Í dag, 20. júní, er alþjóðadagur flóttafólks.
Í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kemur fram að aldrei hafi fleiri verið á flótta vegna stríðs, ofbeldis og ofsókna, eða 65,6 milljónir manna. Helmingur þeirra eru börn og 50% flóttabarna á grunnskólaaldri ganga ekki í skóla. 75.000 beiðnir um hæli voru lagðar fram á síðasta ári af börnum sem ferðuðust ein eða höfðu orðið viðskila við foreldra sína en flóttamannstofnunin telur það þó líklega vera vanmat á raunverulegu ástandi.
Sameinuðu þjóðirnar hafa áætlað að u.þ.b. sjöundi hver einstaklingur sé með fötlun af einhverju tagi og fyrir hvern einstakling sem deyr af völdum vopnaðra átaka skaðist þrír einstaklingar þannig að það leiði til fötlunar þeirra.
Fólk sem neyðist til að flýja heimili sín vegna styrjalda, ofbeldis eða ofsókna þarf allt mjög mikið á stuðningi og vernd að halda. Ríkjum er skylt að veita þá vernd samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum. Fatlað fólk sem neyðist til að flýja heimili sín er sérstaklega berskjaldað.
Reynslan sýnir að þegar fólk flýr stríðsátök er mikil hætta á að fatlað fólk sé hreinlega skilið eftir eða fari á mis við þá aðstoð sem veitt er flóttafólki. Vegna fötlunar sinnar á það erfiðara með að leita skjóls en annað fólk og þarf að þola ofbeldi og misnotkun af ýmsu tagi. Fatlað fólk, sem missir aðstandendur sína eða verður viðskila við þá á stríðstímum, einangrast mjög oft og fær ekki lágmarksstuðning.
Þegar fatlað fólk nær, þrátt fyrir allar þær miklu hindranirnar sem mæta því, að flýja stríðshörmungar eða ofsóknir og leita skjóls í öðrum löndum fær það allt of oft lítinn eða engan stuðning. Og ekki nóg með það. Fatlað fólk þarf oft að takast á við mikla fordóma í samfélagnu sem það hefur leitað skjóls í því að það er talið minna virði en aðrir vegna fötlunarinnar og jafnvel er litið á það sem byrði sem samfélagið þarf helst að losna við.
Það er því mikil þörf á að vekja sérstaka athygli á að ríki þar sem flóttafólk leitar skjóls eru samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum skuldbundin til að taka sérstakt tillit til fatlaðs fólks, aðstæðna þess og þarfa. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland, eins og flest ríki í heiminum hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja, segir m.a.:
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.
Því miður er einnig fullt tilefni til að minna íslensk stjórnvöld á að þeim er skylt að veita börnum sérstaka vernd og stuðning samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið tekinn í íslensk lög. Í Barnasáttmálanum sem og í samningnum um réttindi fatlaðs fólks er mikil áhersla lögð á skyldu ríkja til að veita börnum sem eru á flótta góða vernd og til að taka sérstakt tillit til þarfa og aðstæðna fatlaðra barna og barna sem glíma við alvarleg veikindi og til að veita þeim viðeigandi stuðning.
Þessi skylda íslenskra stjórnvalda til að veita fötluðu fólki sem leitar skjóls hér á landi vernd og og viðeigandi stuðning á við hvort sem um er að ræða flóttafólk sem hér leitar skjóls eða svokallað kvótaflóttafólk sem íslensk stjórnvöld í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir bjóða skjól hér á landi. Við allar ákvarðanir varðandi kvótaflóttafólk þarf að gæta þess sérstaklega að fötluðu fólk bjóðist sú vernd og nauðsynlegur stuðningur alls ekki síður en öðru flóttafólki.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á íslensk stjórnvöld sem ábyrgð bera á málefnum flóttafólks að fara sérstaklega yfir alþjóðlega samninga, þ.m.t. samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks, lög og reglur og alla framkvæmd í málaflokknum til að tryggja að þau standi vel við allar skyldur sínar varðandi vernd og stuðning gagnvart fötluðu fólki.