Landssamtökin Þroskahjálp héldu stefnumótunarfund 12. mars sl. Þátttaka á fundinum var mjög góð og umræður þar líflegar og skemmtilegar. Fjölmargar góðar og gagnlegar hugmyndir, tillögur og ábendingar komu fram á fundinum sem stjórn og skrifstofa samtakanna mun styðjast við, við mótun stefnunnar og rekstur samtakanna og til leiðbeiningar til að áherslur og stefna verði í sem bestu samræmi við skoðanir og vilja þeirra sem þau vinna fyrir.
Hugmyndir, tillögur og ábendingar frá stefnumótunarfundi Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Landssamtökin Þroskahjálp héldu stefnumótunarfund 12. mars sl. Þátttaka á fundinum var mjög góð og umræður þar líflegar og skemmtilegar. Fjölmargar góðar og gagnlegar hugmyndir, tillögur og ábendingar komu fram á fundinum sem stjórn og skrifstofa samtakanna mun styðjast við, við mótun stefnunnar og rekstur samtakanna og til leiðbeiningar til að áherslur og stefna verði í sem bestu samræmi við skoðanir og vilja þeirra sem þau vinna fyrir.
Á fundinum var fjallað um eftirfarandi umræðuefni í fjórum hópum:
- Hvað gera Landssamtökin Þroskahjálp vel?
- Hvað geta Landssamtökin Þroskahjálp gert betur?
- Hvar viljum við vera þegar samtökin verða sextug árið 2026?
- Hvernig getum við best tryggt að raddir fólks með þroskahömlun heyrist vel og hafi örugglega áhrif á stefnu og áherslur samtakanna?
- Hvernig getum við eflt starfsemi aðildarfélaganna þannig að þau hafi áhrif í nærumhverfi sínu?
Þátttakendur svöruðu margir einnig þessum spurningum varðandi ímynd samtakanna hjá fötluðu fólki og almenningi:
- Hvernig er ímynd samtakanna hjá fötluðu fólki?
- Hvernig viljum við að ímynd samtakanna verði hjá fötluðu fólki og hvað getum við gert til að stuðla að því.
- Hvernig er ímynd samtakanna hjá almenningi?
- Hvernig viljum við að ímynd samtakanna verði hjá almenningi og hvernig getum við stuðlað að því?
Í skjalinu sem sækja má hér að neðan, er samantekt með þeim hugmyndum, tillögum og ábendingum sem fram komu í umræðum hópanna fjögurra:
Tvö verkefni sem byggjast á umræðunum á fundinum eru þegar í undirbúningi, þ.e. að auka sýnileika samtakanna með því að láta gera nauðsynlegar breytingar á vefsíðu þeirra til að efni þar verði vel aðgengilegt í snjallsímum og í spjaldtölvum. Þá er í undirbúningi að auka virkni, sýnileika og áhrif samtakanna og aðildarfélaganna á landsbyggðinni með því að efna næsta haust til funda með hlutaðeigandi starfsfólki þjónustusvæða/sveitarfélaga og sveitarstjórnarfólki víðs vegar um land til að ræða stöðu mála og helstu viðfangsefni varðandi þjónustu við fatlaða á hverjum stað. Á þeim fundum verður einnig rætt hvernig sveitarfélög geti best staðið að samráði við fatlað fólk varðandi þjónustuna og framkvæmd hennar. Samtökin munu leggja mikla áherslu á að fatlað fólk og aðstandendur, ekki síst fatlaðra barna, taki virkan þátt í þessum fundum.
Landssamtökin Þroskahjálp þakka öllum þeim sem þátt tóku í stefnumótunarfundinum kærlega fyrir þátttökuna og þeirra mikilvæga framlag til að gera samtökin okkar sem öflugust við að berjast fyrir mannréttindum og hagsmunum fatlaðs fólks.
Niðurstöður samráðsfundarins má lesa hér