Gengur atvinnusköpun mannréttindum framar?

Á dögunum birti Fréttablaðið frétt um að Reykjanesbær hafi verið jákvæður gagnvart opnun öryggisvistunar í bæjarfélaginu.

Í undirfyrirsögn fréttarinnar segir: „Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að taka boði félagsmálaráðuneytisins um að koma upp öryggisvistun í bænum. Bæjarstjórn á þó eftir að taka málið fyrir. Reykjavíkurborg vill hætta að reka öryggisvistun, en mikill styr hefur staðið um starfsemina. Fullbúin myndi starfsemin framkalla þrjá tugi starfa.“

 

Í fréttinni kemur fram að rætt sé um „að koma upp öryggisvistun fyrir ósakhæfa einstaklinga og þá sem þurfa öryggisgæslu í Reykjanesbæ“ og er haft eftir Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að húsnæði verði fyrst til brágðabirgða en síðar verði sérhannað húsnæði tekið í notkun.

Í fréttinni kemur fram að bráðabirgðahúsnæðið verði fyrir tvo til þrjá einstaklinga, en sérhannaða húsið fyrir allt að sjö. Þá kemur fram að starfsmenn sem sinna öryggisgæslu og vistun verði fyrst 20 en fjölgi svo í 30.

„Það er töluvert af störfum í kringum þetta, sem er mjög gott,“ segir Kjartan, bæjarstjóri Reykjanesbæjar og er þá einnig nefndur fjöldi þeirra starfsmanna sem koma að uppbyggingunni.

Það vekur furðu Landsamtakanna Þroskahjálpar að í fréttinni er ekki vikið einu orði að réttindum og hagsmunum þeirra einstaklinga sem sviptir eru frelsi sínu og verða vistaðir þar.

Öllum ætti að vera ljóst hve mikið inngrip í líf fólks það er að vera svipt frelsi sínu og vera þar að auki fluttur til annars landsvæðis, án samráðs og tillits til vilja fólks og aðstandenda þess. Það vekur því ugg hjá samtökunum, sem berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks alla daga, að fjallað sé um þessa einstaklinga sem dveljast þurfa í öryggisvistun sem atvinnuskapandi tækifæri og ekkert sé fjallað um mannréttindi þeirra.

Samtökin beina máli sínu og spurningum til félagsmálaráðuneytisins, sem ber höfuðábyrgð á því að standa vörð um mannréttindi og hagsmuni fatlaðs fólks hér á landi og spyr það hvort farið hafi fram faglegt og vandað mat á því hvaða réttinda og hagsmuna fólks sem þarna mun dveljast þarf að líta til áður en afdrifarík ákvörðun er tekin um staðsetningu þessarar öryggisvistunar er tekin.

Landssamtökin Þroskahjálp krefjast þess að félagsmálaráðuneytið svari þeirri spurningu skýrt og án tafar.