Íslensk stjórnvöld horfi til fatlaðs fólks í Úkraínu

Fáni Úkraínu
Fáni Úkraínu
Inclusion Europe kallar eftir því að fólk með þroskahömlun verði ekki skilið eftir í kjölfar árásar Rússlands á Úkraínu. Systursamtök Þroskahjálpar í Úkraínu segja brýna þörf fyrir m.a. leiðbeiningar fyrir fatlað fólk, skráningu á stöðu þess og stuðning og aðstoð fyrir fatlað fólk og fjölskyldur þess.
 
Fatlað fólk er gífurlega berskjaldað í stríðum og neyðarástandi, og minna Landssamtökin Þroskahjálp íslensk stjórnvöld á 11. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem fjallar um aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð en þar segir að aðildarríkin skuli gera „allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.“
 
Horfa þarf sérstaklega til fatlaðs fólks í allri mannúðaraðstoð sem veitt verður og huga að þörfum þess og stöðu í aðgerðum Íslands.