Misskilningur og rangar staðhæfingar í umræðum um fjárlagafrumvarp og örorkulífeyri.
Í umræðum á alþingi og í fjölmiðlum um þá tillögu meirihluta fjárlaganefndar að framlög til greiðslu örorkubóta hækki á árinu 2019 um 2.9 milljarða kr. stað 4 milljarða kr., eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram, hafa komið fram staðhæfingar sem Landssamtökin Þroskahjálp telja óhjákvæmilegt að andmæla og leiðrétta.
Sumir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa sagt eða látið að því liggja að umrædd fjárhæð hafi verið lækkuð vegna þess að niðurstaða liggi ekki fyrir um framtíðaskipulag bótakerfisins frá starfshópi sem fjalli um það mál. Þar af leiðandi sé ekki hægt að gera neitt í því nú að rétta hag öryrkja sérstaklega.
Samtökin geta alls ekki látið þessu ósvarað og setið undir því að það sé vegna vinnu starfshóps sem samtökin hafa í góðri trú tekið þátt í að öryrkjar á íslandi verði af ellefu hundruð miljónum króna á árinu 2019 eða sem svarar 55 þúsund krónum að meðatali á hvern einstakling.
Samtökin vilja því taka eftirfarandi skýrt fram.
Umræddur starfshópur kom saman til síns fyrsta fundar í maímánuði sl. Samkvæmt skipunarbréfi félags- og jafnréttismálaráðherra var honum ætlað að gera tillögu um framfærslukerfi sem styddi við starfsgetumat, eins og það er orðað í skipunarbréfi. Þessi hópur hefur fundað reglulega og samhliða starfi hans hefur hópur sérfræðinga unnið að gerð tillögu að nýju matskerfi sem á að byggjast meira á áherslu á starfsendurhæfingu og mati á starfsgetu í stað læknisfræðilegs mats sem byggist á greiningu á skerðingum eða sjúkdómum.
Þegar á vormánuðum lá ljóst fyrir að ekki væri raunhæft að starfhópurinn gæti skilað tillögu um greiðslur örorkubóta sem byggðust á endurskoðuðu kerfi fyrr en í fyrsta lagi árið 2020.
Í ljósi þess hefur fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar í starfhópnum oftar enn einu sinni lagt það til að gerð yrði tillaga um að bætur til öryrkja yrðu hækkaðar verulega ekki seinna en 1. janúar 2019, óháð hugsanlegri innleiðingu nýs matskerfis, enda væri um að ræða greiðslur til framfærslu þeirra sem nú þegar hafa verið metnir sem öryrkjar.
Fulltrúi samtakanna hefur í því sambandi margsinnis bent á að í hverjum mánuði hafa öryrkjar, m.a. fólk með þroskahömlun, verið að fá lægri greiðslu sér til framfærslu en lagt var til í febrúar 2016 starfshópi sem stjórnvöld skipuðu. Það er vegna þess að aldurstengd uppbót hefur ekki virkað eins og ráð var fyrir gert og samkomulag var um. Því væri ekki eftir neinu að bíða að innleiða þær breytingar og fleiri sem sátt væri um og hefðu ekki að gera með nýtt matskerfi sem stefnt væri að því að taka upp.
Opinber umræða síðustu daga á Alþingi og í fjölmiðlum hefur síðan verið með miklum eindæmum og fullyrðingar sem fram hafa komið, ekki síst frá frá fulltrúum stjórnarflokkanna, hafa verið afar villandi og á miklum misskilningi byggðar, að mati Þroskahjálapr, því að samtökin ætla enn að reyna að stilla sig um að líta svo á að um viljandi rangfærslur sé að ræða.
Því hefur t.d verið haldið fram að umræddur starfshópur hafi sérstaklega það hlutverk að gera tillögur um hvernig eiga að nota umrædda 4 milljarða kr. til að að leggja af svokallaða krónu á móti krónu skerðingu og þar af leiðandi sé ekki hægt að gera það þar sem tillögur hópsins um það liggi ekki fyrir.
Þetta er fráleitur málflutningur. Hafi Alþingi áhuga á því og vilja til þess getur það að sjálfsögðu notað umræddar 1100 milljónir kr. til að lækka nú þegar skerðinghlutfall framfærsluuppbótar í t.d. 90% og haft það sem fyrstu aðgerð til að afnema krónu á móti krónu skerðinguna. Eða hækkað grunnlífeyri umfram 3.6 % og þannig minnkað bilið á milli upphæðar bótaflokka og framfærsluuppbótar. Þetta eru dæmi um einfaldar aðgerðir sem Alþingi er í lófa lagið að samþykkja nú þegar. Og ekki þarf að taka fram að þær aðgerðir væru ekki bara lítið en mikilvægt skref í átt til aukins réttlætis gagnvart öryrkjum, heldur myndu þær einnig auðvelda vinnu starfshópsins sem hefur að sjálfsögðu ekki vald til þessara aðgerða. Það er alfarið á valdi Alþingis og það er algjörlega á ábyrgð þess að gera það eða gera það ekki. Það er beinlínis óheiðarlegt gagnvart öryrkjum og allri þjóðinni að skjóta sér undan þeirri ábyrgð með því að halda öðru fram eða að gefa annað í skyn.
Landssamtökin Þroskahjálp telja að tillaga meirihluta fjárlaganefndarum að lækka það framlag sem gert var ráð fyrir á árinu 2019 sé mjög slæmt vegarnesti fyrir áframhaldandi vinnu starfshópsins. Hvað gerist t.a.m. ef starfhópnum tekst ekki að skila tillögum á næstu mánuðum þannig að hægt verði að greiða út bætur eftir nýju fyrirkomulagi á árinu 2019. Er það þá hugmynd ríkisstjórnarinnar að fjárhæð bótanna verði áfram sú sama?
Landssamtökin Þroskahjálp vilja ekki trúa því að stjórnvöld séu að leika þann ljóta leik að taka öryrkja í gíslingu með því að setja þá í þá stöðu að þeir fái ekki sanngjarna leiðréttingu kjara sinna fyrr en samtök þeirra hafa fallist á eitthvert samkomulag við stjórnvöld um breytt matskerfi sem á þessu stigi er ekki vitað hvernig mun líta út. En það er alls ekki að ástæðulausu að þannig birtist umræddar tillögur meirihluta fjárlaganefndar mjög mörgum. Það stuðlar alls ekki að sátt um breytingar á bótakerfinu að glata trausti fólks með vanhugsuðum aðgerðum, skilningsleysi og ósanngirni.
Landssamtökin Þroskahjálp lýsa að lokum yfir mjög þungum áhyggjum af því að í allri umræðunni um skerðingar, fjölgun öryrkja og hugsanlega nýtt matskerfi hefur gleymst að ræða megintilgang almannatrygginga, sem er að tryggja framfærslu þess hóps sem vegna skerðinga eða langvarandi sjúkdóma getur ekki séð sér farboða. Nú eru grunngreiðslur örorkulífeyris 240.000 kr. sem er eins og allir hljóta að viðurkenna afar lág fjárhæð og t.a.m. 30.000 krónum lægri en atvinnleysisbætur. Mjög margir af skjólstæðingum þroskahjálpar búa við þessi sultarkjör. Það er að samfélaginu okkar að sjálfsögðu til skammar. Og það er líka skammarlegt hversu fáir íslenskir stjórnmálamenn virðast hafa áhuga á því að ræða það og gera eitthvað til að bæta úr því.
Ályktun stjórnar Þroskahjálpar má lesa hér