Druslugangan var gengin núna um helgina, eftir nokkurra ára Covid-hlé. Áherslumálefni Druslugöngunnar þetta árið voru jaðarsettar konur, en því miður tilheyra fatlaðar konur sannarlega þeim hópi. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, upplýsingafulltrúi Þroskahjálpar, hélt áhrifamikla ræðu á samstöðufundi Druslugöngunnar á Austurvelli. Ræðan birtist hér í heild sinni.
„„Veistu hvað það væri auðvelt að nauðga þér?“ hvíslar maður á bar að mér. Mig langar bara að fara út að skemmta mér með vinum mínum, en áreitið og ofbeldið er oftast óhjákvæmilegur hluti þess að fara út á meðal fólks. Einhver grípur um axlirnar á mér og byrjar að nudda mig og strjúka mér, annar riðlast á hjólastólnum mínum, einhver veður upp að mér og kyssir mig gegn vilja mínum. Viltu mig ekki? Ætlar þú að hafna mér? segja þau, hissa á að fötluð kona segi nei. Hissa á því að ég þykist geta sett mörk.
Talið er af þrjár af hverjum fjórum fötluðum konum verði fyrir ofbeldi. Þrjár af hverjum fjórum. Það eru meiri líkur á að þú verðir ofbeldi en ekki ef þú ert fötluð kona, og líkurnar aukast ef þú ert með þroskahömlun eða geðrænan vanda. Ofbeldi og kúgun er hluti af daglegu lífi okkar. Markaleysið er algjört og okkur er kennt það frá barnsaldri, meðvitað og ómeðvitað. Þetta er hluti af ofbeldismenningu og þetta er hluti af ableisma.
Þú getur ekki stoppað af heilbrigðisstarfsfólk sem meiðir þig, þú getur ekki valið hver aðstoðar þig, þú getur ekki valið hvort þú ert ein með fólki sem þú treystir ekki. Líf þitt er skipulagt og stýrt af öðrum og hver einasti dagur felur í sér að þú þurfir að gera þaul-útreiknað áhættumat til að reyna að lágmarka líkur á ofbeldi og áreitni. Hvernig horfir hann á mig, er hann líklegur til að fara yfir mörkin mín? Hvað geri ég ef þessi fer yfir strikið? Hvar er síminn minn? Hvert hringi ég? Hver er nálægt sem gæti hjálpað mér?
Þið, ófötluðu konurnar, fáið þau skilaboð að þið eigið ekki að setja ykkur í aðstæður þar sem þið verðið fyrir ofbeldi. En fatlaðar konur ekkert val.
Við setjum okkur ekki í þessar aðstæður; við erum settar í þessar aðstæður. Fatlaðar konur búa á stöðum sem þær velja ekki sjálfar, með fólki sem þær velja ekki sjálfar. Þær velja ekki hver hjálpar þeim í sturtu, hver hjálpar þeim að klæða sig. Þær eru neyddar til að nota ferðaþjónustu fatlaðra þar sem þær eru einar með mönnum sem þær þekkja ekki og treysta ekki. Þær eru í hættu þegar þær sækja sér heilbrigðisþjónustu, þegar þær fara til sjúkraþjálfara og þegar þær nýta sér alls kyns þjónustu eins og dagvistun og sumardvalir. Þær fá ekki að setja mörk og halda þeim. Þá eru þær dónalegar, reiðar og með HEGÐUNARVANDA. Okkur er kennt að vera þakklátar, við eigum að skilja að fólk meinti ekki illa. Við eigum að fræða fólk, við eigum að láta allt yfir okkur ganga.
En á sama tíma er litið á þær sem börn og þær stimplaðar óaðlaðandi, þær geta auðvitað ekki verið kynverur, það er ýmist krúttlegt eða ógeðslegt að þær eigi maka. Þannig að mennirnir sem beita þær ofbeldi eru stimplaðir öfuguggar. Enginn eðlilegur maður gæti misnotað fatlaða konu. Bara skrímsli. Og þessi maður er ekki skrímsli svo hann gæti nú ekki hafa gert þetta. Að sama skapi eru fatlaðar konur þvingaðar í ófrjósemisaðgerðir, gegn þeirra eigin vilja og stundum án þess að þær viti af því. Þær mega nú ekki verða óléttar þegar þeim er nauðgað.
Við búum í samfélagi sem er hannað fyrir ófatlað fólk. Samfélagi sem er beinlínis fjandsamlegt fötluðu fólki. Alls staðar eru ummerki um það. Alls staðar sem við komum völdum við ófötluðu fólki óþægindum, fólki sem gerir aldrei ráð fyrir tilvist okkar.
Við erum geimverur í samfélagi manna, frávik sem má vaða yfir, frávik sem má spyrja að öllu, frávik sem má glápa á, frávik sem má snerta og þukla á.
Á Nýja-Bæ var rekin sumardvöl fyrir fatlað fólk. Tvær konur með þroskahömlun sem voru þar urðu fyrir ofbeldi af hálfu starfsmanns og sögðu frá því. Sérfræðingar sem komu að málinu sögðu að þær sýndu mikla vanlíðan vegna þess, og að það væri svo gott sem útilokað að þær segðu ósatt eða lýstu öðru en því sem þær höfðu upplifað sjálfar. Þær gætu ekki, vegna fötlunar sinnar, sagt sögur eða lýst upplifun annarra. Þær gætu ekki haft eftir sögur frá öðrum.
Þær sýndu hugrekki til þess að lýsa því hvað maðurinn hafði gert, þær voru staðfastar í frásögn sinni og leituðu hjálpar. Þær fóru í viðtal við Kastljós og sögðu frá. Þá stigu fram þrír starfsmenn sem lýstu kynferðislegri áreitni af hálfu mannsins. En hvað gerist? Meintur gerandi og kona hans, sem varð vitni að öllu saman hringdu í annan þolandann, og þrýstu á hana að draga þetta til baka. Það er ljóst að manneskja með þroskahömlun hefur ekkert í slíka kúgun, valdamisræmið er augljóst. Ríkissaksóknari felldi svo málið niður og segir þá: „Þó framburður brotaþola verði að teljast trúverðugur þá verður gegn eindreginni neitun kærða ekki talið að framangreint veiti nægilegan stuðning fyrir þeim sökum sem bornar eru fram í málinu.“
Sem sagt, þær geta vegna fötlunar sinnar ekki sagt ósátt um málið samkvæmt sálfræðimati, þær segja eins frá í öll skiptin sem við þær er rætt, rannsókn málsins er ítarleg, gögnin í málinu eru talin skýr, ófatlaða konur stigu fram en málið er fellt niður því ófatlaður karl segir að hann hafi ekki brotið á þeim.
Fötluðum konum sem eru þolendur ofbeldis er nefnilega ekki trúað. Í fyrsta lagi trúir enginn að menn hafi nokkurn áhuga á fötluðum konum, og hvers vegna ætti þá að nauðga þeim? Ofbeldismál gagnvart fötluðum konum fá ekki athygli fjölmiðla og almennings. Saksóknarar fella oftar niður mál þeirra. Dómstólar trúa ekki frásögnum þeirra því tungumál valdhafa er ableískt svo ef þær geta ekki sett upplifun sína í þröngan ramma hins ófatlaða samfélags eru þær ekki teknar trúanlegar. Fólk sem tekur ákvarðanir um hvað sé ofbeldi og hvort þú hafir orðið fyrir ofbeldi getur aldrei skilið veruleika okkar.
Fólkið sem rekur úrræði fyrir þolendur ofbeldis skilur heldur ekki veruleika okkar og það þarf að standa miklu betur við bakið á fötluðum þolendum. Þrátt fyrir góðan vilja skilur það ekki hvað við þurfum og hvernig það er að lifa lífi sem er gegnsýrt af yfirráðum annarra og kúgun. Það skilur ekki hvernig það er að vera háður aðstoð annarra, háður hjálpartækjum, háður heilbrigðistækjum, og þurfa að flýja heimili sitt um miðja nótt án alls sem er þér algjörlega lífsnauðsynlegt.
Þau skilja ekki hvernig það er að slíta sambandi við ofbeldismanninn sem aðstoðar þig og styður þig, er þitt öryggisnet.
Hver hjálpar þér ef ofbeldismaðurinn fer úr lífi þínu? Hverjar verða afleiðingarnar ef þú segir frá ofbeldi af hálfu starfsmanns sem vinnur heima hjá þér? Hvað ef hann er ekki rekinn og heldur áfram að koma, vitandi að þú klagaðir? Afleiðingarnar þegar þú beitir fatlað fólk ofbeldi eru nefnilega engar og þetta vita fatlaðar konur.
Druslugangan er mikilvæg fyrir allar konur. Sama hvaða aldri þær eru á, sama úr hvaða stétt þær eru, hvað þær starfa við og hverjar þær eru. En Druslugangan er mikilvægust fyrir jaðarsettar konur: fatlaðar konur, konur sem neyta vímuefna, konur af erlendum uppruna, litaðar konur, feitar konur og kynlífsverkakonur — því samfélagið er ekki með þeim í liði. Ef samfélagið trúir ekki valdamiklum konum: leikkonum, lögfræðingum og þingkonum; hvernig tekur það þá á málum jaðarsettra kvenna?
Einn þolendanna á Nýja-Bæ sagði við mömmu sína, eftir að hafa hitt sálfræðing fyrir þolendur kynferðisofbeldis: „Mamma, ég er ekki ein.“ og nákvæmlega þess vegna er Druslugangan mikilvæg. Hún er mikilvæg til að við munum að við erum ekki einar.“