Mynd: Klappið.is
Landssamtökunum Þroskahjálp hafa borist ábendingar og umkvartanir frá fötluðu fólki, sem á í erfiðleikum með að nýta sér nýtt greiðslu- og kortakerfi Strætó bs., KLAPP. Þroskahjálp hefur s.l. 1,5 ár fylgst náið með stafrænni framþróun hins opinbera og þrýst á að allar tæknilausnir og stafræn þjónusta sé aðgengileg og auðskiljanleg fötluðu fólki, eins og kveðið er á um að skuli vera í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent hlutaðeigandi stjórnvöldum bréf þar sem krafist er svara hvers vegna nýtt greiðslu- og kortakerfi Strætó bs., KLAPP, tekur ekki mið að þörfum og aðstæðum fatlaðs fólks. Nota þarf rafræn skilríki til þess að skrá sig inn á mínar síður, m.a. til þess að virkja afslátt fyrir örorkulífeyrisþega en stjórnvöldum má vera og hlýtur að vera fullljóst að rafræn skilríki eru ekki aðgengileg fyrir stóran hóp fatlaðs fólks .
Bréfið var sent til félagsmálaráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, Stafræns Íslands, Strætó bs., Tryggingastofnunar ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Landssamtökin Þroskahjálp óska skýrra og skjótra svara við bréfi.
Bréfið í heild:
26. nóvember 2021
Efni: Aðgangur að greiðslu- og kortakerfi Strætó og stafrænni þjónustu almennt.
Landssamtökunum Þroskahjálp hafa borist ábendingar og umkvartanir frá fötluðu fólki, sem á í erfiðleikum með að nýta sér nýtt greiðslu- og kortakerfi Strætó bs., KLAPP.
Við athugun starfsmanns Þroskahjálpar kom í ljós að notendur eru krafðir um rafræn skilríki við innskráningu í KLAPP. Hjá Strætó bs. fengust þær upplýsingar að áætlanir hafi verið um að leyfa einnig innskráningu með Íslykli en horfið hafi verið frá því vegna þess að sú auðkenningarleið sé á undanhaldi. Þá fengust þær upplýsingar hjá Strætó að persónuverndarfulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins hafi ekki heimilað að sóttar yrðu upplýsingar úr kerfum stofnunarinnar vegna örorkumats nema fólk auðkenndi sig með rafrænum skilríkjum. Í því sambandi skal bent á að TR notar þó Íslykil ásamt því að bjóða upp á auðkenningu með PIN númeri í gegnum síma.
Þolinmæði Landssamtakanna Þroskahjálpar er þrotin. Hlutaðeigandi stjórnvöld vanrækja enn og aftur skyldur sínar til þess að tryggja að stafræn framþróun útiloki ekki fatlað fólk frá því að nota þjónustu opinberra aðila. Það er óverjandi að fólki sé gert erfitt fyrir að nýta sér almenningssamgöngur nema nota til þess rafræn skilríki, sem stjórnvöldum má fyrir löngu vera fullljóst að eru mörgum ófáanleg.
Fatlað fólk er þegar mjög jaðarsett í íslensku samfélagi vegna aðgengisleysis og margvíslegrar mismununar á flestum sviðum. Það er líklegra til þess að búa við mjög bág efnahagsleg kjör en aðrir hópar og hefur takmörkuð tækifæri til þess að nýta sér tækniþekkingu. Þá er vitað og augljóst að mjög margt fatlað fólk nýtir sér almenningssamgöngur, m.a. að vegna lágra örorkubóta sem leiðir til þess að það er útilokað fyrir mjög marga að eignast og reka eigin bíl. Meðal annars vegna allra þessara þekktu staðreynda er lögð sérstök áhersla á það í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til þess að framfylgja, að við um þróun og nýtingu nýrrar tækni sé sérstaklega litið til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks sem og við skipulag almenningssamgangna.
Þá þarf ekki að hafa mörg orð um að þessi framkvæmd er í hróplegu ósamræmi við það meginmarkmið heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna að „skilja engan eftir“ en íslenska ríkið hefur lýst því yfir að þau ætli að hafa þau markmið að leiðarljósi í allri stefnumótun sinni og starfi, eins og glöggt kemur fram á heimasíðum stjórnaráðsins þar sem mikið og víða er vísað til heimsmarkmiðanna.
Samtökin hafa haft mikil skrifleg og munnleg samskipti við stjórnvöld í a.m.k. 1,5 ár sem og fundi með þeim, varðandi þróun og nýtingu stafrænnar tækni og það sem stjórnvöldum er skylt að gera og tryggja í því sambandi til að koma í veg fyrir mismunun, aðgreiningu, jaðarsetningu og útilokun fólks á grundvelli fötlunar.
Með vísan til þess sem að framan er rakið krefjast Landssamtökin Þroskahjálp skýrra og skjótra svara um hvernig á því stendur að Strætó bs. sé óheimilt að nýta sér Íslykil til auðkenningar, þegar hlutaðeigandi og ábyrgum stjórnvöldum hlýtur að vera fullljóst hvernig staðan er vegna aðgengisleysis að rafrænum skilríkjum fyrir fatlað fólk.
Þá óska samtökin upplýsinga um verkferla og afstöðu Tryggingastofnunar ríkisins, sem þjónustar einn berskjaldaðasta hóp samfélagsins, til þess sem fram kemur í þessu bréfi
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar