Múrbrjótar 2012

Alþjóðadagur fatlaðra er haldinn hátíðlegur um allan heim þann 3.desember ár hvert. Þennan dag hafa Landssamtökin Þroskahjálp valið til að afhenda viðurkenninguna Múrbrjótinn sem nú er veittur í 14. sinn.

Múrbrjóturinn er veittur aðilum eða verkefnum sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að fatlað fólk séu fullgildir þátttakendur í samfélaginu og hafi tækifæri til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra. 

Verðlaunagripirnir eru hannaðir og smíðaðir af listamönnum á handverkstæðinu Ásgarði í Mosfellsbæ.  Hver gripur er einstakur og hönnunin ólík frá ári til árs.

 Múrbrjótshafar í ár eru fjórir:

Ríkisútvarpið -  fyrir sýningu sjónvarpsþáttanna “Með okkar augum”.

Sjónvarpsþættirnir “Með okkar augum” hafa verið sýndir á RÚV s.l. 2 sumur.  Í þáttunum eru það einstaklingar með þroskahömlun sem sinna dagskrárgerð auk þess að sjá um  upptökur og tæknivinnu.  Landsamtökin Þroskahjálp hafa átt í góðri samvinnu við Ríkisútvarpið um sýningu þáttanna, RÚV setti þá á besta sýningartíma s.l. sumar og áhorf hefur mælst hátt.  Þættirnir hafa vakið mikla athygli og ánægju fólks og hafa opnað augu margra fyrir margbreytileika mannlífsins og mikilvægi þess að raddir ólíkra einstaklinga fái að heyrast. Eitt af hlutverkum ríkisútvarpsins er einmitt að veita ólíkum röddum tækifæri og endurspegla það samfélag sem við búun í.  Með sýningu “Með okkar augum” hefur RÚV tekið það hlutverk sitt alvarlega og með því stuðlað að auknum sýnileika fatlaðs fólks í samfélagi okkar og breyttri ímynd fólks sem áður var lítt sýnilegt en er nú virkir þátttakendur á jafnréttisgrunni.

Benedikt Bjarnason – fyrir frumkvöðlastarf að notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Benedikt er ungur maður sem hefur notið notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar til fjölda ára.  Hann er frumkvöðull á Íslandi varðandi slíka framkvæmd og hefur bæði rekist á hindranir en einnig notið þeirra lífsgæða sem slík þjónusta veitir. Hann er virkur þátttakandi í samfélaginu, mætir til vinnu, sækir tónleika og heimsækir vini sína eins og annað ungt folk.  Þannig nýtur hann lífsins á eigin forsendum og er frumkvöðull og mikilvæg fyrirmynd þegar horft er til þróunar notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar á Íslandi.

Gísli Björnsson – fyrir einarða baráttu fyrir notendastýrðri persónulegri aðstoð.

Gísli er ungur maður sem hefur notið notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í nokkur ár.  Hann er varaformaður NPA – miðstöðvarinnar og hefur verið ötull talsmaður slíkrar þjónustu undanfarin ár.  Gísli hefur haldið fyrirlestra bæði innanlands og utan um mikilvægi notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og þau tækifæri sem slík þjónusta gefur fötluðu fólki.  Hann er einnig einn af Sendiherrum Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og hefur sem slíkur einkum lagt áherslu á 19.grein samningsins sem fjallar um réttinn til búsetu í samræmi við eigin óskir. 

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður – fyrir einarða baráttu fyrir notendastýrðri persónulegri aðstoð fyrir fatlað fólk á Íslandi.

Guðmundur hefur sem þingmaður barist fyrir því að notendastýrð persónuleg aðstoð verði að veruleika fyrir fatlað fólk á Íslandi. Hann var fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um notendastýrða persónulega aðstoð sem samþykkt var á Alþingi og hafði mikil áhrif á þá ákvörðun Alþingis að stuðla að slíkri þjónustu. Þá var hann skipaður formaður Verkefnisstjórnar um NPA  og hefur í því starfi staðið dyggan vörð um hagsmuni fatlaðs fólks við þróun verkefnisins.  Með baráttu sinni fyrir NPA og sem talsmaður verkefnisins innan þings og utan hefur Guðmundur stuðlað að bættri þjónustu og auknum tækifærum fatlaðs fólks á Íslandi