AUÐLESIÐ
- 13. september fögnum við því að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á afmæli.
- Í ár er hann 15 ára gamall.
- Sameinuðu þjóðirnar eru samtök þar sem þjóðir í heiminum hittast til að ræða og komast að samkomulagi um mikilvæg mál sem varða okkur öll.
- Samningurinn er mikilvægur því hann segir að allt fatlað fólk á að hafa mannréttindi eins og aðrir í samfélaginu.
- Samningurinn talar um staðalímyndir, fordóma og útilokun sem fatlað fólk upplifir.
- Samningurinn talar um hvaða réttindi fatlað fólk á að hafa.
- Ísland er búið að fullgilda samninginn um réttindi fatlaðs fólks.
- 182 lönd í heiminum hafa fullgilt samninginn.
- Það þýðir að að ríkin ætla að fara eftir því sem samningurinn segir.
- Samningurinn er mikilvægur til að berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks.
- Þroskahjálp vill að íslenska ríkið lögfesti samninginn. Það þýðir að hann verði að lögum í landinu. Það er mikilvægt fyrir fatlað fólk.
- Þroskahjálp vill að íslenska ríkið fullgildi valkvæðan viðauka.
- Það þýðir að fólk getur talað við nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum ef því finnst vera brotið á réttindum sínum á Íslandi.
- Þá getur nefndin hjá Sameinuðu þjóðunum sagt hvernig íslenska ríkið getur gert betur.
- Alþingi sagðist ætla að gera þetta en hefur ekki ennþá gert það.
Í dag, 13. desember, er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks 15 ára. Á þessum degi árið 2006 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna ályktun um samninginn og upphaf samningsins er því fagnað á þessum degi.
Markmið samningsins eru að „efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, jafnframt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.“
Mikilvægustu skilaboð samningsins til okkar allra eru að fatlað fólk á að eiga fullan rétt á öllum viðurkenndum mannréttindum til jafns við aðra og að fá að njóta einstaklingsfrelsis eins og annað fólk. Þess vegna leggur samningurinn sérstaka áherslu á tækifæri fatlaðs fólks til fullrar þátttöku á öllum sviðum mannlífsins og beinir spjótum sínum að venjum og siðum, staðalímyndum, fordómum, skaðlegri framkvæmd, einangun og útilokun sem tengist fötluðu fólki.
Mjög fáir alþjóðlegir samningar hafa verið fullgiltir af jafnmörgum ríkjum á skömmum tíma og samningurinnum um réttindi fatlaðs fólks. Á þeim 15 árum sem liðin eru frá því að Sameinuðu þjóðirnar lögðu samninginn fram hafa 182 ríki fullgilt hann og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja ákvæðum hans. Samningurinn er mjög öflugt tæki í baráttunni fyrir fullum mannréttindum fatlaðs fólks. Mikilvægasta verkefnið er þó enn og verður áfram að tryggja öllu fötluðu fólki í verki öll þau réttindi til fulls sem samningurinn mælir fyrir um.
Eftirlitsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur eftirlit með að ríki sem hafa fullgilt samninginn standa sig við að framfylgja honum með því að taka lög, reglur og framkvæmd þeirra út reglulega og gerir tillögur til ríkja um hvernig þau geta tekið á brotum gegn ákvæðum samningsins og tryggt fötluðu fólki full réttindi samkvæmt honum.
Staða samningsins á Íslandi
Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi til fulls sem þar er mælt fyrir um. Samningurinn var undirritaður af hálfu Íslands árið 2007 og höfðu langflest ríki í heiminum fullgilt samninginn þegar íslenska ríkið gerði það. Fullgilding samningsins var mikilvægur áfangi í að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og tækifæri sem flestu ófötluðu fólki þykja sjálfsögð.
Valkvæður viðauki við samninginn
Alþingi ályktaði mótatkvæðalaust árið 2016 að valkvæður viðauki við samning SÞ skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017. Það hefur ekki enn verið gert. Fullgilding viðaukans myndi veita fötluðu fólki og hópum, sem hafa fullreynt innlendar leiðir til að ná rétti sem samningurinn mælir fyrir um, rétt til að leita með mál sín til nefndar samkvæmt samningnum. Sá réttur veitir mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga.
Landssamtökin Þroskahjálp skora á ríkisstjórnina og Alþingi að ljúka því mikilvæga verkefni á árinu 2022 að fullgilda valkvæða viðaukann við samning SÞ og tryggja að í fjárlögum árið 2022 verði nægilegar fjárveitingar til þess.
Lögfesting samningsins
Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er að mati Þroskahjálpar afar mikilvægur liður í að tryggja nauðsynlega lagalega vernd mannréttinda fatlaðs fólks. Samkvæmt ályktun sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní 2019 átti að leggja fram frumvarp um lögfestingu samningsins eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki enn verið gert. Í stjórnarsáttmála ríkisstjóranrinnar segir: „Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur.“ Þar kemur hins vegar ekki fram hvenær á kjörtímabilinu ríkisstjórnin ætlar að hafa lokið því.
Í ljósi þess mikla dráttar sem þegar er orðinn á því að hrinda framangreindri þingsályktun um lögfestingu samningsins í framkvæmd skora Landssamtökin Þroskahjálp á ríkisstjórnina og Alþingi að ljúka því mikilvæga verkefni á árinu 2022 og tryggja að í fjárlögum fyrir árið 2022 verði nægilegar fjárveitingar til þess.