Lifandi tækni

Atli Már Haraldsson, stjórnarmeðlimur Átaks – félags fólks með þroskahömlun, leiðir samtal við Lilju…
Atli Már Haraldsson, stjórnarmeðlimur Átaks – félags fólks með þroskahömlun, leiðir samtal við Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og Guðmund Inga Guðbrandsson, fyrrverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Það var góð stemming á Lifandi tækni, málþingi Þroskahjálpar um fatlað fólk í tæknivæddri framtíð, sem fram fór á Hótel Reykjavík Grand laugardaginn 19. október. Fullt var út úr dyrum og nýjar hugmyndir og nýr skilningur varð til í samtali milli fatlaðs fólks, fólks í tæknigeiranum, fólks í háskólasamfélaginu, fulltrúa stjórnvalda og annarra sem hafa áhuga á jafnrétti, aðgengi að samfélagi, og betri tækni fyrir öll.

Málþingið var með nýju og óhefðbundnu sniði, en Þroskahjálp er í góðri samvinnu við Átak – félag fólks með þroskahömlun um að finna og þróa leiðir til að viðburðir séu sannarlega aðgengilegir öllu fólki: umræðuefni, framsetning og fyrirkomulag.

 
Lifandi tækni - Ólafur Snævar leiðir samtal við Ingva og Möggu Dóru

Ólafur Snævar, stjórnarmeðlimur hjá Þroskahjálp,
leiðir samtal við Ingva Guðmundsson, hönnunarstjóra hjá Gangverki,
og Möggu Dóru Ragnarsdóttur, stafrænan hönnunarleiðtoga hjá Mennskri ráðgjöf

 

Í stað glærukynninga fór umræðan fram í sófaspjalli, þar sem fatlað fólk úr stjórn Átaks og Þroskahjálpar leiddi samtalið. Í salnum voru teiknarar sem jafnóðum teiknuðu á blöð það sem fram fór á málþinginu. Í hléum gafst þátttakendum tækifæri að skoða hugmyndir og áherslupunkta á teiknuðu formi, og ræða þá við aðra gesti. Teiknarar voru þau Rán Flygenring, Vilmundur Gunnarsson og Katja Helgadóttir. Ljósmyndir á málþinginu tók Víðir Björnsson. 

 

Lifandi tækni - teikningar eftir Rán Flygenring

Teikningar af efni málþingsins eftir Rán Flygenring

 

Um leið og við þökkum gestum og þátttakendum kærlega fyrir komuna hlökkum við til að halda samtalinu áfram.
Við erum rétt að byrja.