þó hefur okkur gengið ótrúlega illa að láta þennan
draum rætast. Að hætta að flokka fólk og meta og mismuna eftir útliti.
Höfundur Hávamála hefur örugglega verið töluvert betur að sér í búhyggindum en mannréttindum og
þau hyggindi hafa sennilega verið honum ofar í huga en jafnræðið þegar hann orti:
Haltur ríður hrossi,
Hjörð rekur handar vanur,
Daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé,
nýtur manngi nás.
Engin aðskilnaðarstefna þarna! Allir eiga að taka þátt og gera gagn eftir aðstæðum og möguleikum hvers og eins. Enga lifandi persónu
á að dæma úr leik.
Þessu var höfundur Hávamála alveg klár á fyrir mörg hundruð árum þó að hann hafi sennilega
lítið hugsað um mannauð eða atvinnuleysi sem bitnar verr á fötluðum einstaklingum en öðrum hafi örugglega ekki átt þess kost að
kynna sér nýlegar rannsóknir sem sýna að frammistaða fatlaðs fólks í starfi er jafngóð ef ekki betri en þeirra sem ekki eru
fatlaðir. Og þetta vissi hann þó að hann hafi líklega ekki gert sér grein fyrir því, sem nú er vitað, að minni
starfsmannavelta og minni fjarvistir frá starfi gera almennt meira en að vega upp kostnað sem kann að fylgja því að laga vinnustað að þörfum
fatlaðs starfsfólks.
Og höfundur Hávamála var líka alveg klár á því að við eigum að umgangast annað fólk opnum huga, blanda geði og
læra af öðrum. Hann orti:
Brandur af brandi
brenn, unz brunninn er,
funi kveikist af funa;
maður af manni
verður af máli kunnur,
en til dælskur af dul.
Þetta er hvatning til okkar að nýta og njóta margbreytileika mannsins og mannlífsins. Að umgangast og læra af
fólki, sem hefur aðrar hugmyndir og skoðanir en við og býr við annars konar aðstæður, kjör og menningu.
Sá sem leitar sífellt staðfestingar á því að hann sé „normal“ og óttast og forðast þá sem eru
„öðru vísi“ verður þræll þröngsýnninnar.
Og svo er það það. Hvað er skemmtilegt og hvað er leiðinlegt? Hvað er áhugavert og hvað er dauflegt? Hversu oft
heyrum við „Þetta er svo einhæft og skemmtilegt!“ Eða. „Þetta er mjög fábreytt og áhugavert!“, „tilbreytingarlaust og
spennandi!“.
Aldrei.
Sem sagt margbreytileikinn í mannlífinu er ekki bara lagalega og siðferðilega réttur og eftirsóknarverður, heldur er hann
mjög gagnlegur og síðst en ekki síst svo miklu skemmtilegri en einsleitnin, fábreytileikinn. Það skiptir mjög miklu máli.
Væri ekki tilveran bragðdauf og lífið tilbreytingarlaust ef það væri bara til ein gerð af fólki? Svona einhvers konar normalfólk. Hvað
sem það nú þýðir. Kannski þétt og ljóst úr sigtimjöli, eins og normalbrauðinu er lýst í
orðabók.
Jú!
En sem betur fer er skaparinn flinkur og fjölhæfur bakari sem kann mjög vel að meta margbreytileikann eins og svo glöggt má
sjá í bakaríinu hans.