Húsnæðismál fatlaðs fólks. - Vonandi góð lög en mjög vond reglugerð.

Fyrr í sumar samþykkti Alþingi frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, til laga um almennar íbúðir. Markmið laganna er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með auknu aðgengi að hentugu íbúðarhúsnæði til leigu og að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Lögin fela í sér nýja umgjörð um fjármögnun, rekstur og úthlutun almennra íbúða sem verða að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.

Húsnæðismál fatlaðs fólks. - Vonandi góð lög en mjög vond reglugerð.

Fyrr í sumar samþykkti Alþingi frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, til laga um almennar íbúðir. Markmið laganna er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með auknu aðgengi að hentugu íbúðarhúsnæði til leigu og að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Lögin fela í sér nýja umgjörð um fjármögnun, rekstur og úthlutun almennra íbúða sem verða að hluta fjármagnaðar með stofnframlögum úr ríkissjóði og frá sveitarfélögum.

Íbúðalánasjóði er falin framkvæmd laganna. Lögin eru nr. 52/2016 og má nálgast upplýsingar um framkvæmd þeirra á heimasíðu sjóðsins (ils.is)

Ekki er enn komin nein reynsla á þessi nýju lög en Landssamtökin þroskahjálp binda vonir við að þau muni bæta stöðuna í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Þar er þörfin mjög brýn og mikil og víða allt of löng bið eftir húsnæði. Samtökin vilja því hrósa félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir að hafa beitt sér fyrir þessari lagasetningu.

Það sama verður því miður ekki sagt um reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, sem félags- og húsnæðismálaráðherra setti í apríl sl. Í þeirri reglugerð er dregið úr kröfum um lágmarksstærðir íbúða sem ætlaðar eru fötluðu fólki og rýmkaðar heimildir til að hafa margar slíkar íbúðir samliggjandi í fjölbýlishúsum. Þar eru einnig rýmkaðar reglur um hámarksfjölda samliggjandi íbúða þegar um er að ræða heimili með sameiginlegri aðstöðu.

Landssamtökin þroskahjálp mæltu mjög eindregið gegn því við ráðherra að þessar breytingar yrðu gerðar á reglum um hámarksfjölda samliggjandi íbúða. Samtökin bentu í því sambandi á að viðurkennt væri að slíkar breytingar væru mjög til þess fallnar að til verði húsnæði ætlað fötluðu fólki sem líkist mjög stofnunum að gerð og í rekstri. Breytingarnar ganga þess vegna gegn stefnu og markmiðum um að vinna gegn stofnanavæðingu og tryggja að fatlað fólk fái tækifæri til að búa og taka þátt í samfélaginu, án aðgreiningar og að vera í eðlilegum tengslum við nærumhverfi sitt með sama hætti og aðrir eiga kost á. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er einnig mjög mikil áhersla lögð á þá stefnu og það markmið..

Landssamtökin Þroskahjálp telja því að með umræddum breytingum á reglum um hámarksfjölda samliggjandi íbúða sé augljóslega og verulega vikið af braut framþróunar í réttindum fatlaðs fólks og aukinna tækifæra þess til eðlilegs líf, án aðgreiningar. Þá braut hafa stjórnvöld fetað í rétta átt undanfarin ár og áratugi þó að vissulega hafi margt mátt ganga þar mun hraðar og enn sé mjög margt ógert.

Samtökin hafa því skriflega og á fundum með félags- og húsnæðismálaráðherra beint þeirri eindregnu beiðni og áskorun til ráðherra að endurskoða nú þegar umræddar breytingar á reglum um hámarksfjölda samliggjandi íbúða.

http://www.throskahjalp.is/static/files/PDF-SKJOL/bref-vegna-reglugerdabreytinga-.pdf