Inga Björk verður í hlutverki alþingismanns þessa vikuna.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, upplýsingafulltrúi Þroskahjálpar tók sæti á Alþingi í gær og flutti jómfrúarræðu sína um stöðu fatlaðs fólks í hamfaraástandi í dag.
Í ræðu sinni sagði Inga Björk meðal annars:
"Fatlað fólk er einn berskjaldaðasti hópurinn í hamförum og neyðarástandi. Þetta höfum við séð ljóslifandi á síðustu árum; í Covid-faraldrinum þar sem fatlað fólk var skilið eftir í innrás Rússa í Úkraínu og nýverið þegar miklar náttúruhamfarir urðu í Pakistan. Fatlað fólk deyr í hamförum umfram aðra hópa. Það er staðreynd. Fatlað fólk er skilið eftir."
Þá boðaði Inga Björk framlögn fyrirspurnar til ríkisstjórnarinnar vegna þessa.
"Ég hyggst leggja fram fyrirspurn um stöðu fatlaðs fólks í hamfara- og neyðarástandi og hvet ríkisstjórnina til þess að hefja þegar í stað vinnu til að tryggja að enginn verði skilinn eftir."
Ræðuna má hlusta á og lesa hér.
Inga Björk situr á þingi sem varaþingmaður Samfylkingarinnar fyrir Suðvesturkjördæmi og mun sitja á þingi þessa vikuna.
Samstarfsfólk Ingu Bjarkar á skrifstofu Þroskahjálpar þakkar Ingu Björk kærlega fyrir kraftmikla innkomu á Alþingi, málstað okkar til framdráttar, og óskar henni alls hins besta í þingstörfum vikunnar, sem verður að segjast að fara henni einkar vel!