Nú hefur tekið til starfa önnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, nýr félagsmálaráðherra, samstarfssáttmáli birtur sem og fjárlög og fjármálastefna.
Nýr félagsmálaráðherra
Landssamtökin Þroskahjálp bjóða Guðmund Inga Guðbrandsson, nýjan félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, velkominn til starfa og óska honum velfarnaðar í þeim mikilvægu verkefnum sem honum hefur verið treyst fyrir. Samtökin óska eftir nánu samstarfi og samráði við ráðherra við að bæta kjör og stöðu fatlaðs fólks og tryggja því raunveruleg tækifæri til virkrar þáttöku í samfélaginu, til jafns við aðra.
Þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við embættinu sagðist hann ætli að setja kjör öryrkja og aldraðra á oddinn, ásamt kjaramálum. Samtökin lýsa sérstakri ánægju með þennan ásetning ráðherra, þar sem fráfarandi ríkisstjórn skilur þannig við að örykjar á Íslandi búa við sultarkjör sem ekki eru mannsæmandi, og eru Alþingi og stjórnvöldum til skammar.
Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur
Í stjórnarsáttmála annarrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sem var kynntur í gær, er lögð áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks með skerta starfsorku.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á ríkisstjórnina að standa betur við þessa yfirlýsingu sína en það sem finna mátti í stefnuyfirlýsingu fráfarandi ríkisstjórnar og reyndist vera orðin tóm.
Samtökin munu rýna stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á næstu dögum og birta samantekt úr henni.
Fjárlagafrumvarp og fjárlagstefna
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 og fjármálastefnu 2022 – 2026, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram, má finna mjög mikilvæga mælikvarða á hvort verk muni fylgja orðum í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem varða réttindi og tækifæri fatlaðs fólks og vernd þess gegn mismunun og aðgreiningu.
Landssamtökin Þroskahjálp munu skoða fjárlagafrumvarpið og stefnuna sérstaklega með tilliti til hagsmuna og réttinda fatlaðs fólks.
Sporin hræða en samtökin leyfa sér að vona að nýr félagsmálaráðherra og ríkisstjórnin muni raunverulega „setja kjör öryrkja á oddinn“ og láta við það verkin en ekki einungis orðin tala, eins og fráfarandi ríkisstjórn gerði.